Skip to main content
search
Fréttir

Viðburðaríkt afmælisár – Samtök í aldarfjórðung

By 1. janúar, 2003No Comments

Fréttir

 

Í vor minnumst við þess að aldarfjórðungur er liðinn frá stofnun Samtakanna ´78. Afmælisins verður minnst með veglegri veislu í apríl fyrir félagsmenn, aðstandendur þeirra og hina fjölmörgu vini félagsins. Jafnframt minnumst við þessara tímamóta árið um kring með ýmsum viðburðum sem varða samkynhneigða, líf þeirra og menningu. Má þar nefna röð fyrirlestra í Háskóla Íslands, málþing um atvinnumál í lok janúar og kvikmyndahátíð að hausti. Ekki má heldur gleyma þátttöku félagsins í Hinsegin dögum í Reykjavík sem á þessu ári verða haldnir hátíðlegir með göngu og útihátíð hinn 9. ágúst.

Þegar líður á árið munum við hér vefsíðunni vekja athygli á mikilvægum verkum sem líta dagsins ljós á árinu en tengjast Samtökunum ´78 misjafnlega náið. Þar má nefna fyrstu íslensku heimildakvikmyndina um samkynhneigt fólk hér á landi og tvær bækur um líf og veruleika samkynhneigðra og aðstandenda þeirra, aðra á íslensku en hina á ensku. Við kynnum námskeið í hinsegin fræðum sem haldið er á vegum félagsvísindastofnunar Háskóla Íslands svo og málþing um íslensku þjóðkirkjuna og samkynhneigð sem guðfræðinemar efna til. Það er okkur sérstakt ánægjuefni að geta á næstu mánuðum kynnt hér það sem aðrir en Samtökin ´78 gera til þess að fjalla um samkynhneigðan veruleika í samfélagsumræðu og listum því að það undirstrikar þann sýnileika sem menning og tilvera lesbía og homma hefur smám saman öðlast á Íslandi síðastliðinn aldarfjórðung.

Röð hádegisfyrirlestra í Háskóla Íslands

Á afmælisárinu bjóða Samtökin ´78 til sex hádegisfyrirlestra í samvinnu við félagsvísindadeild Háskóla Íslands, Mannréttindaskrifstofu Íslands og FSS, félag samkynhneigðra og tvíkynhneigðra stúdenta. Sex þjóðkunnir fræðimenn miðla þar af þekkingu sinni og íhugun, en fyrirlestraröðin nefnist Samkynhneigð í menningu samtímans og hefst 17. janúar. Dagskráin er sem hér segir.

Föstudagur 17. janúar
Sigrún Sveinbjörnsdóttir
Samkynhneigð, sálfræði og samfélag: Ungt fólk í háska

Föstudagur 14. febrúar
Þóra Björk Hjartardóttir, málfræðingur
Orð á hreyfingu. Orð og orðanotkun tengd ssamkynhneigð

Föstudagur 28. febrúar
Birna Bjarnadóttir
Óræði kynhvatar í óútreiknanlegum persónum: Sköpunarkraftur hvatalífsins í samfélagssýn Guðbergs Bergssonar

Föstudagur 14. mars
Ragnar Aðalsteinsson
Mannleg göfgi: Verða sumir hópar manna sviptir hinum jafnborna rétti til mannlegrar virðingar?

Föstudagur 28. mars
Ólafur Þ. Harðarson
Samkynhneigð og breytingar á gildismati almennings á Vesturlöndum

Föstudagur 11. apríl
Dagný Kristjánsdóttir
Ég er að norðan . . . mig hefur alltaf dreymt um tvær í einu“: Um íslenska lesbíudrauminn í auglýsingum og bókmenntum

Fyrirlestrarnir verða fluttir í stofu 101 í Odda, Háskóla Íslands, og hefjast kl. 12 á hádegi. Að þeim loknum gefst áheyrendum kostur á að bera fram fyrirspurnir og taka þátt í stuttum umræðum.

Fyrirlestrarnir eru öllum opnir.

Bæklingur með viðburðum ársins kemur út 15. janúar.

 

Leave a Reply