Skip to main content
Fréttir

Framboð til stjórnar og trúnaðarráðs Samtakanna '78

By 12. mars, 2014No Comments

Aðalfundur Samtakanna ’78 verður haldinn í Regnbogasal Samtakanna ’78 laugardaginn 22. mars kl. 14:00. Á dagskrá fundarins eru hefðbundin aðalfundarstörf samkvæmt lögum félagsins, þar á meðal kosningar til stjórnar og trúnaðarráðs auk tveggja skoðunarmanna reikninga. Framboðsfrestur í öll embætti rann út laugardaginn 8. mars. 

Eftirtaldir bjóða sig fram til starfa fyrir Samtökin ’78 á næsta starfsári: 

Framboð til formanns

hilmar

Hilmar Magnússon

Hilmar Magnússon býður sig fram til formennsku í Samtökunum ‘78. Hilmar hefur verið virkur í hinsegin hreyfingunni í um einn og hálfan áratug og er einn af stofnfélögum Hinsegin kórsins. Hann hefur oftast tekið virkan þátt í Hinsegin dögum, komið að starfi íþróttafélagsins Styrmis og um skeið boðið upp á hinsegin sögu- og menningargöngur í Reykjavík. Hann tók fyrst þátt í stjórnarstörfum fyrir Samtökin ‘78 á árunum 2007 til 2010, fyrst sem meðstjórnandi en svo í hlutverki ritara. Á þessu tímabili sat hann m.a. í stjórn Mannréttindaskrifstofu Íslands, ásamt því að taka þátt í að leiða samstarf við Íslandsdeild Amnesty International um mannréttindi hinsegin fólks á alþjóðavettvangi. Frá árinu 2011 hefur hann í umboði stjórnar gegnt stöðu alþjóðafulltrúa og tekið þátt í alþjóða- og Evrópusamstarfi, m.a. vinnu við ársskýrslur ILGA Europe um stöðu og réttindi hinsegin fólks.

Helstu áherslur:
Hilmar leggur áherslu á Samtökin ‘78 sem sýnilegt og kröftugt baráttuafl fyrir réttindum, menningu og frelsi hinsegin fólks til að njóta lífsins á eigin forsendum – innan lands sem utan. Hann telur samtökin mikilvæga rödd fyrir hinsegin fólk, öflugt baráttutæki og þjónustustofnun, m.a. á sviði fræðslu, menningar og ráðgjafar. Hilmar vill efla þessi kjarnahlutverk og takast á við verkefnin með opinni og gagnrýnni umræðu, sýnileika og samstarfsvilja. Hann vill hlúa að öllum félögum hreyfingarinnar en leggja sérstaka rækt við hópa og málefni sem of oft falla í skuggann. Dæmi um þetta gætu verið málefni aldraðra og fólks af erlendum uppruna, staða tvíkynhneigðra og lýðheilsa hinsegin fólks (t.d. kynsjúkdómar, vímuefni, líkamsvirðing og andleg líðan). Að þessu sögðu leggur hann áherslu á að nálgast viðfangsefnin af nærgætni og virðingu fyrir fjölbreytileika, þannig að allt hinsegin fólk finni sig velkomið á vettvangi félagsins.

Hilmar telur fráfarandi formann Önnu Pálu Sverrisdóttur hafa slegið nýjan og ferskan tón í baráttunni. Undir hennar forystu hafi markvisst verið kallað eftir skoðunum félaga á tilgangi og stefnu samtakanna og margir virkjaðir til aðgerða á vettvangi. Hilmar heitir því að halda starfinu áfram í þessum anda. Virkja grasrótina áfram til starfa fyrir félagið. Hlusta á raddir félaganna og laða fram þann sköpunarkraft sem í þeim býr. Veita félagsmönnum raunverulega hlutdeild og eignarhald á starfinu.

