Fundinn sátu: Hilmar Hildar Magnúsarson formaður (HHM), María Rut Kristinsdóttir varaformaður (MRK), Steina Dögg Vigfúsdóttir gjaldkeri (SDV), Júlía Margrét Einarsdóttir ritari (JME), Matthew Deaves alþjóðafulltrúi (MD), Kitty Anderson meðstjórnandi (KA) (í gegnum Skype fjarfund) og Sesselja María Mortensen áheyrnarfulltrúi trúnaðarráðs (SMM). Einnig sat fundinn Auður Magndís Auðardóttir framkvæmdastýra (AMA).
Forföll: Ásdís Kristinsdóttir meðstjórnandi (ÁK).
Ár 2016, miðvikudaginn 10. febrúar kl. 20.00 var haldinn fundur stjórnar Samtakanna ‘78 í húsnæði samtakanna að Suðurgötu 3 í Reykjavík.
Júlía Margrét Einarsdóttir ritaði fundinn.
1. Fundargerð síðasta fundar: Samþykkt og eftirfylgni
Formaður stiklar á stóru um fundargerð síðasta fundar, fer lauslega yfir hvað var gert og hvernig því hefur verið og verður fylgt eftir. Fundargerð er samþykkt.
2. Frá síðasta fundi ‐ yfirlit og umræður um verkefni/viðburði
● AMA hefur sótt um Erasmus styrk fyrir a.m.k. stjórn og ráðgjafa. Hún var einnig að vinna ársskýrslu og kalla eftir efni sem tók nokkurn tíma.
● Salurinn er í útleigu núna fimm helgar í röð. Mikil umsýsla um það.
● AMA hefur verið að taka fræðsluerindi m.a. hjá Þjónustumiðstöð Breiðholts. Jafningjafræðarar hafa verið að sinna unglingafræðslu og AMA fullorðinsfræðslu. Þá hefur hún lagt notendakannanir fyrir fólk í fullorðinsfræðslunni þar sem fólk fær hlekk sendan eftir fundinn. Þetta hefur komið mjög vel út, mikil ánægja.
● Fundað var um ungliðamál en þau eru í farvegi en borgin er að skoða þau mál frá sínum enda. Hugmyndir voru um að fá fulltrúa frá borg á stjórnarfund í dag en ákveðið hefur verið að fresta því.
● Verið er að skoða “Ég er ég”, að setja þrjú myndbönd í loftið með söfnunarátaki, þannig að fólk geti gerst félagi eða styrktaraðili fyrir ákveðna upphæð á mánuði án þess að gerast félagi. AMA er í viðræðum við Valitor varðandi þetta. Unnið er í textun myndbanda.
● S78 (HHM og Björg Valgeirsdóttir lögmaður) tóku þátt í málþinginu Fræði og fjölmenning í HÍ sl. laugardag og töluðu um hatursglæpi og ‐orðræðu. Eyrún Eyþórsdóttir sem sinnir málaflokknum hjá Lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu talaði einnig en AMA og KA hafa þegar fundað með henni.
● Ný sýning var opnuð í Gallerí78 sl. laugardag og þrusumæting, hingað komu hátt í 100 manns. Skemmtileg stemning og hingað mikið af fólki sem hefur ekki verið að koma í samtökin áður. Nýir snertifletir.
3. Að næsta fundi ‐ yfirlit og umræður um verkefni/viðburði
● Næsti fundur er 24.2. og fram að því þarf að skipuleggja ársþing og aðalfund. Ítreka þarf fundarboð og taka fram að HIN ‐ Norðurland hafi einnig sótt um aðild ásamt BDSM Íslandi. Að kvöldi 5.mars verða líka örkynningar. Þarf að ýta á eftir fólki varðandi skipulagningu. Formaður mun aðallega sinna skýrsluskrifum fram að næsta fundi.
● Ársreikningum verður skilað fyrir 20.2. skv. plani og SDV setur saman texta varðandi fjármálin.
● Á næsta opna húsi verður fataskiptamarkaður og fimmtudaginn þar á eftir verður félagsfundur. Nú þarf að fara að setja saman event og póst varðandi félagsfundinn og eins að minna á ársfundinn og félagsgjöldin. HHM hefur samband við BDSM Ísland og Hinsegin Norðurland og sér um að gera FB viðburð fyrir fundinn.
4. Húsnæðismál: Útleiga á sal ‐ kjör
Umbunarkerfi er í bígerð en útleiga upp á síðkastið hefur gengið mjög vel. Ekkert hnjask hefur verið á húsmunum og umgengni hefur verið góð. Eftir aðalfund kórsins sl. laugardag barst kvörtun frá nágranna vegna hávaða. Brýnt að alltaf sé einhver ábyrgur fyrir notkun. Þarf að brýna verklag varðandi þetta. AMA.
5. Almennt félagsstarf: Ungliðar
Málefni ungliða eru í farvegi en það er ekkert sérstakt að frétta af þeim málum frá Reykjavíkurborg. Umræðu með umsjónarfólki var því frestað.
