Skip to main content
FundargerðirStjórn

8. Stjórnarfundur 2019

By 12. september, 2019apríl 29th, 2020No Comments

Mætt: Unnsteinn, Daníel, Anna Eir (varamaður trúnaðarráðs), Rósanna, Bjarndís, Sigurður Júlíus, Rúnar
Ritari: Bjarndís Helga Tómasdóttir

Fundur settur: 17:09

1. Samþykkt síðustu fundargerðar

Ritari les fundargerð síðasta fundar. Fundargerð samþykkt.

2. Fundur stjórnar- og trúnaðarráðs

Rætt um ákveðna tímasetningu fyrir fund stjórnar- og trúnaðarráðs. Ákveðið að setja upp skoðanakönnun meðal þeirra sem fara á fundinn.
Umræða um dagskrá fundar. Varaformaður hafi samband við formann trúnaðarráðs og skipuleggi fund með trúnaðar- og hagsmunaráði.

3. Bleikþvottur-viðburður

Ákveðið að hafa bleikþvotta-viðburð aðskilinn frá félagsfundi. Áheyrnarfulltrúi bendir á að fleiri félagasamtök hafi í hyggju að hafa einhvers konar viðburð, þessu tengt. Formaður áréttar mikilvægi þess að móta viðburðinn vel og á þann hátt að raddir sem flestra fái að heyrast auk þess sem gott væri að fá utanaðkomandi einstakling/fræðimanneskju til að koma að borðinu.

Stefnt að þriðjudeginum 12. nóvember. Daníel ætlar að athuga með Norræna húsið fyrir þennan viðburð. Unnsteinn, Anna Eir, Edda og Heiðrún koma að skipulagningu.

4. Fagráð-hugmynd

Frh. frá síðasta fundi. Daníel og Unnsteinn eru komnir með þrjú nöfn að aðilum í það ráð. Á næsta stjórnarfundi verða þrjú nöfn staðfest og þá borin undir til samþykktar stjórnar.

Rætt um mögulega fræðslu fyrir fagráð. Eyðublöð f. tilkynningar verða ekki teknar í gagnið fyrr en búið er að virkja fagráð.

5. Fræðslustýra, möguleg ráðning

Framkvæmdastjóri ræðir komandi fæðingarorlof fræðslustýru, Sólveigar Rósar, en hún kemur til með að vera í fæðingarorlofi árið 2020. Framkvæmdastjóri sækist eftir umræðu stjórnar um ráðningarferlið. Mikilvægt að hafa hraðar hendur þar sem stutt er í umrætt orlof.

6. EMIS, rannsókn á kynheilsu karla sem sofa hjá körlum

Framkvæmdarstjóri ræðir EMIS. Hann hefur þýtt þessa könnun fyrir Ísland og svarhlutfallið var mjög gott. Hvað vill stjórn gera við þessa könnun? Rætt um styrkumsóknir til heilbrigðisráðuneytis v. frekari vinnslu. Stjórn tekur mjög vel í frekari vinnslu gagna enda umfjöllunarefnið gríðarlega mikilvægt. Rósanna nefnir að þetta gæti verið kjörið tækifæri fyrir mastersnema t.d.

Unnsteinn nefnir tengsl við viðburð um prepp, HIV og almennt um kynheilsu karla sem hann hefur á prjónunum. Anna Eir nefnir að bæði Kynís og Fræðslusamtök um kynlíf og barneignir vilji frekari samvinnu við S78.

7. Húsnæðismál, kjallari og skrifstofa

Framkvæmdarstjóri ræðir stöðu á skrifstofu. Erfitt að skrifstofan sé ekki afmörkuð. Vinnueftirlitið kom og gerði úttekt á kjallaranum og niðurstaðan er sú að kjallarinn er boðlegur sem skrifstofa eða annað vinnurými. Leggur fyrir stjórn hugmynd um að færa skrifstofu niður og jafnvel gera þar annað ráðgjafarými. Þetta þýðir þá að aðildafélög geti þá ekki lengur nýtt rýmið sem geymslu. Framkvæmdarstjóri leggur til að aðildafélögin fái til fyrsta desember til að tæma rýmið. Varaformaður leggur þetta fyrir stjórn og er það samþykkt án andmæla.

8. Styrksöfnun, regnbogavinir

Fjáröflunarnefnd fundaði þar sem fram kom að tvö fyrirtæki hafa gert tilboð í styrkjasöfnun. Hugmynd fjáröflunarnefndar er að stjórn fari fyrst sjálf í að hringja út þar sem þóknunin er nokkuð há til fyrirtækjanna. Farið yfir þessi tilboð með stjórn auk þess sem fleiri leiðir til þess að safna regnbogavinum eru ræddar.

Framkvæmdarstjóri mun setja upp nokkrar leiðir sem hægt er að fara og mun kynna fyrir stjórn á næsta stjórnarfundi.

9. Ráðgjafar, bókunarkerfi og komuskýrslur

Framkvæmdarstjóri segir frá nýju bókunarkerfi sem heitir Tímatal, en er það sama og Stígamót notar. Þannig fáist betra utanumhald og yfirsýn og ráðgjafi hefur app þar sem hann getur fylgst með sinni eigin dagskrá. Þetta er mjög faglegt forrit sem mun gagnast vel og stjórn lýsir yfir ánægju með þetta kerfi.

10. Samningalota við Forsætisráðuneytið

Nú er komið að þriðju samningalotu við ríkið en þau vita vel af þeirri stöðu sem er hjá S78, en ljóst er að Samtökin eru ekki að fá nema brot af þeim pening sem þörf er á til þess að þjónusta þann stóra og viðkvæma hóp sem sækir þjónustu til Samtakanna. Fjárlaganefnd þingsins hefur einnig verið boðuð á fund eftir þrjár vikur þar sem Daníel verður með kynningu um samtökin.

11. Þarfagreining

Þarfagreining opnuð fyrir stjórn og umræða geymd til fundar trúnaðarráðs og stjórnar.

12. Sjálfboðaliðaverkefni

Framkvæmdarstjóri kynnir niðurstöður sjálfboðaliðaverkefnis og hvernig verður unnið með sjálfboðaliða. Varaformaður leggur þetta fyrir stjórn til kynningar. Anna Eir mun deila þessu með trúnaðarráði.

13. Bingó

Varaformaður óskar eftir sjálfboðaliða til að vinna að bingóinu. Sjúlli, Anna Eir og Heiðrún eru í bingómálanefnd.

14. Önnur mál

Hugmyndir um list- og menningaráð kynnt og borin undir stjórn. Stjórn styður þetta framtak og skipar Bjarndísi í það ráð fyrir hönd stjórnar.

Fréttir framkvæmdarstjóra. Staðan er þung á skrifstofunni, mörg verkefni og lítill tími. Samstarf er þó gott en varaformaður leitar eftir leiðum til að styðja við starfsfólk. Mikilvægt að stofna stuðningshóp fyrir hópinn af flóttafólk sem kemur núna í september, sem fyrst. Mikið um að vera í félagsmiðstöðinni. Verið er að kalla eftir 10-12 ára starfi í samtökunum, þarf að skoða það frekar.

Daníel óskar eftir leyfi til að bjóða fram styrk til þriggja æfinga fyrir íþróttafélagið Styrmi sem nú er í umræðunni að endurvekja.

Fundi slitið: 19:23