Fjölskylduhagir, áhugamál og starfsreynsla:
Hilmar er 37 ára hommi, búsettur í Reykjavík. Hann á einn son sem hann elur upp í félagi við tvær vinkonur sínar. Hann er með MA gráðu í alþjóðasamskiptum frá Háskóla Íslands og BA gráðu í arkitektúr frá Arkitektskolen i Aarhus. Hann starfar sem verkefnastjóri alþjóðamála á skrifstofu borgarstjóra og borgarritara í Reykjavík en hefur áður unnið við ýmislegt, hjá Utanríkisráðuneytinu, ýmsum arkitektastofum, í hótel- og veitingageiranum, í fiski og við ræstingar, svo eitthvað sé nefnt. Hann er áhugamaður um tónlist, menningu- og listir, leikhús, stjórnmál og samfélag. Hann er ekki mikill íþróttamaður en hefur gaman af sundi, hotjóga og skíðum. Hann hefur gaman af því að taka í spil og viðurkennir fúslega ákveðna þörf fyrir lélegt amerískt sjónvarpsefni.

Þátttaka í félags- og stjórnmálum:
Hilmar hefur töluverða reynslu af félagsstörfum og stjórnmálastarfi. Hann var oddviti og bæjarfulltrúi Funklistans á Ísafirði 1996 og sat m.a. í bæjarráði. Hann var um skeið félagi í Samfylkingunni og tók virkan þátt í starfi hennar, m.a. í útgáfustarfi og sem kosningastjóri. Hilmar er félagi í Íslandsdeild Amnesty International, Rauða krossinum og Landvernd og var um skeið í varastjórn Framtíðarlandsins. Þá er hann stuðningsaðili Stígamóta.

Hilmar óskar eftir umboði félaga í Samtökunum ‘78 til að leiða starf samtakanna næsta árið.

 

Framboð til varaformanns

SAS

Svandís Anna Sigurðardóttir

Svandís hefur verið ritari Samtakanna ’78 síðast liðið ár en býður sig nú fram sem varaformaður 2014-2015.

“Ég hef haft mjög gaman af því að starfa í stjórn Samtakanna 78 og lagt sérstaka áherslu á fræðslu- og ráðgjafamál. Ég vil gjarnan sitja áfram í stjórn og fá tækifæri til að fylgja verkefnum og hugmyndum eftir. Framtíð Samtakanna 78 er mjög spennandi og barátta hinsegin fólks þarf nú að snúa sér að félagslegum þáttum í mun ríkari mæli en áður. Það þykir mér mjög spennandi og tel að þekking mín á sviði hinsegin- og kynjafræði koma að góðum notum, en ég er kynjafræðingur og vinn sem jafnréttisfulltrúi við Háskóla Íslands. Sömuleiðis hef ég mikinn áhuga á því að efla aðkomu aðildarfélaga, starfshópa og annarra innan okkar raða. Félagslíf okkar þykir mér spennandi málaflokkur sem ég vil gjarnan sjá eflast. Ég vona að ég fái tækifæri til að halda áfram hjá þessu góða félagi.”

 

Framboð til gjaldkera

villiVilhjálmur Ingi Vilhjálmsson

Vilhjálmur Ingi býður sig fram til endurkjörs sem gjaldkeri Samtakanna ’78 en hann hefur gegnt því embætti frá aðalfundi félagsins árið 2013. Vilhjálmur er 27 ára gamall og er heilsunuddari og íþróttafræðingur að mennt.



 

Framboð til ritara

kamalamaKamilla Einarsdóttir

“Ég heiti Kamilla Einarsdóttir og ég vil gefa kost á mér sem ritari Samtakanna ’78. Ég bý í Hlíðunum með þremur dætrum mínum og fullorðnum ketti. Hann er rosa krútt þó hann sé því miður alltaf að láta mig horfa á lélegar raunveruleikaþáttaseríur þó ég sjálf myndi að sjálfsögðu miklu frekar kjósa góðar heimildarmyndir.
Ég er að læra sagnfræði og vinn sem bókarvörður. Ég hef mikin áhuga á félagsstörfum og samfélagsmálum en í ritarastarfi held ég að kunnátta mín á hinar ýmsu ctrl styttingum muni ekki síður koma sér vel.”




