Skip to main content
FundargerðirStjórn

19. Stjórnarfundur 2015

By 30. desember, 2015mars 26th, 2020No Comments

Fundinn sátu: Hilmar Hildar Magnúsarson formaður (HHM), Júlía Margrét Einarsdóttir ritari (JME), Steina Dögg Vigfúsdóttir gjaldkeri (SDV) og Kitty Anderson meðstjórnandi (KE). Einnig sat Auður Magndís Auðardóttir framkvæmdastýra (AMA) hluta fundar í gegnum Skype.
Forföll: María Rut Kristinsdóttir varaformaður (MRK). Kara Ásdís Kristinsdóttir meðstjórnandi (KÁK), Matthew Deaves alþjóðafulltrúi (MD) og Sesselja María Mortensen áheyrnarfulltrúi trúnaðarráðs (SMM).

Ár 2015, miðvikudaginn 30. desember kl. 20.00 var haldinn fundur stjórnar Samtakanna ‘78 að Leifsgötu 27 í Reykjavík.

1.Fundargerð síðasta fundar: Samþykkt og eftirfylgni

Fundargerð síðasta fundar samþykkt einróma.

2.Húsnæðismál: Útleiga á sal og geymslu

Staða á sal eftir útleiguna annan í jólum er óljós en allt virðist hafa gengið vel í þetta skipti. Ákveðið að ræða útleigumál betur á næsta fundi. Borist hefur beiðni frá Hinsegin kórnum um leigu á geymsluplássi. Samþykkt. SDV skoði hve mikið Hinsegin dagar greiða í dag og miði verð út frá því, enda skuli hagsmunafélög njóta jafnræðis þegar kemur að húsnæðismálum.

3.Fræðsla/Upplýsinga‐ og kynningarmál: Útgáfa ‘Hugrakkasta riddarans’

Stjórn er ánægð með útkomuna ‐ þýðingu, upplestur (kvenrödd) og frágang og að verkið sé undir kostnaðaráætlun. Samþykkt að skoða hvort ekki megi texta myndbandið. Stjórn vill einnig skoða möguleika á að gera fleiri myndbönd í svipuðum dúr, t.d. er varðar “stelpur sem elska stelpur”, trans fólk, intersex fólk og aðra hópa ‐ og sækja um styrki. Hugmynd að fá Sophie Labelle til að taka þátt í einhverju slíku, en hún er væntanleg til landsins. Stjórn vill sérstaklega skoða efni fyrir börn, þar sem vöntun er á slíku efni. Stefnt er að útgáfu Hugrakkasta riddarans eftir áramót, helst í samvinnu við Mennta‐ og menningarmálaráðuneytið, og finna til útgáfunnar heppilegan dag. Frekari umræðu frestað til næsta fundar.

4.Fjármál og félgatal: Ársfjórðungslegir stöðufundir

Rætt um fasta ársfjórðungslega fjármálafundi. Staðan er ágæt í dag, enda fylgst vel með þróun mála og stjórn mjög meðvituð um fjárhagsstöðuna. Samþykkt að næsti fjármálafundur formanns, gjaldkera, framkvæmdastýru, bókara og umsjónarmanns félagatals verði snemma í janúar vegna ársreikninga. Ársreikninga þarf að gera tímanlega svo endurskoðendur geti farið yfir ‐ eigi síðar en mánuði fyrir aðalfund. Aðalfundur er áætlaður 5. mars og því er dagsetning ársreikningsskila sett nákvæmlega 4 vikum fyrr, eða 6. febrúar.

5.Upplýsinga‐ og kynningarmál: Vefsíða ‐ tækniumsjón og ritstjórn

Rætt um skipan vefteymis/ritstjórnar til að vinna með vefstjóra að uppbyggingu og umsýslu með vef Samtakanna en stjórn telur nauðsynlegt að hafa breitt teymi að baki miðlun og útgáfu. Mikil ánægja er með skráningarformið sem komið er inn á vefsíðuna. Formið hefur auðveldað skráningar og leitt til umtalsverðrar fjölgunar á nýskráningum. Samþykkt að boða til fundar um vef‐ og útgáfumál í janúar. Markmið fundar yrði að skipa í vefteymi/ritstjórn og vinna með hugmyndir um efni og þróun vefs og annarrar útgáfu, fyrirkomulag og umfang. Fundurinn yrði opinn öllu áhugasömu félagsfólki.

