Viðstödd eru: Álfur, Bjarndís, Jóhannes, Kristmundur, Mars, Þórhildur, Daníel (framkvæmdastjóri), Hrönn (áheyrnarfulltrúi félagaráðs)
Fundargerð ritar: Bjarndís Tómasdóttir
Fundur settur: 15:07
1. Fastur liður ungmennaráðs
Þessi liður fellur niður að þessu sinni.
2. Stefna stjórnar
Formaður leggur til að hann finni nokkrar dagsetningar fyrir stjórn að velja úr fyrir vinnufund.
3. Bakslagið
Þessi liður frestast til næsta fundar.
4. Mannréttindamál í Uganda
Nýlega voru samþykkt lög í Úganda sem gera samkynhneigð og “áróður” um hinsegin málefni refsiverð. Þyngsta mögulega refsing í Úganda fyrir samkynhneigð er nú dauðadómur.
Samtökin ‘78 fordæma þessa lagasetningu og alla lagasetningu sem vegur að sjálfsögðum mannréttindum hinsegin fólks hvort sem það er vegna kynhneigðar, kynvitundar, kyntjáningar eða kyneinkenna. Það er ótækt að tilvera okkar sé gerð refsiverð.
Í ljósi þessara laga vilja Samtökin ‘78 brýna fyrir utanríkisráðherra að halda áfram að beita sér fyrir mannréttindum hinsegin fólks, einnig í Úganda. Nú ríður enn meira á stuðning Íslands til hinsegin mannréttindafélaga og félaga sem skjóta skjólshúsi yfir homma, lesbíur og annað hinsegin fólk í Úganda.
5. Hinsegin dagar í Hrísey og á Akranesi
Hinsegin Vesturland verður haldið með pompi og prakt á Akranesi dagana 20.-23. júlí og stefnir stjórn á að mæta eins og fyrri ár.
Stjórn Samtakanna ´78 hyggjast einnig fjölmenna á Hinsegin daga í Hrísey 28.-29. júlí. Mikil tilhlökkun ríkir vegna allra hinsegin hátíðanna í sumar.
6. Starfsmannamál
Framkvæmdastjóri fer yfir starfsmannamál. Maí hefur verið ansi þungur en þó gengið vel. Skrifstofan verður trúlega lokuð í júlí vegna sumarfría.
Von er á alþjóðlegum sjálfboðaliða á næstunni sem mun vera hjá okkur í þrjá mánuði. Þegar sá sjálfboðaliði fer kemur nýr sem verður með okkur í heilt ár. Þá er einnig von á þýskum starfsnema sem verður hér í rúma tvo mánuði.
Verið er að vinna að nýjum starfslýsingum á skrifstofu sem framkvæmdastjóri mun kynna fyrir stjórn á næsta fundi.
7. Gleðiganga
Kristmundur, Jóhannes og Hrönn vinna að skipulagningu Gleðigöngunnar með félagaráði. Þau hafa nú fundað og rætt hlutverk Samtakanna ‘78 í göngunni. Mikilvægt að við gleymum því ekki að Samtökin ‘78 þurfa að minna á mannréttindabaráttuna, alltaf. Hugmyndavinnan hefur snúið að þessum þætti og lofar virkilega góðu.
Stjórn fagnar þessari vinnu félagaráðs og tengiliða stjórnar, virkilega metnaðarfullt verkefni.
Framkvæmdastjóri hvetur nefndina til að mæta á vinnustofu Hinsegin daga um Gleðigönguna.
8. Ráðherrar
Framkvæmdastjóri upplýsir stjórn um stöðu mála í samningaviðræðum við ráðuneyti.
9. Fræðslustarf í haust
Framkvæmdastjóri fer yfir haustið. Það er mikið að gera í fræðslunni, sem stjórn fagnar. Ástæða er fyrir sveitarfélög að bóka fræðslu með góðum fyrirvara.
10. Önnur mál
Stefnt er á að hafa opið hús á Menningarnótt, með vöfflum og tónlist.
Þórhildur færir stjórn miklar gleðifréttir en Samtökin hafa fengið 60.440 evar styrk (eða um níu milljónir íslenskra króna) frá Erasmus+ fyrir samstarfsverkefni með Frakklandi fyrir 18-25 ára hinsegin ungmenni í löndunum tveimur. Samstarfsaðilinn í Frakklandi er Collectif Fiertés en Lutte. Stjórn fagnar þessu.
11. Samþykkt fundargerðar
Ritari þessa fundar setur fundargerð á SLACK-rás til stjórnar til samþykktar.
Fundi slitið: 16:37