Skip to main content
search
AlþjóðamálFréttirHagsmunabarátta

Yfirlýsing vegna brottvísunar hinsegin hælisleitanda

By 26. október, 2016nóvember 25th, 2021No Comments

Samtökin ‘78 syrgja í dag. Góðum vini okkar og sjálfboðaliða hefur verið gert að yfirgefa landið og snúa í óviðunandi aðstæður á Ítalíu.
Amír sótti um hæli á Íslandi sumarið 2015 en hann er samkynhneigður maður frá Íran. Ekki þarf að fjölyrða um aðstæður samkynhneigðra í Íran en þar er líf okkar samfélagshóps í stöðugri hættu. Amír fer þaðan til Ítalíu þar sem hann verður fyrir alvarlegu ofbeldi, sefur á götunni, sætir ofsóknum vegna kynhneigðar sinnar, er fullkomlega peningalaus og að auki matarlaus dögum saman.
Nú hafa íslensk yfirvöld ákveðið að senda hann á ný til Ítalíu þó hann hafi þar ekki gilt dvalarleyfi. Alls óvíst er hvaða veruleiki bíður hans þar eða hvort hann muni hljóta vernd þar í landi. Ekkert bendir til þess að aðrar aðstæður bíði hans en síðast þegar hann var á Ítalíu. Í greinargerð lögfræðings Amírs kemur fram að ljóst sé að Ítalía geti ekki tryggt mannsæmandi aðstæður fyrir hann. Bæði sé aðstaða flóttafólks óviðunandi en að auki séu fordómar og ofbeldi í garð hinsegin fólks og fólks af erlendum uppruna landlægt. Þar að auki búi Amír við slæma andlega heilsu og muni ekki hljóta þá þjónustu sem hann þarfnast þess vegna á Ítalíu.
Stjórnvöld á Ítalíu geta aukinheldur ekki tryggt að hann hljóti dvalarleyfi þar. Amír gæti því beðið brottvísun til Írans þaðan, en í heimalandi hans liggur dauðarefsing við samkynhneigð.
Innranríkisráðuneytið hefur úrskurðað að einstaklingar í viðkvæmri stöðu skulu ekki sendir til Ítalíu. Ljóst má vera að Amír er í viðkvæmri stöðu en hann er bæði samkynhneigður og býr við slæma andlega heilsu sem meðal annars er afleiðing af ofbeldi sem hann hefur orðið fyrir. Það er mat Útlendingastofnunar að þrátt fyrir þetta teljist hann ekki vera í viðkvæmri stöðu.
Samtökin ‘78 mótmæla þessu mati harðlega. Það er þyngra en tárum taki að skilningur á aðstæðum hinsegin flóttafólks sé ekki meiri en raun ber vitni hjá yfirvöldum hérlendis. Samkvæmt verklagsreglum Sameinuðu þjóðanna um málefni hinsegin flóttafólks, sem Ísland hefur skuldbundið sig til að fara eftir, ber að fræða starfsfólk Útlendingastofnunar sérstaklega um hinsegin málefni. Á fundi okkar með stofnuninni fyrr á árinu kom fram að engin slík þjálfun er fyrir hendi. Nú er ljóst að Amír og aðrir hinsegin hælsleitendur gjalda fyrir það. Örlög Amírs eftir brottvísun hans héðan eru á ábyrgð íslenskra ráðamanna.
Við fordæmum þessi forkastanlegu vinnubrögð. Þeim verður að linna strax.

 

Leave a Reply