6.Ungliðastarf: Fyrirhugaður fræðslufundur 10. janúar nk.

AMA er með málið í vinnslu en um er að ræða fræðslu og endurmenntun fyrir umsjónarfólk ungliðastarfs í samvinnu við Reykjavíkurborg. Samtökin standa á vissum krossgötum og eru í raun farin að reka félagsmiðstöð fyrir unglinga með tilheyrandi skyldum og ábyrgð. Stjórn telur knýjandi að starfinu sé strax komið í þann farveg að hafið sé yfir allan vafa, t.d. varðandi samskipti og verkferla og hefur að ráði framkvæmdastýru leitað til Reykjavíkurborgar um stuðning og fyrirmyndir.
Áðurnefndur fræðslufundur, í samráði við umsjónarfólk ungliðastarfs, er fyrsta skrefið í þessari viðleitni en tveir fulltrúar frá borginni halda þar erindi og bjóða upp á umræður. Framkvæmdastýra mun einnig taka þátt í fundinum ásamt ráðgjafa úr ráðgjafateymi samtakanna. Vonir standa til þess að fundurinn verði upphafið af þéttari samvinnu félagsins og borgarinnar á þessu mikilvæga sviði.

7.Almennt félagsstarf: Ársþing/Aðalfundur ‐ skipulag og undirbúningur

Skipuleggja þarf vinnuna fram að ársþingi/aðalfundi, hlutverk í ársskýrslu, ársreikningi, undirbúning sjálfs fundarins o.fl. en kalla þarf eftir innleggjum frá aðildarfélögum, starfshópum og starfsfólki. HHM vinnur í samvinnu við framkvæmdastýru í drögum að handbók þar sem tekið verður á öllum þáttum starfseminnar, t.d. hvernig halda eigi aðalfund, ásamt því sem starfsemi og þjónustu verður lýst. Æskilegt er að sem flest leggi sinn skerf inn í þá vinnu. HHM fylgir eftir.

Rætt um að bjóða upp á vinnustofur á ársþinginu um starfsemi og uppbyggingu frjálsra félagasamtaka, hvernig boðskapur og markmið eru sett fram og hvernig unnið er með gildi ‐ að fyrirmynd ILGA Europe. Einnig rætt að leita til JC Ísland um örnámskeið í framkomu og ræðumennsku. Þetta væri mjög góð næring inn í félagsstarfið. Samþykkt að reyna að virkja aðildarfélögin og bjóða þeim að vera með bása til að kynna sig. Laða þannig fleiri að og sýna breiddina í hinsegin samfélaginu.

8.Önnur mál

Alþjóðamál/Réttindabarátta og löggjöf: Regnbogapakki ILGA Europe fyrir 2015

Ársyfirlit ILGA Europe um pólitíska og samfélagslega þróun ásamt yfirliti um lagalega stöðu í Evrópuríkjunum. Skeyti barst frá ILGA Europe á dögunum þar sem beðið er um upplýsingar um stöðu mála, en það felst helst í því að segja þeim til um hvort eitthvað vanti í þeim upplýsingum sem þau hafa þegar tekið saman. HHM áframsendir póstinn á stjórn þannig að hægt verði að svara ILGA Europe sem fyrst.

Fjármál og félagatal: Hollvinir

SDV lagði fram hugmynd hollvinakerfi Samtakanna ‘78 og bjóða fólki að gerast mánaðarlegir styrktaraðilar. Þetta er hægt í dag en þarf að gera aðgengilegra og auðveldara. Samþykkt að fela SDV að skoða þetta með AMA. AMA fylgir eftir.

Fleira var ekki gert og fundi slitið kl. 21.47

Júlía Margrét Einarsdóttir ritari ritaði fundargerð.

Leave a Reply