Skip to main content
Uncategorized

Lækningar – Blekkingar?

By 1. janúar, 2000No Comments

Haukur F. Hannesson ræðir við Ulf Lidman, prest í Stokkhólmi.

Ulf Lidman er fyrrverandi fyrrverandi hommi. Og þar sem tveir mínusar eru plús er hann í dag yfirlýstur hommi, þar að auki vígður prestur og starfar innan sænsku þjóðkirkjunar. Í nokkur ár var hann búsettur í Bandaríkjunum og starfaði sem ráðgjafi á meðferðarstofnun sem hafði það hlutverk að „lækna“ samkynhneigða af kynvillunni og gera þá að guðs þóknanlega (gagnkynhneigða) fólki. Um meðferðarstofnanir af þessu tagi fengu menn að heyra veturinn 1999 þegar afstaða kirkju og kristni til samkynhneigðra varð vettvangur umræðu á Íslandi. Ekki síst gekk sjónvarpsstöðin Omega hart fram í hatursáróðri sínum. En hverjar eru þessar stofnanir? Á hverju byggja þær kenningar sínar. Hver er reynsla þeirra sem hafa lent þar í „meðferð“? Og hver er reynsla Ulfs sjálfs?

Kveikja umræðunnar veturinn 1999-2000 var Rabbgrein Ólafs Stephensen í Lesbók Morgunblaðsins og svar prestsins Ragnars Fjalars Lárussonar við henni. Ýmsir lögðu orð í belg og að lokum var eins og flóðgáttir opnuðust. Samkynhneigðir lýstu skoðunum sínum á kirkju og kristni og margir „hinna kristnu“ vöktu upp myrkrið í kristindómnum og opinberuðu frumstætt hatur sitt á samkynhneigðum. Að lokum fór framlag trúarfíkla og annarra hatursmanna samkynhneigðra úr böndunum svo að tekið var fyrir umræðuna af hálfu ritstjórnar Morgunblaðsins.

Umræðan var að mörgu leyti hliðstæð þeirri sem farið hefur fram í öðrum löndum um tengsl og afstöðu kirkjunnar til samkynhneigðra. Í greinum bókstafstrúarmanna og annarra hatursmanna samkynhneigðra komu fram sömu skoðanir og víðast hvar annars staðar – að samkynhneigðir væru í raun ágætis manneskjur, en þeir liðu fyrir syndir sínar og óeðli. Til þess að bjarga þessum sálum þyrftu þeir einfaldlega að fá rétta meðferð við sjúkdómnum. Í umræðunni tók meira að segja til orða maður sem hafði „læknast“ og skrifaði um þá meðferðarstöð sem hafði komið honum á rétt spor.

Lítið sem ekkert hefur verið fjallað á Íslandi um þær meðferðarstöðvar sem gefa sig út fyrir að „lækna“ samkynhneigð. Þessar stofnanir eru þó til í nágrannalöndum okkar svo sem í Svíþjóð, en helsti vettvangur þeirra er Bandaríkin. Í stuttu máli gengur starfsemin út á það að hinn samkynhneigði og „sjúki“ getur eftir að hafa tekið þátt í meðferð fengið „eðlilegar“ (gagnkynhneigðar) kynhvatir og síðan gengið í hjónaband, eignast börn og þar með orðið nýtur þjóðfélagsþegn. En út á hvað gengur þessi meðferð? Hverjir reka þessar stofnanir? „Læknast“ hommarnir og lesbíurnar virkilega við meðferðina?

Síðastliðið sumar hlýddi höfundur þessara orða á Ulf Lidman félagsráðgjafa og prest flytja fyrirlestur um hreyfinguna Exodus í Bandaríkjunum en það eru samtök þeirra sem telja sig fyrrverandi homma og lesbíur. Ulf, sem í dag er yfirlýstur hommi, starfaði lengi sem meðferðarráðgjafi hjá einni af stofnunum hreyfingarinnar í Bandaríkjunum. Í fyrirlestrinum komu fram ýmsar athyglisverðar hliðar á þessari starfsemi sem forvitnilegt er að fræðast nánar um. Það varð því að ráði að ég hafði samband við Ulf og leitaði eftir viðtali á vegum Samtakafrétta til að forvitnast um þessa starfsemi og hann sjálfan. Hann tók beiðninni ljúfmannlega og við hittumst í Stokkhólmi þar sem hann býr og starfar.

