Skip to main content
search
Fréttir

Úttekt á Iceland Express Cup 2009

By 13. maí, 2009No Comments

Núna þegar rykið er sest og harðsperrur hjaðna eftir fótboltamót Styrmis um páskana er tími til kominn að kreista út dulitla samantekt af hver hvað hvar & hvenær í atburðarás aprílmánaðarins hjá okkur. Undirritaður hefði fyrir löngu átt að vera búinn að niðurrita allt þetta, en sakir þess að hann stóð pliktina milli stanganna í marki og meiddi sig á hendi hefur orðið sinaskeiðadráttur á frétt þessari.

En svo tæpt sé á helstu viðburðum hófst mótið með skráningu keppenda og afhendingu ghey-gjafapakka í Samtökunum 78 á miðvikudeginum 8. apríl, síðar um kvöldið hristum við hópinn saman með léttu pub-quiz kvöldi þar líka. Dagurinn eftir hófst síðan snemma með Esjugöngu, en í eftirmiðdaginn var svo formleg móttaka erlendra gesta haldin í Höfuðborgarstofu Geysishúss þar sem ræður héldu Katrín Jakobsdóttir menntamálaráðherra og Kjartan Magnússon formaður íþrótta- og tómstundaráðs Reykjavíkurborgar. Að móttökuathöfninni lokinni var mannskapnum boðið í stórskemmtilega kvöldsiglingu um sundin blá í einu af hvalaskoðunarskipum Eldingar, eftirminnilegt og óvenjulegt kvöld fyrir flesta. Á föstudeginum tókum við klassískan túr í Bláa Lónið en svo um kvöldið var sameiginlegur kvöldverður og opnunarhátið þar sem m.a. var dregið í keppnisriðla.

Stóri dagurinn sjálfur, mótsdagur 11. apríl rann upp með eftirvæntingu okkar sem að skipulagningunni komum, og eins og áður sagði gekk framkvæmd mótsins og leikja allra tólf liða þess framar vonum. Ekkert skipulag er fullkomið, en okkar skipulag stóðst öll ófyrirsjáanleg atvik og uppákomur, hvort sem um var að ræða meiðsli, dómaramál, veitingar o.sv.frv. Stendur félagið í mikilli þakkarskuld við öflugt teymi sjálfboðaliða sinna sem sáu til þess að allt gekk snurðulaust fyrir sig.                                                 

Úrslit mótsins urðu annars þau að lið Dana í Pan-Fodbold félaginu frá Kaupmannahöfn fögnuðu sigri eftir æsispennandi vítaspyrnukeppni og alla leið í bráðabana við okkar eigin Styrmisstráka. Síðast en ekki síst um kvöldið eftir að leikjum lauk héldum við loks glæsilega verðlaunaafhendingu og dansveislu á skemmtistaðnum Rúbín í Öskjuhlíð þar sem Páll Óskar skemmti gestum eins og honum einum er lagið fram á rauðanótt.

Að öllu framansögðu skemmtu menn sér konunglega, og standa vonir Styrmisstjórnarinnar til þess að við getum endurtekið leikinn með jafnvel stærra sniði í ekki-svo-fjarlægri framtíð. Here’s hoping…

f.h. Styrmis,

Þorvaldur S. Björnsson varaformaður

Leave a Reply