Skip to main content
Uncategorized

Á hann kærasta?

By 1. janúar, 2001No Comments

Um starf með samkynhneigðum nemendum í MA. Rithöfundurinn og myndlistarmaðurinn Þorvaldur Þorsteinsson segir í splunkunýrri bók þar sem hann rifjar upp menntaskólaárin: „Fyrir 20 árum voru hvorki hommar né lesbíur, það var enginn í hjólastól, enginn heyrnarlaus né með hörundslit sem gat talist annað en hæfilegt tilbrigði við hvítt. A.m.k. ekki í Menntaskólanum á Akureyri.” (Minningar úr Menntaskólanum á Akureyri. 2000:474)

Á menntaskólaárum mínum rúmum tíu árum fyrr minnist ég þess varla að samkynhneigð hafi slegið niður í hugann nema ef til vill í einhverju karlrembingstali og hálfkæringi um stráka sem einhvern veginn voru ekki áberandi mikið upp á kvenhöndina. En að einhver nemenda skólans væri í raun og veru samkynhneigður held ég varla að nokkrum hafi dottið í hug. Og þó. Einhverjir munu hafa verið það, vitað það sjálfir en ekki sagt frá því fyrr en löngu síðar. Svo löngu síðar, að ímynda mátti sér í fáfræðinni að menn yrðu ekki samkynhneigðir fyrr en undir þrítugt.

Í aldarfjórðung hafði ég það fyrir stafni við Menntaskólann á Akureyri auk þess að kenna nemendum mínum íslensku að vera félagsmálaráðunautur þeirra og því í talsvert meira sambandi við stóra hópa af ungu fólki en gekk og gerðist með kennara. Ég minnist þess þó ekki að þá hafi nokkru sinni komið upp umræða um að nemandi væri samkynhneigður. Hef frétt af því síðar að einhver hefði orðið fyrir áreitni á heimavist vegna hneigðar sinnar til sama kyns, en skólayfirvöld munu hafa skorist í málið og það komst ekki í hámæli.

Hommi í skólanum mínum!

Tíminn líður og viðhorf mannanna breytast – en kannski ekki mjög hratt. Eftir að samkynhneigð hætti að vera sakhæf og var ekki lengur talin til sjúkdóma leið langur tími uns fólk tók að opinbera þessa hneigð sína fyrr en komið var allt að eða jafnvel yfir þrítugt. Að minnsta kosti gerðist það ekki í Menntaskólanum á Akureyri. En haustið 1998 stígur nemandi einn fram úr fylgsnum, lýsir því opinberlega yfir í hópi skólafélaga að hann sé hommi, hafi alltaf verið það og sé stoltur af því. Þessi fregn fór hratt um skólann og henni var fylgt eftir með viðtali í skólablaðinu. Um svipað leyti heyrðist að ein af stúlkunum í skólanum væri samkynhneigð, það fór ekki hátt fyrr en hún kom fram á kvennakvöldvöku ári síðar og sagði frá lífi sínu og reynslu.
Mál þessara nemenda vöktu eins og auga gefur leið nokkurt umtal í skólanum. Þó var áberandi að umtalið var ekki neikvætt, þetta var samt nýr veruleiki fyrir flestum og fáir þekktu hann nema þá af afspurn. Á 3-4 ára fresti hefur Huginn, skólafélag MA, staðið fyrir fræðslu um samkynhneigð og fengið til þess fulltrúa frá Samtökunum ´78 og jafnan verið mikil áheyrn – en nú var orðið ljóst að í skólanum eru samkynhneigðir nemendur. Krakkar farnir að koma úr felum svona ungir.