6. Almennt félagsstarf: Námskeið erlendis
AMA sótti um 3,5 m.kr. í Erasmus, til að senda stjórn, framkvæmdastýru og ráðgjafa á námskeið. Þetta er námskeiðapakki sem er hannaður af fyrirtæki sem lifir á því að búa til námskeið fyrir frjáls félagasamtök og býður því öfluga aðstoð við umsóknir. Um er að ræða leiðtoganámskeið, þjálfunarnámskeið fyrir starfsnema og námskeið fyrir fólk sem er persónulegir ráðgjafar. Þrír ráðgjafar fara út, ásamt stjórn og framkvæmdastjóra ‐ ef styrkurinn fæst.
Stjórn þarf að vera vakandi fyrir öðrum sjálfboðaliðum ‐ hvort hægt sé að finna góð prógrömm. Í þessu sambandi bendir HHM á tengingar í norsku systursamtökin LLH og það væri gaman að kynnast fræðsluprógramminu þeirra. Einnig læra af þeim varðandi haturorðræðuna en þau hafa verið að gera góða hluti, LLH, varðandi þessi mál.
7. Hatursorðræða/‐glæpir og mismunun: Fundur með Eyrúnu Eyþórsdóttur
Eyrún spyr hvað S78 vilji gera varðandi fræðslu. Ný stjórn svari eftir aðalfund. Lögreglan hefur nú þegar fengið fræðslubækling. Eyrún upplýsti að hún væri að fylgja kærunum eftir.
8. Upplýsinga‐ og kynningarmál: Vefsíða ‐ tækniumsjón og ritstjórn
Frestað fram yfir aðalfund.
9. Almennt félagsstarf: Ársþing/aðalfundur ‐ skipulag og undirbúningur
Dagskrá fyrir ársþingið er að mestu leyti tilbúin en það eru enn dagskrárliðir sem þarf að setja inn, meðal annars fimmtudagurinn sem er beint að útlendingum og málþingið á föstudaginn sem Unnsteinn ætlar að halda utan um varðandi fjölskyldumál. Daginn eftir kemur Jamie sem verður með workshop frá 10‐14 og hádegismatur inni í því. Hann ætlar að útbúa könnun sem við getum sent út til að vekja athygli og áhuga. Þetta verða fyrirlestrar og þátttökuæfingar. HHM hendir saman beinagrind varðandi dagskrána og leggur fyrir stjórnina á næstu dögum.
Aðalfundurinn er kl. 14.00. Vilji er fyrir því að bjóða upp á einhverskonar veitingar með kaffinu á fundinum en að gos og drykkir verði til sölu. Guðmunda mun sjá um súpugerðina í hádeginu á workshopinu hans Jamies.
Aðalfundurinn sjálfur. Engar lagabreytingatillögur bárust. Einhverjar tillögur voru fyrirhugaðar varðandi trúnaðarráð en þær bárust ekki. Fundarstjóramál í farvegi. Tvær umsóknir um aðild hafa borist og verða afgreiddar, svo verða hefðbundin aðalfundarstörf. Þetta gæti klárast á þremur tímum.
Eftir fundinn verður hlé á dagskrá en húsið mun opna aftur um sjöleytið og klukkan 19:20 verða kynningar frá félögum, tíu mínútur á hvert félag. Rætt um kynni kvöldsins.
Á sunnudeginum verður bröns kl. 11.00 en þá verður Hugrakkasti riddarinn frumsýndur. Áætluð lok á þeim dagskrárlið kl. 13.00. Prjónaklúbburinn tekur mögulega við um tvöleytið. HHM leggur til að fólki verði boðið í smá spjall og breinstorm um húsnæðið. Það verður útleiga á salnum á föstudagskvöldið en gaman væri að geta haldið einhverskonar bíósýningu á föstudagskvöldinu, til dæmis í Tjarnarbíó eða Bíó Paradís. Sú hugmynd kemur upp að HHM bjóði í “Hinsegin sögugöngu” um kvöldið og undirtektirnar eru mjög góðar.
10. Önnur mál
Flóttafólk og hælisleitendur
Rædd eru málefni Amirs, hælisleitanda frá Íran sem fékk synjun á hæli í dag en KA hefur ásamt öðru fólki innan hinsegin samfélagsins verið í miklu sambandi við hann. Áfrýjun á döfinni. Samþykkt að gera það sem hægt er til að vekja athygli á málinu, t.a.m. með greinaskrifum, með því að veita aðstoð og beita þrýstingi. KA mun funda aftur með Amir og lögfræðingi hans þegar hún snýr aftur til landsins. Lítið annað í stöðunni en að tryggja lögfræðiaðstoð og fylgja málinu eftir eins og hægt er og styðja Amir þegar og ef hann leitar til félagsins. KA mun fylgja málinu eftir á næstu dögum en er í takmörkuðu netsambandi. Leggur jafnframt til að málefni hælisleitanda verði sett á oddinn hjá næstu stjórn.
Á döfinni er fundur með fulltrúum útlendingastofnunar til að fara yfir mál hælisleitenda í heild sinni.
Fleira ekki gert og fundi slitið kl. 21:30.