Skip to main content
search
Fréttir

Umsögn Samtakanna '78 um frumvarp til laga um staðgöngumæðrun í velgjörðarskyni

By 5. desember, 2014No Comments

Nú liggja fyrir drög að frumvarpi til laga um staðgöngumæðrun í velgjörðarskyni og hafa Samtökin ‘78 skilað inn umsögn um það. Rétt er að minna á að Samtökin ’78 hafa tekið þá afstöðu að taka ekki afstöðu til staðgöngumæðrunar þar sem málið er umdeilt og um hana eru margar mismunandi skoðanir meðal félaga.

Samtökin hafa bent á að réttindi eins hóps skuli aldrei ganga á mannréttindi annars. Þó teljum við borðleggjandi að lög um staðgöngumæðrun mismuni ekki verði þau að veruleika, þá t.d. á grundvelli kynhneigðar eða kynvitundar. Því var farið yfir frumvarpið og lögð fram umsögn í þeim tilgangi að koma í veg fyrir mismunun og útilokun (beina og óbeina). Drög að frumvarpi til laga um staðgöngumæðrun má finna hér.

Eftirfarandi umsögn var send starfsmanni starfshóps um staðgöngumæðrun þann 3. desember:

Umsögn Samtakanna ’78 um frumvarp til laga um staðgöngumæðrun í velgjörðarskyni sem verður lagt fyrir á Alþingi á 144. löggjafarþingi 2014-2015.

Stjórn Samtakanna ’78 hefur tekið 10. grein frumvarpsins til umræðu og þykir hún nokkuð óljós þar sem deilt er um merkingu og afleiðingar hennar. Við vildum því koma eftirfarandi á framfæri með von um að koma í veg fyrir misskilning og/eða útilokandi löggjöf.

Í 10. gr frumvarpsins kemur fram eftirfarandi:

Við staðgöngumæðrun í velgjörðarskyni er skylt að nota kynfrumu frá a.m.k. öðru væntanlegra foreldra, eftir því sem við á. Eingöngu er heimilt að nota gjafakynfrumu við staðgöngumæðrun hjá einhleypum einstaklingi eða ef frjósemi annars væntanlegs foreldris er skert, um er að ræða alvarlegan erfðasjúkdóm eða aðrar læknisfræðilegar ástæður mæla með notkun gjafakynfrumu.

Skiljum við greinina svo að annað foreldri þurfi alltaf að leggja til kynfrumur og að einungis megi fá gjafakynfrumur til móts við þær búi hitt foreldrið við skerta frjósemi, alvarlegan erfðasjúkdóm eða aðrar læknisfræðilegar ástæður. Hins vegar standi einstaklingum til boða gjafakynfrumur, þá einungis til móts við sínar eigin kynfrumur.

Innan hóps hinsegin fólks getur vel komið upp sú staða að tveir aðilar (par) geta lagt til sæði en vantar gjafakynfrumur ef úr á að verða barn. Samkvæmt 10. gr. frumvarpsins virðist ekki augljóst að gjafakynfrumur myndu standa þeim aðilum til boða, enda er hvorugur með skerta frjósemi, alvarlegan erfðasjúkdóm og ekki eru læknisfræðilegar ástæður sem mæla með notkun gjafakynfrumu. Ekki er minnst á líffræðilegar ástæður, sem virðast þó vera notaðar til að ná utan um samkynja pör og trans fólk í 9. gr. frumvarpsins. Í umræðum um tæknifrjóvganir til handa tveimur konum er stundum talað um félagslega ófrjósemi. Deila má um heppileika þess hugtaks, en okkur þykir ljóst að einhverju slíku þurfi að bæta í ofangreindan texta 10. gr. frumvarps til laga um staðgöngumæðrun í velgjörðarskyni. Ef ekki, virðist ljóst að lögin verði útilokandi þar sem t.d. samkynja pör glíma ekki endilega við skerta frjósemi, alvarlega erfðasjúkdóma eða aðra læknisfræðilega þætti (sem eru skilyrði fyrir því að fá gjafakynfrumur samkv. frumvarpinu), en þurfa samt sem áður gjafakynfrumur.

Einnig setjum við spurningamerki við það að annað væntanlegra foreldra þurfi að leggja til kynfrumur. Það getur vissulega verið svo innan hvaða hóps sem er (hinsegin eða ekki) að hvorugur aðili búi yfir kynfrumum sem nýtast til barneigna. Má þó sérstaklega benda á stöðu trans fólks sem hefur farið í gegnum kynleiðréttingarferli, en í mörgum tilfellum útilokar það barneignir og framleiðslu einstaklinga á kynfrumum. Vissulega er hægt að benda ófrjóum pörum á ættleiðingar, en það er ljóst að þá stendur hinsegin fólk höllum fæti þar sem fá lönd leyfa t.d. samkynhneigðum að ættleiða, og er Íslensk ættleiðing ekki með samninga við neitt land sem leyfir slíkt. Þessi klausa er því afdrifaríkari fyrir hinsegin fólk en gagnkynhneigt sís (e. cisgender) fólk.

Eins þykir okkur rétt að benda á að upp getur komið sú staða að karlmaður geti gengið með barn (trans karl) og er því ljóst að samkvæmt skilgreiningu frumvarpsins á staðgöngumóður (að hún sé kona) verði þeir útilokaðir frá því hlutverki. Með breyttu orðalagi væri hægt að útvíkka skilgreininguna og þar með opna fyrir þann möguleika að (trans) karlar geti einnig gerst staðgöngumæður. Í þessu sambandi bendum við á að það sé hvorki okkar né lagasmiðanna að skera úr um hvort trans karlar teljist viljugir eða hæfir til þess að gerast staðgöngumæður, enda skuli þeir ávallt mæta skilyrðum sem settar eru í öðrum kafla frumvarpsins.

Leave a Reply