Framboð til þriggja meðstjórnenda

Aldis Þorbjorg Olafsdottir

Aldís Þorbjörg Ólafsdóttir
 
Ég steig mín fyrstu skref inn í samtökin ’78 þegar ég var 18 ára gömul með þátttöku í ungliðahreyfingu samtakanna. Síðan þá hef ég starfað með ýmsum hinsegin félögum. Ég byrjaði sem alþjóðafulltrúi Q- félags hinsegin stúdenta árið 2008 og tók svo við sem formaður félagsins árið 2009. Ég hef setið í stjórn ANSO- samtaka norrænna, baltneskra og pólskra hinsegin stúdentafélaga. Ég hef tekið þátt í fjölda ráðstefna á vegum ANSO víðsvegar í Evrópu og skipulagði eina slíka hér á Íslandi árið 2009 sem bar titilinn A Queer Wonderland. Ég hef setið í jafnréttisnefnd stúdentaráðs Háskóla Íslands og tók þátt í því að endurvekja jafnréttisdaga háskólans í september 2009. Innan samtakanna ’78 hef ég setið í trúnaðarráði á árunum 2010 til 2011 og tók einnig þátt í jafningafræðslu þeirra, þar sem ég heimsótti fjölda grunnskóla. Í vor mun ég útskrifast úr Cand.psych námi í sálfræði við Háskóla Íslands. Ég tel spennandi tíma vera framundan hjá samtökunum og mig langar til að taka þátt á ný af fullum krafti í baráttumálum hinsegin fólks.”

einarvalur

Einar Valur Einarsson

Einar Valur heiti ég og er 22 ára hársnyrtir.

Núna er ég að klára stúdentinn ásamt Japönsku og stefni að áframhaldandi námi í Háskóla Íslands. Árið 2013 kynntist ég innra starfi Samtakanna 78. Þegar ég komst að því hversu mikilvægu starfi Samtökin 78 gegna þá fylltist ég af áhuga til að taka þátt í baráttunni um mannréttindi hinsegins fólks og gegn fordómum.

Hér með býð ég mig fram sem meðstjórnanda Samtakanna 78 fyrir starfsárið 2014-2015.

 


  

GunnarH

Gunnar Helgi Guðjónsson

Gunnar Helgi heiti ég og hef verið meðlimur í trúnaðarráði Samtakanna´78 síðastliðin tvö ár og var áheyrnafulltrúi á stjórnarfundum síðasta kjörtímabil. Það hefur verið mjög skemmtilegt og lærdómsríkt en nú langar mig að setjast í stjórn sem meðstjórnandi og gera miklu meira! Ég hef starfað á vettvangi Samtakanna ´78, m.a. í bókasafninu, við verkefni eins og atriði félagsins fyrir Gleðigöngu Hinsegin daga og séð um matreiðslu á viðburðum.

Ég var varaformaður FSS (nú Q félag hinsegin stúdenta), sat í stjórn ANSO (Association of Nordic and Pol-Balt LGBTQ Stu
dent Organizations) og hef verið sjálfboðaliði á Hinsegin dögum.

Ég lærði myndlist í Listaháskóla Íslands og er í MA námi í hagnýtri menningarmiðlun við Háskóla Íslands. Síðastliðið ár hef ég unnið við allskonar matartengd verkefni, verið kokkur, blaðamaður og framkvæmt ýmis ólík verkefni. 
Mig langar að efla menningarstarfsemi Samtakanna og leggja þekkingu og reynslu mína þar af mörkum. Skoða félagslegu hlið starfsins til dæmis með því að bjóða upp á skipulagða viðburði sem renna styrkari stoðum undir félagslíf í húsakynnum Samtakanna’78. Mig langar líka að vinna að innra starfinu sem kemur að hinum almenna félagsmanni, gæta þess að upplýsingar komist örugglega til skila og vinna eftir niðurstöðum úr Samtakamættinum. Bæta skilvirkni í samskiptum stjórnar og trúnaðarráðs þannig að hæfileikar og áhugi fái að njóta sín. 
Einnig tel ég mikilvægt að gera sér grein fyrir því að innan samfélagsins okkar erum við jafn ólík og við erum mörg. Þess vegna verður að hafa í huga að vinna með þarfir og langanir sem flestra til að koma ólíkum sjónarmiðum á framfæri.
Samtökin´78 eru frjáls félagasamtök sem byggja afkomu sína og velferð á framtaki sjálfboðaliða. Ég vil sjá kraumandi hugmyndaauðgi og verkefni sem verða að veruleika með stuðningi stjórnar.
Það eru spennandi tímar framundan, nýtt húsnæði í deiglunni sem þarf að sníða að þörfum okkar. Uppbygging á félagsstarfinu, fræðslunni, menningarstarfseminni og auka sýnileika.