Tvöfalt líf
Ulf Lidman fæddist í Gautaborg árið 1962. Hann gerði sér snemma grein fyrir því að hann væri samkynhneigður, svo snemma að í fyrstu bekkjum grunnskólans fann hann að hann var ekki eins og aðrir. Honum segist svo frá:

– Þegar ég kom á unglingsárin varð ég enn óvissari um það hver ég væri. Það voru engar fyrirmyndir, engir samkynhneigðir menn, hvorki í hversdagslífinu né í fjölmiðlum. Ég byrjaði að lifa kynlífi í gegnum skyndikynni en talaði aldrei við neinn um samkynhneigð mína. Á sama tíma fékk ég sterka opinberun um tilvist guðs og leitaði til svokallaðs frjáls safnaðar þar sem að mér fannst ég eignast bræður og systur í trúnni. Það kom hins vegar fljótt í ljós að í söfnuðinum ríkti sterk hómófóbía og margt neikvætt sagt um samkynhneigða. Því lærðist mér fljótt að þegja um kynhneigð mína. Þetta skapaði tvöfalt líf, eitt með trúnni og annað með kynhneigðinni. Ég fékk aldrei tækifæri til að ræða um mig allan sem eina heila manneskju og þetta leiddi til þess að ég varð mjög einmana, líka í söfnuðinum.

Ég hélt þó áfram að lifa þessu tvöfalda lífi. Uppfyllingu minna andlegu þarfa fékk ég á vettvangi safnaðarins og útrás fyrir kynhvötina í gegnum skyndikynni. Þetta skapaði þó meiri og meiri vanlíðan. Hin neikvæðu skilaboð um samkynhneigð úr safnaðarstarfinu sköpuðu sektarkennd þegar ég átti ástarfundi með öðrum karlmönnum. Að lokum brast stíflan.

Hin heila manneskja
– Ég var að þrotum kominn og varð að fá að tala við einhvern um það hver ég væri. Í söfnuðinum hafði ég fengið ábendingu um biblíuskóla sem var rekinn af alþjóðlegum samtökum og þar sem áherslan var lögð á að vinna með alla manneskjuna – hina heilu manneskju. Ég fór í þennan skóla og hitti þar fólk frá Englandi sem sagði mér fr&aacu
te; því að það hefði verið samkynhneigt en að Guð hefði „læknað“ það af þessari synd. Þetta var í fyrsta skipti sem að ég hitti einhvern sem ég gat talað við um samkynhneigð. Biblíuskólinn kenndi það að samkynhneigð væri hluti af hinu illa en að guð væri kærleiksríkur og fyrirgæfi alla syndir. Bara að fá að tala um samkynhneigð mína – „vandamál“ mitt – varð mér mikill léttir og gaf mér von um að þrátt fyrir allt gæti ég átt betra líf í vændum.

Eitt leiddi af öðru og áður en ég vissi af var ég kominn í fullt starf hjá samtökunum sem ráku biblíuskólann. Ég fluttist til Austurlanda nær og ferðaðist á vegum samtakanna um allan þann heimshluta. Þetta var spennandi líf fyrir ungan mann, það var lítill tími til að hugsa um annað um starfið en þó kom það fyrir að ég hitti karlmenn sem ég naut kynlífs með. Því fylgdi vanlíðan en oftast ræddi ég um „fall“ mitt við einhvern innan samtakanna sem boðaði fyrirgefningu guðs en varaði mig þó við að falla í freistni aftur.

Í starfinu hjá samtökunum kynntist ég Maríu. Við gengum í hjónaband því það átti maður að gera. Hún starfaði einnig fyrir sömu samtök í sama heimshluta. En þar kom að breytingar áttu sér stað.

