Skip to main content
Fréttir

Umsögn um frumvarp til staðgöngumæðrunar

By 10. nóvember, 2015No Comments

Samtökin hafa sent inn umsögn um frumvarp til staðgöngumæðrunar. Rétt er að minna á að Samtökin '78 hafa tekið þá afstöðu að taka ekki afstöðu til staðgöngumæðrunar þar sem málið er umdeilt og um hana eru margar mismunandi skoðanir meðal félagsmanna. Samtökin hafa bent á að réttindi eins hóps skulu aldrei ganga á mannréttindi annars. Þó teljum við mikilvægt að tryggt sé að lög um staðgöngumæðrun mismuni ekki, verði þau að veruleika, þá t.d. á grundvelli kynhneigðar, kynvitundar eða kyneinkenna. Því var farið yfir frumvarpið og hér lögð fram umsögn í þeim tilgangi að koma í veg fyrir mismunun og útilokun (beina og óbeina).

Samtökin ’78 gera athugasemdir við 10. grein frumvarspsins sem fjallar um notkun kynfruma og fósturvísa. Þar kemur fram að annað væntanlegra foreldra þurfi að leggja til kynfrumur og að einhleypur einstaklingur þurfi að gera slíkt hið sama. Það getur vissulega verið svo innan hvaða hóps sem er (hinsegin eða ekki) að hvorugur aðili búi yfir kynfrumum sem nýtast til barneigna. Fyrir suma innan þess hóps eru ættleiðingar raunverulegur möguleiki en ekki fyrir aðra. Hinsegin fólk og aðrir hópar (t.d. fatlað fólk) hafa ekkert eða verulega skert aðgengi (eftir atvikum) að ættleiðingum. Að auki eru þessir hópar líklegri til að geta ekki lagt fram kynfrumur. Má þar sérstaklega benda á stöðu transfólks sem hefur farið í gegnum kynleiðréttingarferli, en í mörgum tilfellum útilokar það barneignir og framleiðslu einstaklinga á kynfrumum. Einnig er intersex fólk mjög ólíklegt til að geta lagt fram kynfrumur, í sumum tilfellum vegna aðgerða sem þau hafa sætt sem börn. Umboðsmaður barna hefur ályktað að margar af þeim aðgerðum séu mannréttindabrot. Við bendum því á að sá hópur sem er hvað líklegastur til að geta ekki lagt fram kynfrumur er einnig sá hópur sem á hvað erfiðast með aðgengi að ættleiðingum. Á þann hátt mismunar frumvarpið á óbeinan hátt hinsegin fólki.

Rökin fyrir því að annað foreldrið verði að leggja til kynfrumur telja Samtökin ‘78 afar veik til móts við þá hagsmuni sem raktir hafa verið hér á undan. Í greinargerð með ákvæðinu segir: „Af þessu skilyrði leiðir að lagt er til að barn sem verður til við stað­göngumæðrun í velgjörðarskyni eigi alltaf líffræðilega tengingu við væntanlegt foreldri sem þykir auka líkur á að væntanlegir foreldrar standi við skuldbindingu sína um að ganga barni í foreldrastað.” Ekki er vísað til neinna rannsókna sem sýna að fólk sem ekki á annan kost en að fá gefins bæði egg og sáðfrumu sé ólíklegra til að standa við skuldbindingar sínar gagnvart barninu. Frumvarpið er litað af þeirri skoðun að líffræðileg tengsl foreldra við börn sín séu æðri annarskonar tengingum. Samtökin ‘78 hljóta að mótmæla slíkum ályktunum enda ganga þær í berhögg við hagsmuni fjölmargra félagsmanna okkar. Innan hinsegin samfélagsins eru samsettar fjölskyldur algengar og fjölskyldutengsl verða iðulega til án líffræðilegs skyldleika. Það mikilvægt að kerfið styðji og viðurkenni þess konar tengsl. Frumvarp það sem hér er til umræðu gerir að okkar mati lítið úr þeim og ýtir undir yfirskipun þeirra fjölskylduforma sem mest líkjast hinu gagnkynhneigða sískynja normi þar sem líffræðileg tengsl eru ráðandi, og ýtir um leið undir undirskipun fjölskyldutengsla sem ekki grundvallast á líffræði. Af þessu leiðir að Samtökin´78 leggjast gegn frumvarpinu í þeirri mynd sem það er nú.  

Leave a Reply