Mig langar að taka þátt í þessu og óska því eftir atkvæðum ykkar til embættis meðstjórnanda.

josef

Jósef S. Gunnarsson

“Ég heiti Jósef S Gunnarsson fæddur í reykjavík 23 desenber 1980 Ég er yngstur þrigjra bræðra, á einnig tvær yngri systur og eina stjúpsystir.
Er samkynhneigður, kom útur skápnum 2001. Eftir mikla baráttu við sjálfan mig. Ég starfa sem þjónustustjóri hjá rúmfatalagernum á smáratorgi.
Hef starfað þar síðan 2010. Hef mikla reynslu af félagsstörfum. Hef verið í félagi ungra jafnaðarmanna. verið í stjórn starfsmannafélaga og trúnaðarmaður á vinnustað. Verið í árshátíðarnefnd rúmfatalagersins 2013 og 2014. 
Ég er einhleypur. 
Mig langar að sjá ýmsar breytingar innan samtakana. Mér finst komin tími á ferskar breytingar þannig að allir séu velkomnir þangað. Og að við séum ekki með fordóma sjálf innan veggja samtakana.”

  

oðinnthor

Óðinn Thor Harðarson

“Ég heiti Óðinn Thor, 22 ára mjög áhugasamur einstaklingur um bætt mannréttindi og framför einstaklinga Samtakanna 78 sem og öðrum mannréttindasamtaka.

Ég er lærður í grunn forritun, kerfisfræði, vefsíðugerð, grafískri hönnun og margmiðlun. Er núna við nám í HR að læra tölvunarfræði. Ég er starfsmaður hjá Hringdu og heyri undir tæknisvið.

 

Ég hef mikinn áhuga á tækni af öllum toga og vill oft fylgjast vel með því sem er í gangi hverju sinni. Hef einnig áhuga á útivist og ferðalögum ásamt því að vera í góðum vinahóp. Er með þolinmæði og þjónustulund í hámarki sem ég er mjög stoltur af.

 Ég hef mikinn áhuga að taka þátt í því starfi sem stjórn Samtakanna 78 gerir og vera partur af þeirri áframhaldandi þróun sem mun koma.” 

sigurdur julius

Sigurður Júlíus Guðmundsson

Sigurður Júlíus Guðmundsson býður sig fram til meðstjórnanda Samtakanna ’78. Sigurður hefur undanfarin tvö og hálft ár setið í stjórn samtakanna, fyrst sem meðstjórnandi og síðustu tvö ár sem varaformaður. Sigurður er menntaður fjölmiðlatæknir auk ýmiss viðbótarnáms. Í dag starfar Sigurður í tækniþjónustu hjá AP Media ehf. sem er tölvuþjónustufyrirtæki með fjölbreytta starfsemi. Sigurður hefur unnið við margvísleg félagsstörf, m.a. með Búddistafélaginu SGI á Íslandi, Nemendafélags Borgarholtsskóla, Starfsmannafélags Skjásins og Hjálparsíma Rauða Krossins svo eitthvað sé nefnt. Þá var Sigurður einnig einn af stofnendum róttæka hópsins Bleiki hnefinn.
Eftir tveggja ára setu sem varaformaður Samtakanna ’78 er kominn tími til breytinga. Mikil vinna er framundan í kynningar- og vefmálum sem Sigurður sækist eftir að leiða en þau störf henta ekki með stöðu varaformanns og lætur hann því af því embætti. 
Þrátt fyrir það er spennandi starf fyrir höndum sem hafið var á síðustu árum og er mikill vilji til staðar til að fylgja þeim störfum eftir.
Sigurður hefur komið að Samtöku
num ’78 með einhverjum hætti í yfir 13 ár en auk stjórnar- og trúnaðarráðsstarfa kom hann einnig að stofnun Hýraugans – fréttabréfs Samtakanna ’78 og Hinsegin kórsins svo eitthvað sé nefnt. 

Auk þess hefur hann einnig umsjón með ungliðastarfi Samtakanna ’78 ásamt fleira góðu fólki.

oddiÖrn Danival Kristjánsson

“Örn Danival heiti ég og hef setið í stjórn Samtakanna 78 sem meðstjórnandi starfsárið 2013-2014. Hér með býð ég mig fram til endurkjörs fyrir tímabilið 2014-2015 og hlakka mikið til að fá að halda áfram að taka þátt í áframhaldandi störfum í þágu hinsegin fólks.”

