Skip to main content
search
Fréttir

Vilt þú vinna með ungu hinsegin fólki?

By 14. ágúst, 2015No Comments

Sjálfboðaliðar ungliðahreyfingar Samtakanna '78 óskast!

Ungliðastarf Samtakanna ‘78 er ætlað ungmennum á aldrinum 14-20 ára. Ungliðastarfið er skipulagt af ungliðunum sjálfum en undanfarin ár hafa tveir til fjórir eldri sjálfboðaliðar einnig komið að starfinu og aðstoðað við skipulagningu og framkvæmd starfsins. Nú óskum við eftir fleiri sjálfboðaliðum til að bætast við þennan hóp og styðja við ungliðastarf samtakanna.

Sjálfboðaliðar ungliðahreyfingar Samtakanna ‘78 taka ábyrgð á ungliðastarfinu. Þeir skipta með sér ábyrð á ungliðakvöldum, hafa lyklavöld og sjá til þess að starfið fari vel fram, auk þess að aðstoða stjórn við að skipuleggja viðburði og það starf sem framundan er. Ef stjórn ungliðanna er ekki fær um að halda uppi markvissu ungliðastarfi er það hlutverk sjálfboðaliða að grípa inn í. Sjálfboðaliðar eru einnig tengiliðir við stjórn Samtakanna ‘78.

Nánar um sjálfboðaliða

Hæfniskröfur:

  • reynsla í að vinna með ungu fólki æskileg
  • grunnþekking á hinsegin málefnum skylda
  • vilji til að læra meira skylda
  • reynsla af óformlegum menntunaraðferðum, námskeiðishaldi og skipulagningu kostur
  • þekking á æskulýðsstarfsumhverfi á Íslandi kostur
  • hæfni í mannlegum samskiptum
  • verður að hafa náð 25 ára aldri

 

Starfið:

Ungliðakvöld eru haldin á sunnudagskvöldum frá kl. 19:30-22:30. Sjálfboðaliðar skipta með sér kvöldum og er einn sjálfboðaliði ábyrgur fyrir hverju kvöldi, u.þ.b. eitt kvöld í mánuði. Þar að auki mæta sjálfboðaliðar á eitt annað kvöld í mánuði, en er þá ekki skylda að vera á staðnum allan tímann. Æskilegt er að sjálfboðaliðar mæti á fleiri kvöld þegar hentar, allavega hluta kvöldsins.

Fundir sjálfboðaliða eru haldnir a.m.k. einu sinni í mánuði, oftar ef þörf er á. Fundir sjálfboðaliða og stjórnar ungliða eru einnig haldnir a.m.k. einu sinni í mánuði, oftar ef þörf er á. Stundum hittast ungliðar utan fastra funda á sunnudagskvöldum og er þá æskilegt að einhverjir úr hópi sjálfboðaliða komist, en ekki er gerð krafa um það.

Þegar sjálfboðaliði ber ábyrgð á ungliðakvöldi er mæting kl 19:15 til að opna. Sjálfboðaliði er einnig síðastur til að fara í lok kvölds, stundum ekki fyrr en 22:45.

Lágmarks tímakröfur eru því 3.5 klst í hverjum mánuði fyrir umsjónarkvöld, 3 klst fyrir aðstoðarumsjónarkvöld, 2 klst í sjálfboðaliðafund, 2 klst í fundi með stjórn, og getur farið yfir þetta þegar önnur staða kemur upp.

Ekki er gerð sérstök krafa um að sjálfboðaliðar fari langt yfir þann tíma sem hér kemur fram. Vegna stöðu sinnar gagnvart ungliðunum hefur sú staða þó oft komið upp að gott sé fyrir ungliðana að hafa sjálfboðaliða til taks að meira marki. T.d. getur verið gott að sjálfboðaliði veiti leiðsögn í umræðum ungliðanna á samfélagsmiðlum og þá koma oft upp mál og verkefni sem sjálfboðaliðar aðstoða ungliðana við og taka mun meiri tíma en hér kemur fram. Sú vinna er þó háð sveigjanleika sjálfboðaliða og er ekki ætlast til að sjálfboðaliðar séu ávallt til taks.

Æskilegt er að sjálfboðaliðar geti tekið að sér stöðuna í u.þ.b. eitt ár í senn.

Í þessari stöðu geta sjálfboðaliðar lært um hinsegin málefni, deilt af þekkingu sinni og reynslu, hjálpað til við að byggja upp hágæða ungliðastarf, öðlast reynslu í námskeiðishaldi og skipulagningu og að vinna með hóp, geta fengið meðmæli, auk þess að verða hluti af almennum sjálfboðaliðahóp Samtakanna ‘78 er gerir sér ýmislegt til skemmtunar. Þar að auki er ungliðastarfið þrælskemmtilegt!

ATH – óskað verður eftir sakavottorði frá umsækjendum áður en störf hefjast. Kostnaður vegna útgáfu sakavottorðs er endurgreiddur af Samtökunum '78 en umsækjendur skulu hafa í huga að sakavottorð þeirra þurfa að vera laust við kynferðisbrot eða önnur brot er varða börn og viðkvæma samfélagshópa

Viltu sækja um?

Hér má finna umsóknareyðublað og nánari upplýsingar um starf sjálfboðaliða.

Leave a Reply