Skip to main content
search
FundargerðirStjórn

20. Stjórnarfundur 2016

By 13. janúar, 2016mars 26th, 2020No Comments

Fundinn sátu: Hilmar Hildar Magnúsarson formaður (HHM), María Rut Kristinsdóttir varaformaður (MRK), Steina Dögg Vigfúsdóttir gjaldkeri (SDV), Júlía Margrét Einarsdóttir ritari (JME), Matthew Deaves alþjóðafulltrúi (MD), Kitty Anderson meðstjórnandi (KE) og Sesselja María Mortensen áheyrnarfulltrúi trúnaðarráðs (SMM).
Einnig sat fundinn Auður Magndís Auðardóttir framkvæmdastýra (AMA).
Forföll: Ásdís Kristinsdóttir meðstjórnandi (ÁK).

Ár 2016, miðvikudaginn 13. janúar kl. 20.00 var haldinn fundur stjórnar Samtakanna ‘78 í húsnæði samtakanna að Suðurgötu 3 í Reykjavík.
Júlía Margrét Einarsdóttir ritaði fundargerð.

1.Fundargerð síðasta fundar: Samþykkt og eftirfylgni

Fundargerð síðasta fundar samþykkt.

2.Húsnæðismál: Útleiga á sal og geymslu ‐ kjör

Hinsegin dagar greiða kr. 25.000,‐ fyrir 20,0 m3 geymslupláss (8,0 m2 gólfflötur x 2,5 m lofthæð). Þetta eru 1.250 kr./m3 eða 3.125 kr./m2. Rætt um mikilvægi þess að hafa ákveðin viðmið um hvenær félög byrji að greiði leigu fyrir geymslu. Samþykkt að ekki sé greitt fyrir pláss sé það innan við 1,0 m3. Vilji félög geyma meira sé greitt 1.250 kr./m3 fyrir alla rúmmetra sem þau nýta.

Tiltekt í geymslu auglýst kl. 11:30 nk. laugardag en fræðsla f. jafningjafræðara er kl. 15.00. Ný hurð á salerni komin upp og greidd af leigutökum sem ollu skemmdunum. Ljóst er að skerpa þarf almennt á umgengni við húsið sem ekki hefur verið nógu góð. Mikil eftirspurn er eftir leigu á sal þrátt fyrir að lítið hafi verið auglýst og koma fyrirspurnir aðallega frá utanfélagsfólki.

Helgi Steinar Helgason arkitekt er að vinna að áfengisleyfismálinu. Hann er nýkominn til landsins og ráðgert er að bóka fund með honum. Verður einnig fenginn til skrafs og ráðagerða varðandi ráðgjafaherbergi o.fl.

Áður hafa verið rædd sérkjör vegna leigu á salnum ‐ sem umbun til handa sjálfboðaliðum sem leggja mikið af mörkum til félagsins. Þetta getur verið erfitt að meta og erfitt að binda við stofnanir félagsins þar sem seta í ákveðinni stofnun er ekki endilega merki um virkni. Rætt um að koma upp einhverskonar hvatakerfi. AMA skoði betur.

3.Fræðsla/Upplýsinga‐ og kynningarmál: Útgáfa ‘Hugrakkasta riddarans’

Sagan verður tilbúin til útgáfu með íslenskum texta í vikunni. Textun kostaði kr. 15.000,‐ og var það gert hjá Sýrlandi. Rætt um samstarf við menntamálaráðuneytið varðandi útgáfuna til að vekja athygli á henni. MRK tekur að sér að setja sig í samband við ráðherra og AMA sendir honum erindi og um hvað málið snýst. Plan B gæti einnig verið Reykjavíkurborg. Rætt um að ræða við RÚV um að taka efnið til sýninga, einnig 365. KA ræður við Maríu Helgu þýðanda varðandi þetta. Hafa þarf samband við höfund vegna þessa og spyrja hvort hann kæri sig um þetta, enda varðar þetta höfundarrétt o.fl.

4.Fjármál og félagatal: Ákvörðun félagsgjalda

Rætt um ákvörðun félagsgjalda fyrir 2016. Borist hafa athugasemdir vegna nemendaafsláttar sem veittur hefur verið skólafólki yngra en 25 ára enda sé um aldursmismunun að ræða. AMA mun brátt senda út félagsgjöld. Samþykkt að halda félagsgjöldum óbreyttum en afnema aldurstengingu á nemendaafslætti og tilkynna félagsfólki þetta sem fyrst. Félagar verði beðnir um að færa sönnur á nám og örorku vilji þeir njóta afsláttar. Orðsending um félagsgjöld fari fyrst út ‐ þannig að félagar geti brugðist við áður en greiðsluseðlar verða sendir út. Félagsgjöld fyrir árið 2016 verða því sem hér greinir:

● Almennt gjald: kr. 4.900,‐
● Námsmenn, eldri borgarar (67 ára og eldri) og öryrkjar: kr. 2.500,‐
● Ungmenni undir 20 ára: kr. 1.500,‐

5.Upplýsinga‐ og kynningarmál: Vefsíða ‐ tækniumsjón og ritstjórn

HHM leggur til að liðnum verði frestað til næsta fundar og orku og athygli beint að komandi ársþingi og aðalfundi. Samþykkt að fresta liðnum til næsta fundar.