Nýr og breyttur tími – ný og breytt hugsun

Mál samkynhneigðra nemenda lentu á minni könnu ári síðar, í mars 2000, þegar góður vinur minn í hópi nemenda, strákur sem var orðinn heimilisvinur og á góðri leið með að festa sig í hópi fósturbarna minna, kom að máli við mig og sagði mér að hann væri samkynhneigður og hefði ákveðið að hætta að leyna því, væri að koma úr felum. Ég óskaði honum til hamingju með þetta stóra skref í lífinu og hét honum því að styðja hann á þeirri óvissu braut sem framundan væri eftir því sem ég mögulega gæti. Samstarf okkar hefur verið mér ótrúlegur skóli, ég hef sagt að sjaldan hafi ég lært jafnmikil lífsvísindi á jafnskömmum tíma.
Þar sem ég vissi nánast ekkert sem máli skipti um samkynhneigð, hafði reyndar ekki mér vitandi áður umgengist homma og lesbíur, varð mér fyrst fyrir að leita mér fróðleiks, hjá kunningjum og vinum, gömlum nemendum og fleirum sem komið hafa úr felum, orðnir fullorðið fólk. Þá hef ég og komist í gott samband við sérfræðinga í málefnum samkynhneigðra og forsvarsmenn samtaka sem um þessi mál fjalla. Smátt og smátt setti ég mig í samband við fleiri nemendur í skólanum sem ýmist voru að koma úr felum eða stóðu á þröskuldinum. Og því fleira sem ég sá og kynntist af málefnum þessa unga fólks þeim mun ljósara varð mér að hér er um að ræða málaflokk sem hefur legið í þagnargildi í framhaldsskólum landsins. Samt er hér um að ræða krakka, sem hljóta að eiga nákvæmlega sama rétt og allir aðrir krakkar og eiga annað skilið en að tilveru þeirra sé mætt með fordómum og neikvæðu viðmóti ellegar afskiptaleysi og þögn, sem ef til vill er litlu skárra.

Sem betur fer hefur ekki verið við að etja fordóma í garð samkynhneigðra unglinga svo heitið geti hér í Menntaskólanum á Akureyri, sumum er að vísu ekki sama um stund þegar þeir heyra um félaga sinn sem kemur úr felum, og í stórum dráttum sýnist þetta vera svo að þegar strákur á þessum aldri kemur út (strákar gefa sig frekar til kynna en stelpur, þær eiga auðveldara með að dyljast) þá verður dálítil breyting á félagahópnum. Hinir strákarnir fjarlægjast svolítið, a.m.k. í einhvern tíma, eins og þeir vilji undir niðri ekki liggja undir því orði að þeir séu svona l&iacute
;ka, en stelpnavinirnir verða enn nánari en áður. En þögnin er ansi mikil, lítið hefur verið fjallað um samkynhneigð í náminu, nemendur jafnt og kennarar hafa reynt að komast hjá því að ræða um þetta, sumpart af ótta við að segja eitthvað sem gæti komið sér illa eða orðið einhverjum til óþæginda. Rétt er þó að taka fram að í námsgreininni lífsleikni er nú meðal annars fjallað um samkynhneigð í 1. bekk MA og með því ætti að verða auðsóttara en ella að fjalla um málið í hópi nemenda. En alltof fáir vita hvað samkynhneigð er.

Skóli setur sér stefnu í málum samkynhneigðra

Af ofanrituðum sökum setti ég mér það mark að reyna að koma samkynhneigðum nemendum mínum til einhverrar aðstoðar, styðja þá ef ég gæti og reyna að koma því til leiðar að skólinn gæti orðið þeim góður griðastaður. Ég gerði fátt án þess að þessir vinir mínir vissu af því, en vorið 2000 kom ég að máli við nokkra nemendur og fáeina kennara, sem tóku hugmyndum mínum vel og hvöttu mig til að halda áfram og það gerði námsráðgjafi líka. Ég ræddi málin við aðstoðarstjórnendur skólans og þeir voru mjög jákvæðir í garð þessa máls, óttuðust þó um hag minn og orðspor ef ég færi ekki varlega og lenti í klóm kjaftakerlinga. Ég fór síðan í sumar leið á fund skólameistara sem tók máli mínu ákaflega hlýlega og með þakklæti fyrir að sýna þessum nemendum umhyggju. Hann sagði að stefna skólans og sín væri einföld: Samkynhneigðir ættu sama rétt og allir aðrir nemendur skólans en ekki nein sérréttindi. Ég sagði að það væri einmitt það sem eftir væri sóst, jafn réttur og ráðgjöf eða aðstoð eftir því sem nauðsynlegt væri í hverju tilfelli.  Haustið 2000 tókum við Alma Oddgeirsdóttir námsráðgjafi málið upp. Síðar, á fundi skólastjórnenda og námsráðgjafa, var stefnan í málum samkynhneigðra nemenda í Menntaskólanum á Akureyri sett:

Mál samkynhneigðra nemenda eru ekki vandamál.

