Skip to main content
search
FréttirYfirlýsing

Yfirlýsing frá stjórn og Velunnurum Samtakanna ’78

By 1. júlí, 2016desember 11th, 2021No Comments

Eftir sáttaviðræður undir handleiðslu Hafsteins Gunnars Hafsteinssonar, sáttamiðlara, hafa stjórn Samtakanna ’78 og Velunnarar Samtakanna ’78 komist að samkomulagi um að boðað verði á ný til aðalfundar ársins 2016.

Undanfarna mánuði hafa geisað deilur í Samtökunum ‘78 er lúta að hagsmunaaðild félagsins BDSM á Íslandi og framkvæmd aðalfundar þess er haldinn var 5. mars síðastliðinn. Allstór hópur fólks hefur gengið úr félaginu í kjölfar þeirra deilna. Einnig hefur stór hópur skrifað undir áskorun til sitjandi stjórnar um að halda löglegan aðalfund og annar hópur hefur lýst yfir stuðningi við sitjandi stjórn. Þetta er staða sem forsvarsmenn félagsins telja óviðunandi. Eftirfarandi sáttatillögur eru hugsaðar af báðum aðilum til að leiða saman þessa hópa, sem eiga það sameiginlegt að vilja veg Samtakanna ‘78 sem mestan. Með þessu samkomulagi er ennfremur orðið við áskorun Velunnara Samtakanna ‘78 til stjórnar er afhent var 18. maí sl. og þeirra 128 félagsmanna er rituðu nafn sitt á hana.  Stjórn Samtakanna 78 þykir leitt hversu langan tíma það hefur tekið að leita leiða til sátta og samkomulags.
Samkomulagið felur eftirfarandi í sér:
  • Undirbúningur fyrir aðalfund 2016 hefst að nýju á upphafspunkti.
  • Fulltrúar sitjandi stjórnar og fulltrúar Velunnara Samtakanna ‘78 munu sameiginlega standa að boðun og framkvæmd aðalfundar.
  • Aðalfundur Samtakanna ‘78 verður haldinn sunnudaginn 11. september 2016.
  • Ákvarðanir fundanna 5. mars og 9. apríl eru ógildar.
  • Sitjandi stjórn og trúnaðarráð munu starfa áfram fram að aðalfundinum en hefur stjórn þó takmarkað umboð til að skuldbinda félagið, t.d. fjárhagslega til langs tíma. Komi upp sú ólíklega staða að stofna þurfi til slíkra skuldbindinga, verður þeim ákvörðunum skotið til félagsfundar.
  • Umsóknir um hagsmunaaðild skulu berast í tæka tíð til að hægt sé að staðfesta lögmæti þeirra, leiki vafi á því. Mælst er til þess að slíkar umsóknir berist a.m.k. mánuði fyrir aðalfund; að öðrum kosti er ekki tryggt að unnt verði að meta lögmæti umsóknarinnar áður en fundarboð er sent út. Leiki vafi á hagsmunatengslum félags er sendir inn umsókn mun sáttamiðlari tilnefna óháðan lögmann til að leggja mat á lögmæti umsóknarinnar.
  • Hvorugur hópurinn stefnir á að leggja lagabreytingartillögur fyrir fundinn, þótt öðrum sé frjálst að gera það, lögum samkvæmt.
  • Kosningarétt á þessum aðalfundi hafa allir skráðir félagar sem greitt hafa félagsgjöld ársins 2016. Við vonum eindregið að þeir félagar sem hafa sagt sig úr félaginu undanfarna mánuði muni endurskoða þá ákvörðun, skrá sig aftur í félagið og taka þátt í aðalfundinum.
Er það von bæði stjórnar og Velunnara að aðalfundur þessi muni marka upphaf að nýju tímabili opinskárra og yfirvegaðra umræðna innan Samtakanna ’78 um uppbyggingu, markmið, sögu og starfsemi þeirra.
F.h. stjórnar og Velunnara Samtakanna ‘78:
Ásthildur Gunnarsdóttir, f.h. stjórnar Samtakanna ‘78
Frosti Jónsson, f.h. Velunnara Samtakanna ‘78
Kristín Sævarsdóttir, f.h. Velunnara Samtakanna ‘78
Margrét Sigurðardóttir, f.h. Velunnara Samtakanna ‘78
María Helga Guðmundsdóttir, f.h. stjórnar Samtakanna ‘78
Unnsteinn Jóhannsson, f.h. stjórnar Samtakanna ‘78
Næstu skref – tímalína
Eigi síðar en 31. júlí
Dagsetning fundar auglýst.
Þessari auglýsingarskyldu er fullnægt með birtingu þessarar yfirlýsingar og sendingu hennar í tölvupósti, sjá grein 3.1 í lögum félagsins: „Dagsetningu fundarins skal auglýsa á vefsíðu félagsins og með tölvupósti eigi síðar en 15. janúar [í þessu tilviki: með sex vikna fyrirvara]. Til fundarins skal svo boða bréflega með minnst tveggja vikna fyrirvara.“
11. ágúst / mánuði fyrir aðalfund
Frestur til að skila inn lagabreytingatillögum rennur út. Mælst til þess að umsóknir um hagsmunaaðild berist fyrir þennan tíma.
Lagabreytingartillögur
Stjórn og Velunnarar leggja til að engar breytingar verði gerðar á lögum félagsins að þessu sinni. Með þessari tillögu er ætlunin að auðvelda og einfalda aðalfundarstörfin á þessum óvenjulega tíma ársins. Stjórn og Velunnarar eru sammála um að farsælla sé að bíða með hugsanlegar lagabreytingar fram að aðalfundi í mars 2017. Nota megi tímann fram að því til að meta þörf á slíkum breytingum og vanda undirbúning þeirra. Við vonumst til að félagsmenn virði það, þótt frjást sé að leggja fram tillögur að lagabreytingum í samræmi við lög félagsins.
Umsóknir um hagsmunaaðild
Lögum samkvæmt skulu umsóknir um hagsmunaaðild berast áður en fundarboð er sent út hálfum mánuði fyrir fundinn. Í ljósi aðstæðna er óskað eftir því að slíkar umsóknir berist í tæka tíð til að hægt sé að staðfesta lögmæti þeirra, leiki vafi á því. Því er mælst til þess að slíkar umsóknir berist a.m.k. mánuði fyrir aðalfund; að öðrum kost
i er ekki tryggt að unnt verði að meta lögmæti umsóknarinnar áður en fundarboð er sent út.
Berist umsókn síðar en mánuði fyrir fund gæti farið svo að hún væri úrskurðuð ólögmæt eftir að hafa verið auglýst í fundarboði. Til að forðast að sú staða komi upp förum við þess á leit við áhugasöm félög að þau virði þennan aukna umsóknarfrest.
28. ágúst / tveim vikum fyrir aðalfund
Fundarboð sent bréflega
Fundarboð verður sent tímanlega með pósti þannig að það berist félagsmönnum a.m.k. tveimur vikum fyrir aðalfund. Lögum samkvæmt mun bréfið innihalda upplýsingar um lagabreytingatillögur og umsóknir um hagsmunaaðild, ásamt hefðbundnum upplýsingum í aðalfundarboði – stað, stund og dagskrá skv. grein 3.5 í lögum samtakanna.
Framboðsfrestur til trúnaðarstarfa rennur út hálfum mánuði fyrir aðalfund, lögum samkvæmt.
Kjörnefnd sú er kjörin var í nóvember 2015 mun auglýsa eftir framboðum og hafa umsjón með framkvæmd kosninga á fundinum. Kjörnefnd mun setja skriflegar verklagsreglur um störf sín í samvinnu við fulltrúa stjórnar og Velunnara.
Framboð skulu að vanda berast nefndinni skriflega og verða kynnt á heimasíðunni strax í framhaldinu.
11. september: Aðalfundur 2016

Leave a Reply