Skip to main content
FundargerðirStjórn

17. Stjórnarfundur 2015

By 2. desember, 2015mars 26th, 2020No Comments

Fundinn sátu: Hilmar Hildar Magnúsarson formaður (HHM), María Rut Kristinsdóttir varaformaður (MRK), Steina Dögg Vigfúsdóttir gjaldkeri (SDV), Kitty Anderson meðstjórnandi (KE), Kara Ásdís Kristinsdóttir meðstjórnandi (KÁK) og Sesselja María Mortensen áheyrnarfulltrúi trúnaðarráðs (SMM).
Einnig sat fundinn Auður Magndís Auðardóttir framkvæmdastýra (AMA).
Forföll: Matthew Deaves alþjóðafulltrúi (MD), Júlía Margrét Einarsdóttir ritari (JME).

Ár 2015, miðvikudaginn 2. desember kl. 20.00 var haldinn fundur stjórnar Samtakanna ‘78 að Suðurgötu 3 í Reykjavík.
Kitty Anderson meðstjórnandi ritaði fundargerð.

1.Fundargerð síðasta fundar: Samþykkt og eftirfylgni

HHM og JME klára fundargerðir f. næsta fund.

2.Fræðsla og rannsóknir: Viðræður við Kópavogsbæ

Kópavogur hefur áhuga á að gera sambærilegan samning um fræðslu og Hafnarfjarðabær. AMA hefur fundað með fulltrúum bæjarfélagsins. Umfang fræðslunnar er að aukast mikið. Stjórn hyggst skoða allt svigrúm sem gefst til að ráða manneskju til að hafa umsjón með skipulagi og framkvæmd fræðslunnar. Þetta myndi einnig létta álagi af AMA og hún betur einbeitt sér að öðrum þáttum starfsins: yfirsýn og samhæfingu, daglegum rekstri, umsýslu og þróun félagsstarfsins. Samþykkt að taka til almennilegrar skoðunar strax eftir áramót.

3.Húsnæðismál: Útleiga á sal á föstudagskvöldum

Komnar eru nokkrar fyrirspurnir leigutaka. Samþykkt að skoða samspil útleigu og óska hagsmunafélaga um notkun á húsnæði. Samþykkt að bjóða stjórn Q – Félags hinsegin stúdenta á næsta stjórnarfund.

4.Menning og viðburðir: Kærleiksganga

Borist hefur ósk um samstarf. Stjórn hefur mjög takmarkaðar upplýsingar um hvað nákvæmlega er að ræða. Samþykkt að AMA sendi umsjónaraðilum póst og biðji um nánari upplýsingar.

5.Almennt félagsstarf: Fimmtudagsopnanir og BDSM kynning nr. 2

Rætt um mikilvægi þess að fulltrúar í stjórn sýni gott fordæmi og skrái sig fyrir umsjón á fyrirhuguðum fimmtudagsopnunum í félagsmiðstöð. Fulltrúar hvattir til að skrá sig.

Eftir félagsfund þar sem hagsmunaaðildarumsókn BDSM Ísland og félagið sjálft voru kynnt þykir ljóst að gagnlegt væri að BDSM héldi annan kynningarfund. Fundurinn færi fram á fimmtudagsopnun. Heyra þarf í stjórn BDSM með þetta og eins að bjóða þeim Hinsegin fræðslu á sínum vettvangi. AMA fylgir eftir að skipuleggja þessa fundi. Samþykkt að athuga hvernig þessum málum er háttað hjá LLH, systursamtökum samtakanna í Noregi, en töluvert er síðan BDSM varð hluti hinsegin hreyfingarinnar þar í landi. MD falið að hafa samband við LLH.

6.Húsnæðismál: Límmiðar í glugga – farið yfir tillögur

Stjórn bað fyrir nokkru Þórdísi Claessen, grafískan hönnuð, um að koma með tillögur að skreytingum í glugga félagsmiðstöðvar. Hún hefur nú skilað frumdrögum, alls sjö tillögum, og hefur tillaga nr. 2 hlotið hljómgrunn stjórnar, jafnvel með ívafi úr tillögu nr. 7. Samþykkt að óska eftir nánari útfærslu Þórdísar á umræddum tillögum og stefna í kjölfarið á skoðanakönnun á Aðaltorginu (Facebook vettvangi stjórnar, trúnaðarráðs og virkra sjálfboðaliða félagsins).

7.Upplýsinga- og kynningarmál: “Ég er ég” myndbönd. Næstu skref.

Stjórn skoðaði myndböndin og telur mögulegt að nýta þau í félagasöfnunarherferð. Samþykkt að MRK, AMA, HHM og Unnsteinn formaður trúnaðarráðs fundi í næstu viku um málið og geri drög að næstu skrefum.

8.Flóttafólk og hælisleitendur: Fjármögnun, stefna og aðgerðir

Rædd sú staða sem komin er upp nú þegar ríkið hefur hætt gjafsóknum í málum hælisleitenda, sem setur þá í erfiðari stöðu. Stjórn telur ljóst að skoða þurfi allar mögulegar fjármögnunarleiðir og móta stefnu – ætli samtökin að taka af festu á málefnum hælisleitenda og flóttafólks. Teymi samtalanna um málefni flóttafólks og hælisleitenda hittist 5. desember nk. Eftir þann fund ætti fólk að hafa fengið betri tilfinningu fyrir möguleikum félagsins til starfa á þessum sviðum.

9.Almennt félagsstarf: Jólalokun milli jóla og nýárs

Samþykkt að húsnæði samtakanna verði lokað milli jóla og nýárs og framkvæmdastýra taki út uppsafnað frí. Fylgst verði með tölvupósti og miðlum.

10.Önnur mál

Húsnæðismál: Geymsla

Klára þarf skipulagningu og frágang á geymslu. Frestað þar til fundur um húsnæðismál hefur verið ákveðinn.

Fleira ekki gert og fundi slitið kl. 21:40

Leave a Reply