Skip to main content
search
Fréttir

Yfirlýsing Samtakanna ´78 vegna frávísunar kæra

By 7. október, 2015No Comments

Samtökin ’78 telja að málsmeðferð lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu, sem felur í sér að kærunum er vísað frá án eiginlegrar rannsóknar, sé óvönduð. Ákvarðanir lögreglustjórans geti auk þess ekki byggst á málefnanlegum rökum og séu til þess fallnar að útiloka þá refsivernd sem fólgin er í 233. gr. a almennra hegningarlaga og er ætlað að ná til minnihlutahópa á borð við hinsegin fólk. Um leið sé útilokaður möguleikinn á því að innlendir dómstólar fái að eiga síðasta orðið um heimfærslu hinna kærðu ummæla undir títtnefnt lagákvæði almennra hegningarlaga. Samtökin telja með hliðsjón af því ótækt að lögreglustjóri beiti valdi sínu með þessum hætti.

Með það í huga og í samráði við lögmann samtakanna, Björgu Valgeirsdóttur hdl., hafa Samtökin ’78 tekið þá ákvörðun að kæra umræddar ákvarðanir lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu til ríkissaksóknara. Verður með kærunum farið fram á að ákvarðanir lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu verði endurskoðaðar og að lagt verði fyrir embættið að taka málin til áframhaldandi meðferðar og þar með rannsóknar. Kærurnar verða afhentar ríkissaksóknara kl. 13, miðvikudaginn 7. október 2015, í húsnæði ríkissaksóknara við Hverfisgötu 6 í Reykjavík.

Samtökin ’78 munu halda áfram áratuga baráttu sinni  fyrir mannvirðingu hinsegin fólks hér á landi. Samtökin eru því reiðubúin að lýsa því yfir hér með að endurskoði ríkissaksóknari ekki ákvörðun lögreglustjórans með fyrrgreindum hætti, verði réttmæti þeirrar ákvörðunar borin undir mannréttindadómstól Evrópu.“

—————————

Vakni einhverjar spurningar í tilefni af yfirlýsingunni eða um þau réttarúrræði sem Samtökin ’78 lýsa þar yfir að gripið verði til í dag má hafa samband við eftirfarandi aðila:

Auður Magndís Auðardóttir, framkvæmdast​ýra​ Samtakanna ’78, netfang: skrifstofa@samtokin78.is, s. 868 6890

Hilmar Hildarson Magnúsarson, formaður Samtakanna ’78, netfang: formadur@samtokin78.is, s. 867 3919

Björg Valgeirsdóttir hdl., sem fer með kærumálin fyrir hönd Samtakanna ’78, netfang: bjorg@dika.is, s. 663 8999.

Leave a Reply