Skip to main content
FréttirHagsmunabaráttaViðburður

Hinsegin Alþingi 2021

By 10. september, 2021september 23rd, 2021No Comments

Fimmtudaginn 9. september héldum við viðburðinn Hinsegin Alþingi 2021 þar sem við kynntum niðurstöður Hinseginkvarðans og fengum til okkar fulltrúa frá öllum stjórnmálaflokkum í pallborð. Hinseginkvarðinn er úttekt okkar á stefnu flokkanna þegar kemur að hinsegin málum samsettur af lista með 24 atriðum sem metin eru í forgangi í réttindabaráttu okkar þessi misserin. Kannað var hvort þessi baráttumál væri að finna í opinberri stefnu flokkanna og þeim gefin einkunn í samræmi við það. Yfirferðin var í höndum stjórnar og allir flokkar fengu færi á að fara yfir einkunnagjöf sína áður en niðurstaðan var kynnt opinberlega. Flokkarnir fengu þar að auki sjálfir að svara fimm spurningum og birtast svörin þeirra ásamt skori á Hinseginkvarðanum á sérstöku svæði heimasíðu okkar sem tileinkað er komandi Alþingiskosningunum þann 25. september, samtokin78.is/x21.

Flokkarnir komu misjafnlega komu misjafnlega út úr þessari úttekt og skoruðu frá 0 og upp í 77%. Niðurstöðum flokkanna má skipta gróflega í tvo hópa. Í öðrum þeirra má finna flokka sem fjalla í stefnu sinni um hinsegin mál og sýna þannig skýran vilja til að bæta réttarstöðu hinsegin fólks. Þar eru Samfylking – jafnaðarmannaflokkur Íslands (77%), Píratar (73%), Vinstrihreyfingin – grænt framboð (70%), Viðreisn (68%) og Sósíalistaflokkur Íslands (55%). Í hinum hópnum má finna flokka sem hafa ekki sértæka stefnu í hinsegin málum og skora lágt. Þar má finna Miðflokkinn með 3% skor og síðan Flokk fólksins, Framsóknarflokkinn og Frjálslynda lýðræðisflokkinn með skor upp á 0%. Staðsettann á milli þessara tveggja hópa má finna Sjálfstæðisflokkinn með 23% atriða uppfyllt. 

Fundurinn Hinsegin Alþingi 2021 var haldinn í áheyrnarsal Veraldar, húss Vigdísar, og var sóttur af tæplega 50 manns. Þess að auki var honum streymt beint á facebook síðu okkar og má nálgast upptöku af honum þar. Fundurinn hófst á ræðu formanns, Þorbjargar Þorvaldsdóttur, sem kynnti niðurstöðu Hinseginkvarðans og ræddi mikilvægi þess að lagaleg réttindi séu fest í sessi. Þorbjörg sagði Hinseginkvarðann ekki mæla velvilja, samvinnufýsi, eða fyrri lagafrumvörp í þágu hinsegin fólks. Þetta er einkunn fyrir stefnu, 0% á Hinseginkvarðanum þýðir þess vegna einfaldlega að viðkomandi flokkur hefur ekki sett sér stefnu í málefnum hinsegin fólks,“ sagði Þorbjörg, og hélt áfram: Nú langar mig að fá að henda fram einu hugtaki úr kennslufræðinni, en það má líta svo á að hérna sé um leiðsagnarmat fyrir flokkana að ræða – mat til þess að læra af. Margir eru flokkarnir þannig komnir vel á veg í sínu námi – en við viljum gjarnan sjá þá gera enn betur, sérstaklega ef þeir komast í ríkisstjórn að kosningum loknum.

Að því loknu fengu flokkarnir að kynna sig og bregðast stuttlega við niðurstöðum úttektarinnar. Að því loknu hófust pallborðsumræður og opnað var fyrir spurningar úr sal. Fjölmargar áhugaverðar spurningar bárust og entust umræður lengur en ætlað hafði verið. Við þökkum áhorfendum fyrir áhugaverðar spurningar og frambjóðendum sjálfum fyrir þátttökuna. Í pallborði sátu: 

Fyrir Flokk fólksins: Kolbrún Baldursdóttir, 2. sæti Reykjavík norður
Fyrir Framsókn: Brynja Dan, 2. sæti Reykjavík norður
Fyrir Frjálslynda lýðræðisflokkinn: Magnús Guðbergsson, 1. sæti Suðurkjördæmi
Fyrir Miðflokkinn: Tómas Ellert Tómasson, 2. sæti Reykjavík norður
Fyrir Pírata: Andrés Ingi Jónsson, 2. sæti Reykjavík norður
Fyrir Samfylkingu: Inga Björk Margrétar Bjarnadóttir, 3. sæti SV
Fyrir Sjálfstæðisflokk: Diljá Mist Einarsdóttir, 2. sæti Reykjavík norður
Fyrir Sósíalistaflokkinn: Agni Freyr Arnarson Kuzminov, 12. sæti SV
Fyrir Viðreisn: Katrín Sigríður Júlíu Steingrímsdóttir, 3. sæti Reykjavík norður
Fyrir Vinstrihreyfinguna – grænt framboð: Svandís Svavarsdóttir, 1. sæti Reykjavík suður

Mynd með færslunni á Ólafur Alex Kúld, stjórnarmaður.