Fréttir

Forseti Íslands fær Hýrasta jólatréð 2025

Samtökin ‘78 gáfu Höllu Tómasdóttur, forseta Íslands og verndara félagsins, eintak af Hýrasta jólatrénu 2025 á Bessastöðum í dag. Bjarndís Helga Tómasdóttir, formaður, afhenti Höllu gripinn. Hönnuður Hýrasta jólatrésins í ár, Hafsteinn Himinljómi Regínuson, fann því svo fallegan stað á jólatré forsetaembættisins.
„Það er gríðarlega dýrmætt fyrir Samtökin ‘78 að eiga forseta lýðveldisins að sem verndara félagsins. Forseti Íslands er forseti okkar allra, og við erum henni afar þakklát fyrir hlýjar móttökur á Bessastöðum í dag,“ segir Bjarndís Helga.
Hýrasta jólatréð er litríkur og fallegur jólaórói og er ein mikilvægasta fjáröflun Samtakanna ‘78. Hönnun ársins 2025 er innblásin af laufabrauði, íslenskri hefð sem sameinar fjölskyldur í aðdraganda jóla. Tréð má kaupa á hinseginkaupfelagid.is eða í verslunum Epal.