 



 


Framboð til trúnaðarráðs

andri

Andri Sævar Sigríksson

“Ég vil bjóða fram krafta mína til áframhaldandi setu í trúnaðarráði. Ég heiti Andri Sævar og er háskólanemi. Mig langar sjá til þess að (mögulega) nýja húsnæði s78 verði nýtt til hámarks möguleika þess og að menningarstarfsemi Samtakanna ´78 verði efld og að samtökinn halda áfram því góða starfi í erlendu samstarfi við elend hinsegin félög eins og FARUG”



 

annamargret

Anna Margrét Grétarsdóttir

Ég heiti Anna Margrét Grétarsdóttir og er kona. Ég fæddist fyrir 61 ári sem drengur og fékk nafnið Ágúst Már. Fljótlega kom í ljós að ekki var allt með feldu hvað kynferði varðaði. Það tók mig rúm 50 ár að koma út úr „skápnum“ eins og við segjum og eftir 8 ár hjá hinum ýmsu sérfræðingum um þessi mál lauk ég kynleiðréttingu minni þann 16.maí 2013.

Árið 2006 kynntist ég fleirrum sem voru í sömu sporum og ég,einstaklingum sem voru búnir eða voru í miðju kynleiðréttingarferli,fljótlega fórum við að ræða um stofnun félags fyrir transgender einstaklinga,í framhaldi af því var ég ásamt Önnu Kristjáns og Önnu Jonnu skipuð í undirbúningsnefnd til að semja drög að lögum félagsins (Önnunefndin) og í febrúar 2007 nánartiltekið þann 25 var stofnfundur TS-Íslands og á fyrsta aðalfundi í maí var ég kosin gjaldkeri og var það þar til á aðalfundi 2012 á þeim fundi var ég kosin skoðunarmanneskja reikninga félagsins.

Ég tel mig nokkuð sjóaða í félagsmálum var í Junior Chamber í 11 ár og gengdi þar hinum ýmsum embættum allt frá því að vera í nefndum,nefndaformaður,leiðbeinandi á ýmsum námskeiðum svo sem ræðunámskeiðum, fundarstjórn, skipulögðum nefndarstöfum o.fl. og að lokum forseti JC-Breiðholt. Seina var ég í 10 ár í stjórn hjá Knattspyrnufélaginu Víking Rvk handknattleiksdeild.

Ég tel mig hafa nokkuð góða þekkingu á málefnum „hinsegins fólks“ sérstaklega transgendereinstaklinga og er mjög umhugað um þeirra mál, af þeirri ástæðu og reyndar fleirrum hef ég ákveðið að gefa kost á mér í trúnaðarráð Samtakana78.

auðurmagndis

Auður Magndís

Ég vil gefa kosta á mér í trúnaðarráð samtakanna ´78. Ég er áhugakona um félagslegt réttlæti og fjölbreytileika mannlífsins og vil gjarnan fá kost til að vinna að bættum hagi hinsegin fólks á Íslandi. Ég hef sérstakan áhuga á að efla umræðu um það hvernig önnur staða hinseginsfólks, t.d. kyn, fjölskyldustaða, uppruni og fötlun spilar inn í veruleika þeirra. 

Ég er félagsfræðingur að mennt með kynjafræði sem aukagrein og starfa við jafnréttismál hjá skóla- og frístundasviði Reykjavíkurborgar. Ég sat í trúnaðarráði á síðasta starfsári samtakanna og tók meðal annars þátt í gerð könnunar um hag hinseginfólks og undirbjó og vann úr Samtakamættinum, þjóðfundi hinsegin fólks.”

 

Embla

Embla Guðrúnar Ágústsdóttir

“Embla Guðrúnar Ágústsdóttir heiti ég og gef kost á mér í trúnaðarráð Samtakanna 78 á starfsárinu 2014-2015. Ég er
23 ára nemi í félags- og kynjafræði við Háskóla Íslands og hef síðastliðin ár tekið virkan þátt í réttindabaráttu fatlaðs fólks. Sem fötluð lesbía hef ég reynslu af margfaldri jaðarsetningu og hef ég nýtt þá persónulegu reynslu í starfi mínu fyrir breyttum viðhorfum og auknum réttindum. Í námi mínu hef ég beint sjónum mínum sérstaklega að samspili fötlunar og kyns og hvaða afleiðingar jaðarsetning hefur á daglegt líf fólks. Ég tel mikilvægt að auka meðvitund um stöðu fatlaðs hinsegin fólks á Íslandi og auka sýnileika þessa hóps sem enn er að miklu leyti inn í skápnum. Ég vil gjarnan nýta þekkingu mína, reynslu og áhuga í þágu Samtakanna 78 og þess frábæra starfs sem þar er unnið. Af þeim sökum gef ég kost á mér í trúnaðarráð Samtakanna 78.”
 

