Skip to main content
search
Fréttir

Um virðingu fyrir fólki

By 26. apríl, 2015No Comments

Í ljósi þess hvernig umræða síðustu daga hefur þróast, þar sem hart hefur verið vegið að Samtökunum ‘78 og við sökuð um ýmsa miður fallega hluti, viljum við beina því til þeirra sem eiga að staldra örlítið við og íhuga að hætta að gera Samtökin ‘78 ábyrg fyrir allri gagnrýni sem á þeim dynja. Hætta að draga Samtökin ‘78 sífellt inn í algjörlega einhliða og mjög svo óupplýsta og ómálefnalega umræðu um hinsegin líf og hinsegin fræðslu.

Það skal tekið skýrt fram að Samtökin ‘78 hafa enga spunameistara í starfi hjá sér. Við höfum ekki her fólks á okkar snærum sem starfar við það að fordæma eða þagga niður ákveðnar skoðanir – hvorki með hótunum né hártogunum. Við höfum einfaldlega haldið okkar striki. Enginn hefur talað í nafni Samtakanna ‘78 með þeim hætti og enginn á okkar vegum hefur átt í "stríði” við nokkurn mann. Svo það sé á hreinu.

Hið svokallaða “hommastríð” er eitthvað sem við höfum engan áhuga á að taka þátt í. Enda boðum við og tölum fyrir mannvirðingu. Umræður síðustu daga um fræðslustarfið okkar og hinsegin fólk almennt hafa hinsvegar ekki einkennst af mannvirðingu. Þær hafa einkennst af mannhatri gegn hinseginfólki sem hefur gengið það langt að við hreinlega getum ekki setið undir því lengur. Við fögnum allri andstöðu við þetta mannhatur og okkur þykir gríðarlega vænt um að fjöldi landsmanna, tengdur eða ótengdur Samtökunum ‘78, hefur látið til sín taka og tekið afstöðu gegn því með málefnalegum og ábyrgum hætti. Það eflir okkur trú á að samfélag okkar sé að miklum meirihluta byggt upp af réttsýnu fólki sem áttar sig á að árásir á einn samfélagshóp, í þessu tilfelli hinsegin fólk, eru árásir á grunnstoðir okkar lýðræðislega samfélags – og þar með okkur öll.

Við í forystu Samtakanna ‘78 höfum þróað með okkur ansi þykkan skráp í gegnum tíðina og getum staðið af okkur ýmislegt. Það er hins vegar fjöldi fólks í okkar röðum, hinsegin fólk um allt land, börn þess, fjölskyldur og vinir, sem tekur þessari umræðu þungt. Ófögur og andstyggileg orð sem beint hefur verið gegn hinsegin fólki veldur því hugarangri og vanlíðan og í mörgum tilfellum sári sem illa grær – eða alls ekki. Við skulum nefnilega ekki gleyma því að hatursáróður gegn hinsegin fólki er engin nýlunda sem er að spretta upp síðustu daga. Þetta hefur verið og er viðvarandi vandamál. Og það er hreinlega lífsspursmál að fólk þurfi ekki að sitja undir því. Það á engin manneskja að þurfa. Eða sætta sig við.

Við hjá Samtökunum ‘78 erum alltaf boðin og búin að mæta jákvæð til leiks, taka þátt í umræðunni og fræða. En það verður heldur ekki litið framhjá þeim hrottaskap sem einkennt hefur umræðuna síðustu daga. Það eru takmörk fyrir því skítkasti sem hinseginfólk lætur bjóða sér að sitja undir, án þess að aðhafast neitt. Við áskiljum okkur því allan rétt til að skoða öll þau lagalegu úrræði sem okkur standa til boða – okkur til varnar.

Gleymum því ekki að opinber rógburður og umræða sem niðurlægir og níðir ákveðna hópa heggur fast að rótum lýðræðisins. Slík orðræða grefur undan þeim samfélagssáttmála sem við höfum komið okkur saman um: að hér eigum við öll að geta þrifist í samfélagi hvert við annað. Jöfn að rétti.

Og jöfn að virðingu.

Hilmar Hildarson Magnúsarson, formaður Samtakanna ‘78

Leave a Reply