Viðstödd eru: Bjarndís, Hannes, Hrönn, Jóhannes, Leifur, Sveinn, Vera, Kári (framkvæmdastjóri)
Fundargerð ritar: Vera Illugadóttir
Fundur settur: 15:33
1. Samþykkt fundargerðar síðasta fundar
Stjórn samþykkir fundargerð síðasta stjórnarfundar.
2. Félagsfundur
Stjórn ræðir nýliðinn félagsfund og mál þeim tengd.
3. Styrkur frá Hinsegin dögum
Hinsegin dagar samþykktu á sínum aðalfundi á dögunum að styrkja Samtökin ’78 um 1.500.000 kr. af sínum hagnaði. Stjórn þakkar Hinsegin dögum kærlega þennan góða stuðning og gott samstarf
4. Aðgerðaráætlun í málefnum hinsegin fólks
Dómsmálaráðherra kynnti nýja aðgerðaáætlun í málefnum hinsegin fólks á fundi ríkisstjórnarinnar síðastliðinn föstudag. Stjórn ræðir viðbrögð við henni.
5. Jólagleði
Stjórnarliðar kasta á milli sín ýmsum hugmyndum um fyrirkomulag jólagleði stjórnar og starfsfólks í ár.
6. Fræðarahelgi
Kári og Bjarndís segja frá námskeiði sem haldið var fyrir tilvonandi fræðara um síðustu helgi. Helgin heppnaðist vel að þeirra mati og vonir til að á næstunni geti einhver úr hópi þeirra sem sóttu námskeiðið gengið til liðs við fræðarahóp Samtakanna.
7. Viðurkenning á degi íslenskrar tungu
Samtökin ’78 hlutu viðurkenningu fyrir stuðning við íslenska tungu á degi íslenskrar tungu. Viðurkenningunni fylgdi svohljóðandi rökstuðningur:
„Frá stofnun Samtakanna ‘78 árið 1978 hefur íslensk tunga skipað miðlægan sess í starfi þeirra. Stór hluti af baráttu þeirra fyrir réttindum hinsegin fólks er krafan um tilverurétt innan tungumálsins enda er íslenska lykillinn að íslensku samfélagi. Sú vinna hefur ekki bara snúist um að berjast gegn útilokun og notkun fordæmandi orða heldur ekki síður um skapandi nýyrðasmíði. Fyrstu mótmælaaðgerðir samtakanna árið 1982 beindust þannig eins og frægt er gegn banni Ríkisútvarpsins á notkun orðanna hommi og lesbía, sem voru þau orð sem félagsfólk hafði sjálft mótað og kosið að nota um sig.
Á síðari árum hafa Samtökin ‘78 staðið fyrir nýyrðasamkeppnum undir yfirskriftinni Hýryrði þar sem almenningur er hvattur til að taka þátt í að búa til ný orð sem vantar í íslenska tungu. Þannig hafa samtökin unnið markvisst að því að til séu orð á íslensku sem lýsa því hver við erum og hvernig okkur líður. Tilvist slíkra orða er forsenda þess að hinsegin fólk sé hluti af íslensku samfélagi og menningu en standi ekki utan þess. Nýyrðin hafa þar að auki mörg komist í almenna notkun og mikilvægi framlags Samtakanna ‘78 til íslenskrar tungu er því ótvírætt.“
8. Önnur mál
Hörður Torfason hefur gefið út bókina Þegar múrar falla og verður útgáfuhóf hennar á fimmtudag. Stjórn óskar Herði innilega til hamingju með útgáfuna.
Fundi slitið: 16:16.