Skip to main content
Fréttir

Hikandi biskup fer með gát

By 3. janúar, 2006No Comments

HIKANDI BISKUP FER MEÐ GÁT

Á nýársdag sóttum við fjórar, ég, kona mín og dætur okkar tvær, messu í Háteigskirkju. Síðar um daginn var frá því skýrt í fréttum að þennan sama dag hefði biskup þjóðkirkjunnar messað í Dómkirkjunni og lýst því yfir að þjóðkirkjan stæði „heilshugar með samkynhneigðum einstaklingum og réttindum þeirra í samfélaginu“. Afdráttarlaus yfirlýsing, en ekki marktæk vegna þess sem á eftir fylgdi. Því biskup sagði, að ef samkynhneigðum yrði heimilað að ganga í hjónaband væri hin aldagamla stofnun, hjónabandið, afnumin. Svo langt náði sú samstaða og biskup vísaði til þess að ástæða væri til að staldra við og að nú hlyti þjóðkirkjan að hika við. Þá hvatti hann Alþingi og ríkisstjórn til að fara með gát og „leyfa hjónabandinu að njóta vafans“. Enda telur hann það í „samhljómi við lífsins lög“ að hjónaband skuli vera sáttmáli eins karls og einnar konu.

SPURNINGARMERKI BISKUPS

Í fréttum NFS um kvöldið, í tilefni nýárspredikunarinnar, bætti biskup um betur. Þá sagði hann m.a.: „Krafan sem hefur síðan komið mjög skýrt fram og verið mjög sótt hart fram með, að skilgreina hjónabandið kynhlutlaust, þar vil ég setja spurningamerki við og vil biðja menn að doka við.“

Þá var haft eftir biskup að hann vonaðist til að Alþingi myndi ekki knýja trúfélög til að taka afstöðu í málinu. Og enn sagði biskup. „Það verkar þannig, með því að veita heimild, þá mun það verka þvingandi. Það verður það sérstaklega fyrir þjóðkirkjuna.“

Biskup þjóðkirkjunnar þorir ekki að taka af skarið, þótt auðvelt sé að ráða í orð hans. Hann vill staldra við, hann hikar, talar um vafa, kvartar undan að sótt sé hart fram með kröfur á hendur kirkjunni, setur spurningamerki við kröfurnar, biður menn að doka við og kveinkar sér undan þvingun. Ætla mætti að biskup, sem virðist ekki eingöngu þekkja fræðin sín heldur einnig „lífsins lög“, ætti öðrum fremur að geta tekið mjög skýra afstöðu.

VIÐ EIGUM EKKI ANNARRA KOSTA VÖL

Biskup þjóðkirkjunnar, kirkjunnar sem ég tilheyrði allt frá fæðingu og fram til nýárspredikunarinnar, gerir sér líklega grein fyrir að almenningur er laus við þá fordóma sem drjúpa af hverju hans orði og þorir þess vegna ekki að taka alveg af skarið. Líklega myndu þá fleiri yfirgefa þjóðkirkjuna en ég, kona mín og dætur okkar. Við eigum einfaldlega ekki annarra kosta völ, sjálfsvirðingar okkar vegna.

Lengi vel taldi ég mér trú um að ég ætti kirkjuna mína sjálf og að yfirlýsingar einstakra starfsmanna hennar skiptu ekki máli. Til lengdar finnst mér hins vegar niðurlægjandi og lýjandi að sækja boð gestgjafa sem augljóslega vill ekkert með mig hafa, þótt ekki hafi hann kjark til að segja það berum orðum. Og jafnframt ber mér skylda til að vera dætrum mínum góð fyrirmynd. Það geri ég ekki með því að selja sjálfsvirðingu mína fyrir einstaka messu, þótt í góðri sókn sé.

————

Höfundur er laganemi í staðfestri samvist og önnur móðir tveggja stúlkna.

Grein þessi birtist upphaflega í Morgunblaðinu 3. janúar 2006.

Leave a Reply