Til hommanna í Amsterdam
Samtök þau sem Ulf og María störfuðu hjá tilheyrðu alþjóðlegri hreyfingu sem nefndist Lærisveinahreyfingin (Deciple Movement). Þessari hreyfingu var stjórnað af sterkum persónum, sem með persónuleika sínum og útgeislun stýrðu stefnu samtakanna. Þessir leiðtogar höfðu heyrt um „baráttu“ Ulfs við kynhneigð sína.

– Ég fékk þau skilaboð frá leiðtogunum að ég væri kallaður til þess að frelsa samkynhneigða frá villu síns vegar í starfi mínu fyrir samtökin. Þar væri vettvangur minn. Í því skyni skyldum við María flytjast til Amsterdam og setjast að í Rauða hverfinu miðju og vinna að því að samkynhneigðir fyndu leiðina til Guðs. Við settumst að í húsi við hliðina á hommabar og vissulega gerðist það að samkynhneigðir leituðu til samtakanna. Mér varð það hins vegar snemma ljóst að mig skorti þekkingu og áhöld til þess að geta unnið að þessu starfi. Til að bæta úr því fór ég að skrifast á við samtök í Bandaríkjunum sem nefnast Exodus og segjast vera samtök fyrrverandi homma og lesbía sem hafi snúist til gagnkynhneigðar.

Þegar ég hafði starfað um nokkurn tíma í Amsterdam og skrifast á við Exodus var mér boðið að flytjast til Bandaríkjanna og starfa á meðferðarstofnun tengdri þessari hreyfingu, en hlutverk hennar var að „lækna“ fólk af kynvillu. Ég sló til og fluttist ásamt Maríu til Bandaríkjanna. Mér hafði reyndar skilist að ég yrði lærlingur á stofnuninni í byrjun, en annað átti eftir að koma í ljós.

Sérfræðingur á fyrsta degi
– Fyrsta daginn sem ég mætti í vinnuna var mér fenginn sjúklingur til viðtals. Ég hafði enga menntun og enga reynslu í meðferðarstarfi. Það eina sem ég hafði var reynsla mín sjálfs. Þegar ég ámálgaði þetta við yfirmenn mína hjá stofnuninni og spurði hvernig menntun minni yrði hagað, voru svörin þau að hér lærðu menn af mistökum sínum! Fljótlega leiddi ég hópmeðferð og var með fjölda sjúklinga í einstaklingsmeðferð. Á stofnuninni voru einnig hópar fyrir foreldra samkynhneigðra. Þeir voru í flestum tilvikum mjög trúaðir og áttu bágt með að sætta sig við samkynhneigð barna sinna. Sérstakir hópar voru líka starfandi fyrir eiginkonur karla sem voru að „berjast“ við samkynhneigð sína.

Þegar gengið er á Ulf um nafn stofnunarinnar vill hann ekki svara. Hættan á málsókn er of mikil. Og Ulf heldur frásögninni áfram:

– Meðferðin gekk út á það að tala um kynhneigð sína og reyna með öllum tiltækum ráðum að koma í veg fyrir að falla í freistni. Gengið var út frá því að ef maður leysti flækjur, til dæmis samband við foreldra og annað sem fylgir því að verða fullorðinn, myndi samkynhneigðin hverfa eins og dögg fyrir sólu!

Fyrir utan starfið á meðferðarstofnuninni tók Ulf þátt í stórum mótum eða ráðstefnum sem Exodus skipulagði. Þangað kom fólk sem hafði „læknast“ af samkynhneigð sinni og vitnaði um það hástöfum á samkomunum.

– Það kom mér hins vegar spánskt fyrir sjónir að kvöld eitt þegar ég kom heim frá því að hafa borðað á veitingastað að óvenju mikið líf virtist vera í runnunum í kringum ráðstefnumiðstöðina. Ég hugsaði með mér að þetta hlyti að vera erfið ráðstefna, fólk hafði svo mikil heimaverkefni að allir yrðu að þræla og púla á kvöldin líka! Það var hins vegar nokkuð ljóst hvað allir voru að gera í runnunum.

