Skip to main content
search
Uncategorized

Að koma út á vinnustað

By 1. janúar, 2005No Comments

Mánudagsmorgunn, allir í kaffi, ég set upp grímuna og læt sparibrosið fylgja á meðan vinnufélagarnir skiptast á sögum helgarinnar. Ég hlusta þolinmóð og bíð eftir „rétta“ tækifærinu til að segja þeim frá því að ég hafi hitt konu síðastliðið föstudagskvöld. Tækifærið kemur bara ekki og kaffihléið er á enda. Ég verð að snúa mér aftur að vinnunni – vonsvikin. Árshátíðin er á næsta leiti og mig langar til að bjóða ástinni minni með, en hvernig?

Að deila lífi þínu með samstarfsfólki og taka þátt í samræðum á vinnustað er oft lykillinn að góðum vinnudegi og vellíðan í starfi. Sögur af makanum, fjölskyldunni, börnum, vinum, kunningjum, hvernig þú verð frítíma þínum og hvort þú ert að slá þér upp, eru fastir liðir eins og venjulega, en fyrir okkur lesbíur, homma og tvíkynhneigða eru málin ekki alltaf svona einföld. Viðmót samstarfsfólks og andrúmsloft á vinnustað getur skipt sköpum og jafnvel stýrt því hversu hreinskilin við erum í vinnunni um einkalíf okkar og fjölskyldu, og hvort við treystum okkur yfirleitt til þess að vera fullkomlega opinská og taka þátt í „óritskoðuðum“ samræðum. Sú ákvörðun að „koma út“ er auðvitað undir hinum samkynhneigða starfsmanni sjálfum komið, en það er ýmislegt sem þú samstarfsfélagi góður, verkstjóri, trúnaðarmaður, starfsmannastjóri eða yfirmanneskja, getur gert til þess að auðvelda þetta ferli og stuðla þannig að betra vinnuumhverfi fyrir alla og aukinni ánægju í starfi.

Starfsmannastefna

Til að stuðla að vellíðan og þokkalegu sjálfsöryggi lesbía, homma og tvíkynhneigðra á vinnustað er fyrsta skrefið það að semja starfsmannastefnu þar sem m.a. er fjallað um sama rétt og möguleika allra starfsmanna án tillits til kynhneigðar, fylgja henni eftir og skapa vinnumenningu þar sem borin er virðing fyrir því hversu ólík við erum, sem einstaklingar og starfsfólk. Tilvist slíkrar stefnu gefur ekki aðeins til kynna að á vinnustaðnum ríki skilningur á því að fólk kunni ýmist að hneigjast til einstaklinga af sama kyni, gagnstæðu kyni eða báðum. Hún er jafnframt ótvíræð yfirlýsing um það að mismunun á grundvelli kynhneigðar verði ekki liðin. Fjölbreytileikanum er hampað og fyrirheit gefið um það að allir skuli fá að njóta sín í starfi – án tillits til kynhneigðar.
Næsta skref felst í því að tryggja að öll hlunnindi fyrir starfsfólk og aðstandendur þeirra standi samkynhneigðum og tvíkynhneigðum sömuleiðis til boða. Hér er ekki bara átt við formleg réttindi kjarasamninga eins og veikindaorlof, mæðra- eða feðraorlof, heldur líka óformlegan rétt eins og þátttöku í árshátíðum, ferðalögum og öðrum skemmtunum eða afsláttarkjör fyrir starfsmann og fjölskyldu hans, til dæmis í verslunum og líkamsræktarstöðvum. Við ráðningu nýs starfsfólks er mjög mikilvægt að gera því strax grein fyrir að hlunnindi standi öllum til boða óháð kynhneigð, að viðkomandi finni fljótlega að á vinnustaðnum ríki bæði opið hugarfar og að ekki sé gengið út frá því sem vísu að allt starfsfólk sé gagnkynhneigt. Tilkynningar um skemmtanahöld, fréttir af samstarfsfólki og annað sem er á döfinni geta auðveldlega endurspeglað þessar áherslur.

Gott viðmót mikilvægt

Séu ofangreind atriði til staðar eru mun meiri líkur á að samkynhneigðu og tvíkynhneigðu starfsfólki líði vel í vinnunni, að það finni til öryggis og skynji að gert sé ráð fyrir því á vinnustaðnum. Svo má ekki gleyma því að viðmót samstarfsfólks, jákvætt og opið hugarfar ásamt skilningi á ólíkum lífsstíl, getur stuðlað að enn farsælla samstarfi og aðstoðað lesbíur, homma og tvíkynhneigða við að gefa kynhneigð sína skýrt til kynna á vinnustað. Á stærstu vinnustöðum má líka hugsa sér að ganga feti framar og hvetja yfirmenn og starfsmannastjóra til að hafa forgöngu um að koma á fót stuðnings- og umræðuhópum fyrir samkynhneigt og tvíkynhneigt starfsfólk, þar sem það hittist reglulega og ræðir málefni sem snerta það sérstaklega. Þetta hafa nokkur stórfyrirtæki í Bretlandi gert með góðum árangri til þess að stuðla að aukinni vellíðan fólks á vinnustað.
„Að koma út“ eða „koma úr felum“ er ferli sem tekur í raun engan enda í samskiptum fólks á vinnumarkaði, því að starfsmannahópurinn breytist, nýir yfirmenn taka til starfa, viðskiptavinir koma og fara og vinnustaðir flytja um set. Því þarf samkynhneigt starfsfólk stöðugt að minna á sig, telji það skipta máli fyrir vellíðan sína á vinnustað að kynhneigðin sé ekkert launungarmál.

Vanhugsuð orð valda sársauka

Skýr starfsmannastefna sem tekur á mismunun vegna kynhneigðar, svo og formleg og óformleg viðurkenning á tilvist homma, lesbía og tvíkynhneigðra á vinnustað dugar hins vegar ekki alltaf til að koma í veg fyrir að fólk verði fyrir áreitni og fordómum af hálfu samstarfsfólks. Oft er hugsunarleysi einu um að kenna en viðkomandi starfsmaður þarf að finna að hann sé tekinn alvarlega og gera þarf gerandanum grein fyrir að áreitni af þessu tagi sé ekki liðin. Öll fræðsla er af hinu góða og hjálpar fólki oft við að átta sig á að vanhugsuð orð geta valdið öðrum miklum sársauka, fáfræði getur valdið djúpum sárum sem erfitt er a&eth
; græða. Gott og samstillt starfsfólk er dýrmætasti auður hvers vinnustaðar, ekki bara hinn gagnkynhneigði meirihluti, heldur líka það fjölhæfa samkynhneigða og tvíkynhneigða fólk sem einnig er að finna á flestum vinnustöðum. Þegar grannt er að gáð verður margbreytileiki mannanna til að skapa fjölbreytt tækifæri og spennandi vinnuumhverfi!

Grein þessi birtist upphaflega í VR-blaðinu,
1. tbl. 27. árg, janúar 2005

Copyright © Anna Einarsdóttir 2005
Tilvitnun er öllum heimil sé heimildar getið

Leave a Reply