Skip to main content
AðalfundurFundargerðir

Aðalfundargerð 2023

By 10. mars, 2023mars 13th, 2023No Comments

Aðalfundur Samtakanna ’78 2023
Iðnó í Reykjavík, 10. mars 2023

Álfur Birkir Bjarnason formaður setur fund kl. 17:09. Gengið er til áður auglýstrar dagskrár.

Skipan fundarstjóra og fundarritara

Fólk boðið velkomið. Lagt er til að Snærós Sindradóttir fjölmiðlakona verði skipuð fundarstjóri fundarins og Gísli Garðarsson dómritari verði skipaður fundarritari. Tillögurnar eru samþykktar með lófataki. Fundarstýra tekur nú við fundarstjórn.

Lögmæti aðalfundar staðfest

Tilkynnt var um aðalfund með sérsíðu á vef samtakanna og hún sérstaklega kynnt á samfélagsmiðlum þriðjudaginn 10. janúar sl. kl. 11:25. Þá var tilkynning send til allra félaga með skráð póstfang fimmtudaginn 12. janúar sl. kl. 10:43.
Formleg boðun var send með tölvupósti til allra félaga með skráð netfang miðvikudaginn 22. febrúar sl. kl. 13:04. Bréfpóstur var svo sendur til félaga án skráðs netfangs fimmtudaginn 23. febrúar sl. kl. 10:05 með póstlagningu á pósthúsinu í Síðumúla í Reykjavík.
Dagsetning aðalfundar er í mars sbr. 1. mgr. 3. gr. laga félagsins og fundinn sækja bersýnilega fleiri en 15 manns, sbr. 7. mgr. sömu gr.
Aðalfundur skoðast því löglega boðaður og þar með lögmætur. Ekki berast andmæli úr sal.

Ársskýrsla fyrra starfsárs kynnt

Ársskýrsla stjórnar hefur áður verið gerð opinber á aðalfundarvef Samtakanna ’78 á vefsíðu félagsins. Fundarstýra býður formann upp í pontu og kynnir hann skýrsluna (fskj. 1). Fundarstýra opnar fyrir umræður um ársskýrslu. Enginn óskar eftir að taka til máls undir þessum lið.

Áritaðir reikningar síðasta árs kynntir

Fundarstýra býður Mars M. Proppé gjaldkera Samtakanna ’78 upp í pontu og kynnir hán ársreikninga stjórnar (fskj. 2). Enginn óskar eftir að taka til máls undir þessum lið. Eru þá ársreikningar bornir upp til samþykktar. Eru þeir samþykktir með öllum greiddum atkvæðum og að því loknu er gjaldkera þakkað fyrir.

Fjárhagsáætlun ársins lögð fram

Gjaldkeri kynnir fjárhagsáætlun stjórnar fyrir almanaksárið 2023 (fskj. 3). Fundarstýra opnar fyrir umræður um fjárhagsáætlun. Spurt er hvað falli undir sérstök verkefni í áætluninni og gerir Daníel E. Arnarsson framkvæmdastjóri félagsins grein fyrir því. Hilmar Hildar Magnúsar óskar eftir skýringum á aukningu í launum og launatengdum gjöldum og gerir framkvæmdastjóri grein fyrir því að það ráðist helst af aukningu í starfsmannafjölda. Sömuleiðis spyr Hilmar um aukningu undir liðnum húsnæðiskostnaði. Upplýst er að auk almenns viðhalds sé nú leigt skrifstofurými á Suðurgötu 8 í Reykjavík undir ráðgjafarþjónustu félagsins.

Laga- og stefnuskrárbreytingar

Nokkrar lagabreytingatillögur liggja fyrir fundinum en engin stefnuskrárbreyting. Fyrirliggjandi lagabreytingartillögur eru kynntar af formanni (fskj. 4). Formaður leggur til að tillögur verði kynntar og ræddar hver af annarri og afgreiddar samhliða að því loknu. Sætir það ekki andmælum.

Lagabreytingatillaga 1, sem felur í sér breytingar á gr. 3.6 og 3.7, er kynnt. Spurt er hvort hægt verði að kjósa með hefðbundnum hætti ef kjörnefnd ákvæði að hafa kosningar rafrænt. Alexandra Briem formaður kjörnefndir útskýrir að tryggt sé að allir á félagatali geti kosið, eftir atvikum með aðstoð kjörnefndar. Rætt er um hvort verklagsreglur skv. breytingartillögunni geti tryggt þetta. Lögð er fram viðbótartillaga við lagabreytingatillögu 1 um að í lok nýrrar greinar 3.7 bætist klausan „Kjörnefnd ber þó að tryggja að allt félagsfólk geti nýtt atkvæðarétt sinn.“ Formaður gerir viðbótartillöguna að sinni. Lagabreytingatillaga 1 er borin upp til atkvæða svo breytt og er samþykkt með öllum greiddum atkvæðum.