Uppgjörið
– Eftir nokkurn tíma á stofnuninni fór ég að verða gagnrýnni á starf þeirra. Ég tók á móti sjúklingum sem höfðu verið til meðferðar í tíu ár en sýndu engin merki um bata. Ennfremur höfðum við María sest að í hverfi samkynhneigðra og hittum þá meðal annars fyrrverandi skjólstæðinga meðferðarstofnunarinnar sem höfðu ófagra sögu að segja af henni. Ég sá einnig að hinir sterku leiðtogar, sem ráku starfið og sögðust vera læknaðir af samkynhneigð sinni, féllu aftur og aftur í freistni og stunduðu kynlíf með kynbræðrum sínum.

Þegar ég ræddi um &tho
rn;etta við þá, sögðu þeir aðeins að þeir væri líka menn sem væru að berjast við hinn illa anda samkynhneigðarinnar og ypptu bara öxlum. Ég varð einnig meira og meira áþreifanlega var við að starfið snerist um að innræta fólki sjálfsblekkingu. Þegar ég spurði spurninga tóku leiðtogarnir þeim sem ógnun. Umhverfið var ótrúlega hómófóbískt. Við María vorum gagnrýnd fyrir það að búa í sama hverfi og samkynhneigðir og einnig fyrir það að vilja ekki „lifa í lækningunni“.

Tíminn leið og gagnrýni mín á starf stofnunarinnar óx stöðugt. Ég sá að sjúklingarnir sem til mín leituðu fengu enga hjálp, heldur urðu eingöngu háðir meðferðarstofnuninni og því umhverfi sem hún skapaði. Það varð engin lækning heldur eingöngu ný „meðferðarfíkn“ sem skapaði fleiri vandamál en hún leysti. Þegar ég lét gagnrýni mína í ljós varð ég óvinsæll meðal yfirmanna stofnunarinnar. Að lokum var mér sagt upp.

Rekinn – og út úr skápnum
– Það var í rauninni léttir, mér leið ekki vel í vinnuumhverfi sem byggðist á einræði leiðtogans. Samvisku minnar vegna gat ég heldur ekki réttlætt þær hókus-pókus-aðferðir sem við notuðum og voru eingöngu til þess fallnar að notfæra sér viðkvæmar manneskjur málstaðnum og stofnuninni til framdráttar. Ég var líka farinn að efast um að mín eigin „lækning" væri eins varanleg og ég hafði haldið.

Efi Ulfs um að hann hefði „læknast“ af kynhneigð sinni varð að vissu. Það var engum blöðum um það að fletta – hann var hommi! Þetta varð honum mikið áfall. Hann hafði litið svo á að hjónaband hans og fjölskyldulíf væri farsælt þó að kynlíf væri svo til úr sögunni. Sambandið við Maríu og börn þeirra tvö var kjarninn í lífi hans, en nú hótaði sannleikurinn að brjóta niður sjálfan grundvöllinn að þessu lífi.

– Ég hafði sagt Maríu frá samkynhneigð minni í upphafi og alltaf verið heiðarlegur við hana. Við ræddum um þennan vanda minn og ákváðum að tala við forstöðumann safnaðarins þar sem við vorum meðlimir. Sá fundur varð til þess að við María snerum baki við hreyfingunni.

Illir andar og hláturandar
– Þetta var bjánalegt, hreint út sagt. Í stað þess að ræða málin við okkur á vitrænan hátt, tók forstöðumaðurinn fram flöskur með olíum og bjóst til þess að reka út hinn illa anda samkynhneigðarinnar. Við vorum það rútínteruð í þessu að nú dugðu ekki hókus-pókus-aðferðirnar á okkur lengur, við vorum ekki móttækileg. Við fengum hláturskast og fórum skellihlæjandi af fundinum. Að sjálfsögðu túlkaði forstöðumaðurinn það sem svo að andi hlátursins hefði rekið burt illan anda samkynhneigðarinnar og ég væri hér með læknaður af kvillanum!

Slíkar aðferðir eru því miður algengar meðal bókstafstrúarsafnaða, að í stað þess að leita vitrænna lausna er öllu snúið upp á andaheiminn þar sem góðir eða illir andar ákveða lífsstefnu fólks án þess að einstaklingurinn hafi nokkur áhrif þar á.

