Skip to main content
AlþjóðamálFréttirHagsmunabaráttaViðburður

Vegna mótmæla við rússneska sendiráðið

By 5. maí, 2017maí 28th, 2020No Comments

Tveir viðburðaríkir dagar við rússneska sendiráðið eru að baki. Samstaðan um þessa mótmælaaðgerð hefur verið gríðarmikil og við erum virkilega þakklát öllum þeim sem staðið hafa vaktina við Garðastrætið. Það er ljóst að Rússum þykir einkar óþægilegt að vera minntir á skyldur sínar gagnvart hinsegin fólki og full ástæða til að halda því áfram.

Í Tsjetsjeníu er verið að hneppa homma og tvíkynhneigða karla í fangabúðir, berja þá og pynta, þvinga upp úr þeim upplýsingar um meðbræður sína og hvetja fjölskyldur þeirra til að drepa þá. Meðan Rússar, sem háð hafa stríð til þess að halda yfirráðum í Tsjetsjeníu, líta framhjá þessum voðaverkum eru þeir samábyrgir. Rússland verður að grípa inn í tafarlaust, rannsaka þessa glæpi til hlítar og draga hina seku til ábyrgðar. Það er skammarlegt að starfsmenn sendiráðsins skuli halda því fram við mótmælendur að margstaðfestar fréttir af útrýmingarherferð séu aprílgabb.

Eftir afar jákvæð samskipti við lögreglu á miðvikudaginn brá okkur í brún í upphaf fimmtudags, þegar mótmælendum var meinað að standa á gangstéttinni fyrir framan sendiráðið og þeim stjakað frá. Einnig var viðbúnaðarstigið, með fjórum bílum og sérsveitarmönnum, langt úr hófi fram að okkar mati. Við tjáðum Lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu að við værum afar ósátt við þessar ákvarðanir. Var það fært til bókar í skýrslum um atvikið. Viðbúnaðarstigið minnkaði töluvert í kjölfarið, þótt okkur væri áfram meinað að standa á gangstéttinni við sendiráðið.

Í ljósi þessa var sérstaklega ánægjulegt hvernig deginum lauk. Síðustu tímana stóðu lögreglumennirnir tveir sem voru á vakt á „hinni gangstéttinni“ með mótmælendunum, ræddu við þá og sýndu þannig mikinn samhug og samstöðu með aðgerðinni. Við kunnum þeim bestu þakkir fyrir það, sem og Kristjáni Guðnasyni yfirlögregluþjóni og öðrum sem við höfum átt góð samskipti við síðustu dagana.

Við munum standa vaktina aftur frá hádegi á morgun og halda áfram að minna á hið skelfilega ástand í Tsjetsjeníu. Við hvetjum svo öll sem vettlingi geta valdið til að ganga með okkur frá Suðurgötu 3 að sendiráðinu við Garðastrætið kl. 16 á morgun. Friðsamleg samstaða okkar talar sínu máli andspænis hrottalegu ofbeldinu sem bræður okkar Tjetjenar mega þola.

Hinsegin samstöðukveðjur,
stjórn Samtakanna ’78

Leave a Reply