herdisHerdís Eiríksdóttir

“Ég heiti Herdís Eiríksdóttir, er tölvunarfræðingur og hef starfað í hugbúnaðargeiranum síðastliðin 10 ár. Ég bý í Kópavoginum ásamt sambýliskonu og dóttur. Ég hef undanfarið starfað með Hinsegin kórnum en hef áhuga á því að leggja mitt af mörkum til áframhaldandi starfs S78,og býð mig því fram til trúnaðarráðs.”




 

natanNatan Kolbeinsson

Ég, Natan Kolbeinsson, hef ákveðið að bjóða mig fram í trúnaðarráð Samtakana ’78 fyrir komandi starfsár. Ég er 20 ára og hef verið félagsmaður í samtökunum í tvö ár. Ég vil ég leggja áherslu á vitundarvakningu meðal ungs fólks um að baráttunni fyrir jafnrétti er ekki lokið þó svo staðan sé góð. Ennþá eru fordómar í samfélaginu sem verður að brjóta upp.

Ég hef ég starfað innan fjölda félagasamtaka undafarinn ár og vona ég að sú reynsla og það tengslanet sem ég hef komið mér upp geti nýst samtökunum til að efla og styrkja starfi enn frekar.

Ég hef trú á því að ef við náum að mynda trúnaðarráð sem endurspeiglar þann mikla fjölbreytileika sem er í félaginu séu okkur allir vegir færir. Með sterkt trúnaðarráð getum við þjappað okkur enn frekar saman og sýnt fram á þann styrk sem býr í samfélagi hinseigin fólks á Íslandi. Framundan eru mörg spennandi verkefni og vonast ég eftir stuðningi ykkar til þess að geta tekist á við þau.” 

siggarosaSigríður Rósa Snorradóttir

“Ég er frá Selfossi en hef búið í Reykjavík síðustu 12 árin og er með stúdentspróf frá Menntaskólanum við Hamrahlíð. Ég hef unnið við ýmislegt í gegnum tíðina, m.a. markaðs- og sölustörf, sjálfboðastarf á Grikklandi o.fl. Lengst af hef ég samt starfað á leikskóla eða um 8 ár, þar af seinustu 4 árin sem stuðningsfulltrúi.

Ég hef alla tíð haft mikinn áhuga á tónlist en ég er með framhaldspróf í söng og stunda nám við háskóladeild Söngskólans í Reykjavík.

Í hinsegin samfélaginu hef ég aðallega verið virk í gegnum Hinsegin kórinn en ég hef verið gjaldkeri kórsins síðan 2012.”

 


 

solveigSólveig Rós

Sólveig Rós er hinsegin sís kona, menntaður stjórnmálafræðingur sem hefur einnig lagt stund á kynjafræði. Hún sat í stjórn hinsegin félags háskólans sem hún gekk í erlendis í eitt og hálft ár og tók þar þátt í mörgum verkefnum, svo sem að semja og framfylgja sjálfboðaliðastefnu félagsins, stefnu um öruggara rými, um útrýmingu kynþáttahyggju innan félagsins o.m.fl. Þar að auki hefur hún starfað með samtökum er láta sig kynbundið ofbeldi varða. Sólveig Rós tók virkan þátt í jafningjafræðslu Samtakanna ’78 allt árið 2013 og hélt ásamt fræðslustýru og öðrum meðlimum jafningjafræðslunnar námskeið fyrir nýja fræðara í janúar 2014. Einnig er hún virk í Samþykkishópnum. Fræðsla og útrýming fordóma og ofbeldis er eitt helsta áhugamál Sólveigar Rósar og þau verkefni sem hún myndi beita sér helst fyrir í trúnaðarráði, ásamt samþættingu hinsegin baráttunnar við önnur baráttumál, svo sem á grundvelli kyns, kynþáttar, fötlunar, uppruna og hælisleitendastöðu, o.s.frv., því ekkert okkar er frjálst fyrr en við erum öll frjáls.

sverrir

Sverrir Jónsson

“Ég heiti Sverrir Jónsson og býð mig fram til endurkjörs í trúnaðarráð. Ég er hagfræðingur að mennt og vinn í fjármála- og efnahagsráðuneytinu. Eftir að hafa staðið á hliðarlínunni í mörg ár og notið réttarbóta sem Samtökin 78 hafa barist fyrir, hef ég notið þeirrar lukku að taka þátt í starfinu undanfarið ár og vil gjarna halda því áfram.”



