Fundinn sátu: Hilmar Hildarson Magnúsarson formaður (HHM), María Rut Kristinsdóttir varaformaður (MRK), Aldís Þorbjörg Ólafsdóttir alþjóðafulltrúi (AÞÓ), Steina Dögg Vigfúsdóttir gjaldkeri (SDV), Jósef Smári Brynhildarson, ritari (JSB), Kitty Anderson meðstjórnandi (KA) og Sesselja María Mortensen (SSM) áheyrnarfulltrúi trúnaðarráðs.
Forföll: Matthew Deaves meðstjórnandi (MD).
Ár 2015, þriðjudaginn 30. júní kl.18:00 var haldinn fundur stjórnar Samtakanna ‘78 í húsakynnum GoMobile að Austurstræti 12 í Reykjavík.
Hilmar Hildarson Magnúsarson ritaði fundargerð.
1.Fjármál og félagatal
Samningar við Reykjavíkurborg voru undirritaðir sl. föstudag. Um er að ræða tvo samninga: vegna reksturs og þjónustu; og vegna fræðslustarfs. Samtals að upphæð 5 m.kr. á ári frá 2015 til 2017. Útsending reikninga vegna 2015 er hafin. Stjórnin fagnar áfanganum og hlakkar til áframhaldandi og öflugra samstarfs við Reykjavíkurborg.
Sl. mánudag var undirritaður samningur við Þjónustumiðstöð Laugardals vegna aðkomu félagsins að móttöku ‘kvótaflóttamanna’. Halda þarf umsýslu sér og merkja reikninga. Reikningur vegna samnings, alls 500.000 kr. hefur verið sendur Reykjavíkurborg.
Fjárframlög frá ríki. HHM hefur haft samband við velferðarráðuneyti og kallað eftir upplýsingum um velferðarstyrk. SDV mun skoða póstmál og biðja um áframsendingu gagna sem kunna að berast á Laugaveg 3.
Þinglýsingu vegna sölu á Laugavegi 3 lýkur á næstu tveimur vikum og má gera ráð fyrir um 1 m.kr. endurgreiðslu á reikninga félagsins þegar henni lýkur.
Samþykkt að HHM leggi inn umsókn um yfirdráttarheimild að upphæð 2,5 m.kr. vegna framkvæmda við Suðurgötu 3.
Fjármagnsflutningar til Úganda. Áfram er reynt að koma framlögum til Úganda. Styrk utanríkisráðuneytis hefur verið skilað.
Allir reikningar vegna fræðslumyndbanda hafa verið greiddir. KA hefur samband við verkefnisstjóra varðandi myndböndin.
Tilboð um samstarf við lögmannsstofu um ráðgjöf til félaga og öflun styrkja til félagsins. Málið er í bið þar til nýr framkvæmdastjóri tekur við. HHM skoðar hvernig ljúka megi því.
Möguleg fjáröflun S78 á Reykjavík Pride. HHM ræðir við Hinsegin daga um málið.
2.Húsnæðismál
Hafist verður handa við að setja loft upp í kvöld. Stjórn fylgir eftir. SDV og JSB þekkja til smiða ef þarf að fá nýjan smið.
3.Starfsmannamál
SMM vék af fundi vegna hagsmunatengsla. Stjórn beinir því til trúnaðarráðs að skipa áheyrnarfulltrúa í stjórn til bráðabirgða meðan ráðningarferli stendur yfir. HHM heyrir í Unnsteini Jóhannssyni formanni trúnaðarráðs varðandi þetta. Umsóknarfrestur rennur út í dag og hafa 7 umsóknir verið mótteknar. Umsækjendur eru ólíkir og ágætis breidd í umsóknum.
Rætt um þau viðmið sem stuðst verður við í áframhaldandi ferli. Gengið verður út frá því sem fram kom í auglýsingu. Rætt um að hafa í huga áherslu á: fræðslu og þekkingu á þeim málefnum; rekstur (fjármálastjórnun, fjáröflun), verkefnastjórnun; að geta hugsa út fyrir kassann; tölvukunnáttu, kerfi o.fl.; reynslu af starfi með börnum unglingum.
Vinnufundur vegna starfsmannamála boðaður laugardaginn 4. júlí frá 12.00 til 18.00 með fulltrúa trúnaðarráðs. Gera þarf drög að starfslýsingarskjali fyrir fundinn. Stefnt er að viðtölum í vikunni 20. til 24. júlí nk. HHM fylgir eftir.
4.Fræðslumál
Rætt um fræðslubækling. Athuga þarf stöðu og mögulega útgáfustyrki. HHM fylgir eftir.
5.Félagsskírteini
Félagar hafa spurt um skírteini en nokkuð er um að félagar hafi ekki fengið skírteini þrátt fyrir að hafa borgað félagsgjöld. Skírteini eru til í geymslu á Suðurgötu 3. Skoða þarf þessi mál en væntanlega bíður þetta nýs framkvæmdastjóra. HHM fylgir eftir.
Fleira var ekki gert og fundi slitið kl. 19.19.
Að fundi loknum fór stjórn í vettvangsferð á Suðurgötu 3 og þaðan í sameiginlegan kvöldverð fyrir eigin reikning á Mat og drykk á Granda.