Mál samkynhneigðra nemenda heyra, eins og önnur mál sem teljast til nemendaverndar, undir námsráðgjafa. Námsráðgjafi getur kallað til aðstoð vegna samkynhneigðra nemenda eða vísað þeim á aðstoð eða ráðgjöf svo og foreldrum þeirra og/eða aðstandendum.  Hinn 11. október 2000 boðuðum við Alma til rabbfundar með kennurum þar sem ræða skyldi um mál samkynhneigðra nemenda í skólanum. Helmingur kennara skólans kom á fundinn. Alma gerði í upphafi grein fyrir ýmsu sem varðar mótun sjálfsmyndar unglinga og einkum með hliðsjón af sjálfsmyndarmótun homma og lesbía og fjallaði um ýmis vandamál sem þessum málum geta tengst. Hún vísaði til rannsókna og skýrslna Guðmundar Páls Ásgeirssonar og fleiri um þessi mál. Mestur hluti fundartímans fór í umræður og fyrirspurnir og má í einu lagi segja að allt sem fram fór á fundinum var ákaflega jákvætt í garð samkynhneigðra nemenda skólans. Eftir fundinn hefur talsvert verið um það að kennarar hafa komið að máli við okkur og rætt um einstök mál er varða samkynhneigð eða einstaka nemendur og nokkrir kennarar sem ekki voru á fundinum hafa auk þess komið að máli við okkur.

Fyrst eitt skref, síðan troðinn stígur í átt að hamingjunni

Hópur samkynhneigðra nemenda í MA fer vaxandi. Þeirra mál er að þeim sé vel tekið í skólanum, þeir verði mjög varir við stuðning hjá flestum nemendum og kennurum og verði ekki fyrir aðkasti eða óþægindum. Slíkt vill þó bera við utan veggja skólans að gerð séu hróp að þeim ef þeir sjást leiðast á ferð sinni um bæinn. Eins hefur borið við að þessir unglingar verði fyrir áreitni fullorðinna karlmanna í bænum, svo margt er að varast í heimi sem ekki er sérstaklega stór.

Ég hef tekið að mér í tilraunaskyni að vera tilsjónarmaður, ráðgjafi og talsmaður samkynhneigðra nemenda við MA og einhverjir utan skólans eða úr öðrum skólum á svæðinu slæðast í hópinn með krökkunum mínum og það er gott. Þá hef ég einnig boðið fram þá aðstoð að foreldrar og aðstandendur hafi samband við mig. Þeir eru oft og iðulega meiri hjálpar þurfi en krakkarnir sjálfir. En unglingarnir skipta auðvitað mestu máli. Þetta er þeirra líf. Við stefnum að því að rækta samband og efla kynni þessara krakka sem eiga eitt og sama hagsmunamál: að lifa góðu og hamingjusömu lífi. Við ætlum ekki að stofna formlegt félag eða klúbb en hins vegar vilja krakkarnir hittast af og til, halda tölvusambandi á póstlista og fá að spjalla við fólk sem býr yfir reynslu, líkt og á rabbfundi í nóvember 2000 með Þorvaldi Kristinssyni, formanni Samtakanna ´78, og einnig Guðmundi Páli Ásgeirssyni, höfundi bókarinnar Með hnút í maganum. Eins er mikill áhugi hjá krökkunum að hjálpa þeim sem eru að feta sig í átt að þröskuldinum sem þau eru sjálf komin yfir, deila reynslu sinni með öðrum. Til dæmis með því að bjóða ungu fólki á svæðinu í tilraunaskyni að varpa fram fyrirspurnum og komast í samband á netfanginu gayakureyri@yahoo.com og gefa í framhaldi af því kost á spjalli í síma. Svo er IRKið notað og kemur sér vel fyrir þá sem kunna með það að fara – en það þarf að kunna.

Ef til vill má segja að mál samkynhneigðra nemenda í Menntaskólanum á Akurey
ri séu eitt af fjölmörgum þróunarverkefnum í skólanum. Við erum enn á byrjunarreit og ég vona að okkur takist að hnika taflmönnunum svo til að við vinnum skákina. Ég veit það tekur tíma, en barátta homma og lesbía fyrir tilverurétti sínum verður aldrei leifturstríð heldur hefst þetta allt saman hægt og bítandi.

Höfundur er íslenskukennari við MA og ritstjóri Vefs MA

Copyright © Sverrir Páll Erlendsson 2001
Tilvitnun er öllum heimil sé heimildar getið

Leave a Reply