Lagabreytingatillaga 2, sem felur í sér breytingar á gr. 3.3 auk viðbótargreinar 3.5, er kynnt. Spurt er hvort breytingin myndi koma í veg fyrir að fólk geti boðið sig fram á aðalfundi. Því er til að svara að svo sé, enda fæli annað í sér ójafnt atkvæðavægi til handa félögum sem nýta sér utankjörfundaratkvæðagreiðslu. Jafnframt er aðspurt bent á að breytingartillagan geri ráð fyrir að hægt sé að skila inn varaframboðum. Tillagan er borin upp til atkvæða og samþykkt með þorra greiddra atkvæða gegn einu.

Lagabreytingatillaga 3, sem felur í sér breytingar á gr. 5.3 og 5.4, er kynnt. Spurt er hvort rétt sé að gera ráð fyrir varaoddvita í félagaráði meðfram nýju embætti oddvita skv. tillögunni. Útskýrt er að í raun sé með tillögunni gert ráð fyrir að varaformannsembætti í félagaráði verði lagt niður enda hafi ekki verið kosið til þess í raun innan ráðsins. Tillagan er borin upp til atkvæða og samþykkt með öllum greiddum atkvæðum.

Lagabreytingatillaga 4, sem felur í sér breytingar á gr. 5.6, er kynnt. Spurt er hvort tillagan myndi fela í sér að félagaráð gæti farið fram á of tíða fundi með stjórn til að þvæla störf stjórnar. Talið er að ekki sé hætta á því í framkvæmd. Jafnframt er bent á úr sal að þetta hafi í raun alltaf verið hægt innan núverandi regluverks en ekki verið beitt. Þá sé mikilvæg réttarbót að hagsmunaráð geti krafist funda með stjórn. Tillagan er borin upp til atkvæða og samþykkt með öllum greiddum atkvæðum.
Lagabreytingatillaga 5, sem felur í sér breytingar á gr. 4.1 og 4.3, er kynnt. Enginn óskar eftir að taka til máls um þessa tillögu. Tillagan er borin upp til atkvæða og samþykkt með öllum greiddum atkvæðum.

Lagabreytingatillaga 6, sem felur í sér breytingar á gr. 4.2, 4.4 og 4.8, er kynnt. Enginn óskar eftir að taka til máls um þessa tillögu. Fyrsti hluti tillögu er borinn upp til atkvæða og samþykktur með öllum greiddum atkvæðum. Annar hluti tillögu er borinn upp til atkvæða og samþykktur með sjónarmun. Þriðji hluti tillögu er borinn upp til atkvæða og samþykktur með öllum greiddum atkvæðum.
Lagabreytingatillaga 7, sem felur í sér breytingar á gr. 5.2 og 5.5, er kynnt. Enginn óskar eftir að taka til máls um þessa tillögu. Fyrri hluti tillögu er borinn upp til atkvæða og samþykktur með sjónarmun. Síðari hluti tillögu er borinn upp og samþykktur samhljóða.

Fundarstýra felur kjörnefnd stjórn fundarins kl. 18:06. Kjörnefnd skipa Alexandra Briem formaður, Hilmar Hildar Magnúsar og Derek T. Allen. Formaður kjörnefndar stýrir nú fundinum.

Kjör til formanns

Einn er í framboði til formanns: Álfur Birkir Bjarnason. Eru honum veittar 2 mínútur í ræðustól til að kynna sig. Að því loknu hefst rafræn kosning. Gert er hlé á aðalfundi meðan á kosningu og atkvæðatalningu stendur. Aðalfundur er settur aftur og niðurstöður kosningarinnar kynntar.
Greidd voru 145 atkvæði. Skiptust þau svo:
Álfur Birkir Bjarnason: 138 atkvæði
Auðir og ógildir seðlar: 7 atkvæði

Álfur Birkir Bjarnason er nú lýstur réttkjörinn formaður Samtakanna ’78.

Kjör til stjórnar

Fimm eru í framboði til stjórnar: Hrönn Svansdóttir, Jóhannes Þór Skúlason, Kitty Anderson, Kristmundur Pétursson og Þórhildur Elínardóttir Magnúsdóttir. Hverju um sig eru veittar 2 mínútur í ræðustól til að kynna sig. Að því loknu hefst rafræn kosning um þrjú sæti í stjórn félagsins. Gert er hlé á aðalfundi meðan á kosningu og atkvæðatalningu stendur. Aðalfundur er settur aftur og niðurstöður kosningarinnar kynntar.