6.Alþjóðamál: Ungmennaverkefni

Elín Lára jafningjafræðari er á leið á námskeið í Finnlandi fyrir ungt fólk (Evrópuverkefni) um mánaðamótin febrúar/mars. Samþykkt að styðja við umsókn hennar (ekki þó fjárhagslega) og Elín Lára segi stuttlega frá námskeiðinu á aðalfundi samtakanna.

7.Almennt félagsstarf: Ársþing/Aðalfundur ‐ skipulag og undirbúningur

Fjármálafundur var haldinn í morgun með Guðrúnu Ó. Axelsdóttur bókara. Hún vinnur í ársreikningi. Staðan er góð á heildina litið. Fréttir af styrkveitingu frá ríkinu berast vonandi um næstu mánaðamót. Guðrún mun skila ársreikningum fyrir 20. febrúar og þá gefst rými fyrir skoðunarmenn að rýna og gefa umsögn, auk þess að vinna efni, gröf og annað fyrir ársskýrslu. HHM ritstýrir ársskýrslu og kallað hefur verið eftir efni frá starfsfólki/sjálfboðaliðum.

Rætt um fyrirhugað ársþing en um er að ræða aðalfund auk viðburða sem raðað yrði utan um aðalfund ‐ þannig að úr yrði heil helgi helguð félagsstarfinu. Aðalfundur var auglýstur í síðustu viku en hann verður laugardaginn 5. mars kl. 14.00. Búast má við góðri mætingu á aðalfund í ár þar sem m.a. verður tekin fyrir hagsmunaaðildarumsókn BDSM Ísland. HHM og MRK munu stýra kynningarfundi um aðildarumsókn í aðdraganda aðalfundar, þann 11. febrúar.

Rætt um að hafa vinnustofur á ársþingi að morgni laugardags. Svo veitingar og að þeim loknum myndi fundur hefjast. Brjóta mætti upp fundinn með kynningum á starfshópum og félögum, fá sem flest fólk til að segja frá starfseminni og breikka þannig eignarhaldið í fundinum. Huga þarf að dagskrá að fundi loknum. Mögulega gæti þar verið um að ræða kynningar og partý.

HHM veltir því upp hvort semja mætti við t.d. Bíó Paradís um að sýna kvikmynd á föstudegi fyrir fund. Rætt um dagskrá sunnudags. SMM stingur upp á bröns.

8.Alþjóðamál: Alþjóðleg erindi ‐ starfsnám og samstarf

Framkvæmdastýra fær fjölda pósta um alþjóðamál. Skoða þarf hvernig erindi eru afgreidd með alþjóðafulltrúa og formanni áður en kemur inn á borð stjórnar.

Borist hefur boð um þátttöku í Erasmus plús verkefni. Um er að ræða starfsmenntunarnámskeið. AMA og MD skoði fyrir næsta fund.

Borist hefur beiðni frá transkonu í Serbíu um fjárstuðning til að koma sem starfsnemi til samtakanna. Um væri að ræða ferðir og uppihald en viðkomandi myndi fá um 500 Evrur á mánuði í aðra styrki. Samtökin ráða ekki yfir neinu fjármagni til að nota í slíkt og því afráðið að tilkynna að ekki sé um neinar starfsnemaáætlanir að ræða en að stjórnin myndi gjarnan vilja kynnast viðkomandi og bjóða velkomna hvenær sem hana langar að heimsækja landið á eigin forsendum.

Erindi frá Slóvakíku. Beiðni um samstarf. Verkefnið er að fullu styrkt af uppbyggingarsjóði EFTA (EEA/Norwegian Grants) og engin kostnaður myndi hljótast af fyrir samtökin. Erindið varðar m.a. pride hátíðir. HHM telur erindið áhugavert og leggur til að samstarf verði skoðað í samvinnu við Hinsegin daga. Rætt um fyrirkomulag og reynslu annarra félaga, m.a. Kvenréttindafélagsins. um í formi styrks. Samþykkt að AMA sendi bréfritara svar þess efnis að samtökin vilji gjarnan taka þátt í samstarfi og taka á móti hópi frá Slóvakíu.

9.Önnur mál

Alþjóðamál/Réttindabarátta og löggjöf: Regnbogapakki ILGA Europe fyrir 2015
Innlegg í ársyfirlit. Stjórn hefur engar athugasemdir við fyrstu yfirferð annáls um pólitíska þróun, enda virðist efnið óvenju vel unnið í ár. Þann 22. janúar nk. er skilafrestur nr. 2. Skoða þarf betur matslistann sem metur lagalega stöðu ríkisins gagnvart öðrum ríkjum. Skoða þarf undirbreytur og fara í saumana á þeim lögum og reglum sem liggja til grundvallar því að ‘tikkað er í boxin’ eða ekki.

Fleira var ekki gert og fundi slitið kl. 21.36.

Leave a Reply