 

unnsteinn

Unnsteinn Jóhannsson

Síðustu árin hef ég verið að vinna að því með fleirum að skoða málefni ættleiðinga hinsegin fólks. Það er þaðan sem áhugi minn til að leggja mitt á vogaskálarnar kemur. Mig langar að bjóða fram krafta mína og kynnast Samtökunum betur. Mig langar að skilja daglega baráttu og hvernig hægt er að vinna gegn fordómum samfélagsins í garð hinsegin fólks. 

Til að segja stuttlega frá mér, þá er ég 27 ára KaosPilot. Ég bjó lengi vel í Garðabænum, en er nú orðinn Reykvíkingur og líkar það vel. Ég hef búið í 5 löndum og starfað sem kaffibarþjónn og verslunarstjóri meðal annars. Ég er skáti, unnusti, hundaeigandi og nokkuð kreatívur hugmyndasmiður. Áhugi minn á að ferðast, bæði innanlands og utan hefur víkkað sjóndeildarhring minn svo um munar. Skapandi hugsun mín fær mig til að vilja taka þátt í nýjum verkefnum og leggja inn hugmyndir og spurningar til að bæta og vinna að sem bestu mögulegu útkomu fyrir hvert verkefni.
Ég tel mig eiga fullt erindi inní Samtökin, en meðal annars hef ég verið skátaforingji frá því að ég var 16 ára gamall. Ég er lærður KaosPilot (þriggja ára nám í skapandi verkefnastjórnun, með viðskipta- og frumkvöðlafræði)Í dag vinn ég í hlutastarfi sem framkvæmdatjóri Landssambands æskulýðsfélaga, en einnig er ég í stjórn skátafélagsins Vífils og hef tekið að mér hópefli  og viðburðastjórnun fyrir hin ýmsu félög og fyrirtæki. 
 
Það væri mér heiður að fá að taka þátt í frekari uppbyggingu á flottu starfi Samtakanna ´78. Ég hef áttað mig á því hin síðustu ár hversu heppin við erum að eiga þau að. Það dugar samt ekki að slaka á því að enn er full ástæða fyrir því að Samtökin ’78 séu til.
 
Ég vona að ég eigi samleið með Samtökunum ’78 og hlakka til að takast á við verkefnin framundan.

vala

Valgerður Jónsdóttir

Ég er í þann mund að ljúka BA-námi í félagsfræði við Háskóla Íslands og hef einnig lært hinsegin fræði og tekið kynjafræðikúrsa til hliðar við félagsfræðina. Auk þess að vera í skóla starfa ég sem stuðningsfulltrúi og móttökufulltrúi á Kleppi.

Félagsmál standa mér mjög nærri og málefni hinsegin fólks ekki síður en önnur. Ég er virk í starfi Samtakanna ’78 þó ég hafi reyndar ekki tekið þátt í formlegu starfi innan þeirra. Í haust var ég til dæmis ein þeirra sem komu að skipulagi mannréttindahátíðarinnar Glæstar vonir og þá vaknaði áhugi á að taka frekari þátt í starfi Samtakanna. Mig langar til þess að gera gagn og hjálpa til við að styrkja nú þegar sterkt starf þeirra og það er ástæðan fyrir að ég býð mig fram til setu í Trúnaðarráðinu.

 

 

Varaframboð til trúnaðarráðs (framboð virkjast hljóti viðkomandi ekki kosningu í annað embætti):

Óðinn Thor Harðarson

Örn Danival Kristjánsson

Sigurður Júlíus Guðmundsson

Jósep Gunnarsson

Einar Valur Einarsson

 

Félagslegir skoðunarmenn reikninga:

Sigurjón Guðmundsson

Svavar Gunnar Jónsson 

Leave a Reply