Atkvæðu greiddu 148 manns og greiddu samtals 416 atkvæði. Skiptust þau svo:
Hrönn Svansdóttir: 73 atkvæði
Jóhannes Þór Skúlason: 89 atkvæði
Kitty Anderson: 73 atkvæði
Kristmundur Pétursson: 90 atkvæði
Þórhildur Elínardóttir Magnúsdóttir: 91 atkvæði
Auðir og ógildir seðlar: 1 atkvæði

Þórhildur Elínardóttir Magnúsdóttir, Kristmundur Pétursson og Jóhannes Þór Skúlason eru nú lýst réttkjörin í stjórn Samtakanna ’78.

Kosning í félagaráð

Gert er hlé á aðalfundi til að gefa félögum kost á að bjóða sig fram til félagaráðs, sbr. fskj. 5. Að því loknu er fundur settur aftur og eru ellefu í framboði til félagaráðs: Alex Diljar Birkisbur Hellsing, Björgvin Ægir Elisson, Cody Alexander Skahan, Erlingur Sigvaldason, Guðrún Úlfarsdóttir, Hrönn Svansdóttir, Madeleine Boucher, María Logn Kristínardóttir Ólafsdóttir, Móberg Ordal, Ragnar Pálsson og Rósa Guðný Arnarsdóttir. Hefst þá rafræn kosning. Gert er aftur hlé á aðalfundi meðan á kosningu og atkvæðatalningu stendur. Aðalfundur er settur á ný og niðurstöður kosningarinnar kynntar.

Greidd voru samtals 200 atkvæði. Skiptust þau svo:
Alex Diljar Birkisbur Hellsing: 22 atkvæði
Björgvin Ægir Elisson: 22 atkvæði
Cody Alexander Skahan: 7 atkvæði
Erlingur Sigvaldason: 15 atkvæði
Guðrún Úlfarsdóttir: 22 atkvæði
Hrönn Svansdóttir: 31 atkvæði
Madeleine Boucher: 4 atkvæði
María Logn Kristínardóttir Ólafsdóttir: 15 atkvæði
Móberg Ordal: 29 atkvæði
Ragnar Pálsson: 22 atkvæði
Rósa Guðný Arnarsdóttir: 11 atkvæði
Auðir og ógildir seðlar: Engir

Nú eru Erlingur Sigvaldason og María Logn Kristínardóttir Ólafsdóttir jöfn í sjöunda sæti og er varpað hlutkesti til að ákveða hvort þeirra hlýtur kjör. Kastað er upp tíu króna mynt og kemur upp hlið Erlings Sigvaldasonar.
Hrönn Svansdóttir, Móberg Ordal, Alex Diljar Birkisbur Hellsing, Björgvin Ægir Elisson, Guðrún Úlfarsdóttir, Ragnar Pálsson og Erlingur Sigvaldason eru nú lýst réttkjörin í félagaráð Samtakanna ’78.

Kjör skoðunarmanna reikninga

Kjörnefnd hefur lagt til að kjörin verði sem skoðunarmenn reikninga Svanhildur Hólm Valsdóttir og Bjarni Þóroddsson. Er tillagan borin upp til atkvæða og [samþykkt með lófataki]. Eru framangreind nú lýst réttkjörnir skoðunarmenn reikninga.

Afgreiðsla umsókna um hagsmunaaðild

Ekkert félag hefur sótt um að gerast hagsmunaaðili.

Kjörnefnd felur fundarstýru stjórn fundarins að nýju kl. 19:20.

Önnur mál

Félagsfólki er nú boðið að taka til máls um önnur mál. Mælendaskrá er opnuð og er ræðutími 2 mínútur.
Formaður og varaformaður þakka fráfarandi stjórnarmeðlimunum Agnesi Jónasdóttur og Ólafi Alex Kúld fyrir sín störf á vettvangi stjórnar.
Framkvæmdastjóri þakkar fyrir fundinn og minnir á landsþingið um helgina en upplýsir að því miður forfallist táknmálstúlkar á viðburðum morgundagsins. Óskað er eftir því að fundargestir láti skrifstofuna vita ef þau þekki til einhvers sem geti gengið til verksins.
Formaður kjörnefndar þakkar táknmálstúlkum sem túlkuðu fundinn í dag fyrir störfin.
Formaður leggur til að fundurinn feli lagabreytinganefnd að halda áfram störfum á komanda starfsári til að vinna að því að gera lög félagsins kynhlutlaus. Tillagan er samþykkt með lófataki.
Fundarstýra slítur fundi kl. 19:25. Aðalfundargerð þessa ritaði Gísli Garðarsson.