Ég leitaði til sálfræðings til að vinna úr þeim ógöngum sem ég var kominn í. Þetta leiddi til til margra ára meðferðar en einnig til áhuga á sálfræði, félagsráðgjöf og guðfræði. Að missa Maríu, sem var minn besti vinur, og börnin tvö var í raun það sem ég óttaðist mest. Sálfræðimeðferðin varð því að hluta vinna með það sorgarferli sem skapaðist þegar ég gerði mér grein fyrir að mitt fyrra líf, sem hafði verið mér svo mikilvægt, var reist á fölskum forsendum. Okkur Maríu tókst hins vegar að brjótast í gegnum storminn. Við erum núna góðir vinir þótt við séum skilin og búum nálægt hvort öðru í Stokkhólmi.

Meðferðarstofnanir – ofbeldisstofnanir
Ulf stundaði síðan nám í sálfræði og guðfræði og lauk guðfræðiprófi. Hann vígðist til prests í sænsku þjóðkirkjunni og er starfandi þar. Nýlega var hann kosinn í stjórn RFSL, samtaka lesbía og homma í Svíþjóð, og af því er hann mjög stoltur. En hverjum augum lítur hann í dag þá starfsemi sem hann áður var hluti af og miðaði að því að snúa samkynhneigðum frá kynvillu?

– Meðferðarstarfsemin er hreint ofbeldi. Þeir sem þar vinna hafa enga menntun eða þekkingu á annarri meðferðarstarfsemi en þeirri sem byggist á þeirra eigin reynslu, eins og sést best á því hverjar kringumstæðurnar voru þegar ég hóf störf. Viðkvæmt fólk á erfiðri stundu í lífinu er gert háð umhverfi sem byggist á lygi og veitir enga lausn þrátt fyrir langa meðferð. Þvert á móti líður fólki mun verr eftir hinar svokölluðu meðferðir, þar sem sektarkenndin yfir upplaginu er fest í sessi. Það eru þó nokkur dæmi þess að fólk hafi fyrirfarið sér eftir slíka meðhöndlun, ekki einungis vestan hafs heldur líka á Norðurlöndum.

Meðferðarstofnanirnar segja að ef fólk leysir þær sálarflækjur sem oft fylgja því að verða fullorðinn, svo sem að vinna úr sambandi við foreldra eða takast á við önnur vandamál úr æsku, þá leiði það til þess að viðkomandi öðlist „frelsi“ frá kynhneigð sinni, þ.e. þeirri samkynhneigð sem viðkomandi stofnun telur vera synd. Þessi fullyrðing me&
eth;ferðarstöðvanna er að sjálfsögðu lygi og sá árangur – eða öllu heldur árangursleysi – af þeirri „meðferð“ sem ég var hluti af styður það enn frekar að hér er um sjónhverfingar að ræða.

Guðs gjöf til mín
– Maður losnar aldrei við sjálfan sig. Ég er þeirrar eindregnu skoðunar að samkynhneigð mín sé gjöf guðs til mín og að mér beri að varðveita hana og rækta. Það er ekki á valdi mannanna, hvort sem þeir kalla sig kristna eða ekki, að ganga gegn sköpunarverki guðs.

Ulf vinnur að bók um reynslu sína og það verður áhugavert að sjá afrakstur þeirrar vinnu. Þegar við göngum út á götuna til að smella af nokkrum myndum til að birta með þessari grein, bendir Ulf mér á kirkju þar sem einn prestanna er þátttakandi í starfi hóps í Svíþjóð sem hefur svipaðar skoðanir og samtökin Exodus í Bandaríkjunum – að samkynhneigð sé sjúkdómur og að hana megi „lækna“.

– Það er sorglegt að prestar innan sænsku þjóðkirkjunnar hafi með slíkt ofbeldi að gera, segir Ulf um leið og hann stillir sér upp til myndatöku.

Hann er frjáls úr hlekkjum lyginnar og getur lifað eins og honum er ætlað. Aðrir lenda þó í klóm stofnananna og enn er mikið verk óunnið til þess að koma í veg fyrir hið andlega ofbeldi sem þar viðgengst.

Copyright © Haukur F. Hannesson 2000
Tilvitnun er öllum heimil sé heimildar getið

Leave a Reply