Skip to main content
AðalfundurFundargerðir

Aðalfundargerð 2024

By 8. mars, 2024mars 21st, 2024No Comments

Aðalfundur Samtakanna ’78
Iðnó í Reykjavík, 8. mars 2024

Aðalfundur er settur kl. 17:04 af Álfi Birki Bjarnasyni fráfarandi formanni með stuttri ræðu. Formaður kynnir jafnframt fyrirkomulag aðalfundar.

1. Skipan fundarstjóra og fundarritara

Formaður tilnefnir Baldur Þórhallsson sem fundarstjóra og Gísla Garðarsson sem fundarritara.
Formaður ber tilnefningarnar upp til samþykktar. Tilnefningarnar eru samþykktar með lófataki.

2. Lögmæti aðalfundar staðfest

Fundarstjóri kynnir skilyrði fyrir lögmæti aðalfundar og hvernig þau hafi verið uppfyllt við skipulagningu fundarins. Ekki koma fram athugasemdir við lögmæti aðalfundar.

3. Ársskýrsla fyrra starfsárs

Formaður kynnir ársskýrslu fyrra starfsárs á fskj. nr. 1 og biður framkvæmdastjóra að kynna hana frekar. Framkvæmdastjóri reifar stuttlega efni skýrslunnar og gerir frekari grein fyrir því sem þar fram kemur.

Fundarstjóri opnar fyrir spurningar og umræður um ársskýrslu.
Framkvæmdastjóri svarar almennri spurningu úr sal er varðar samband ársskýrslunnar og fjárveitinga hins opinbera.

4. Áritaðir reikningar fyrra árs kynntir

Fundarstjóri býður Jóhannesi Þór Skúlasyni gjaldkera upp í pontu til að kynna ársreikninga á fskj. nr. 2. Gjaldkeri reifar ársreikninga stuttlega.

Fundarstjóri opnar fyrir spurningar og umræður um ársreikninga.
Spurt er út í aukinn kostnað við Regnbogavini á síðasta ári. Gjaldkeri svarar því til að kostnaður sé færður á milli ára auk þess sem umfang verksins hafi aukist verulega á milli ára.

Spurt er hví umsýsla Regnbogavina sé kostnaðarfrek. Gjaldkeri svarar því til að vinnutímar utan um markaðssetningu og tekjuöflun séu umtalsverðir en um sé að ræða kynningarkostnað til að koma verkefninu á framfæri við almenning.

Ársreikningar eru bornir upp til samþykktar. Ársreikningar eru samþykktir án mótatkvæða.

5. Fjárhagsáætlun ársins lögð fram

Fundarstjóri býður gjaldkera upp í pontu til að kynna fjárhagsáætlun næsta árs á fskj. nr. 3. Gjaldkeri reifar fjárhagsáætlun stuttlega og að svo búnu er opnað fyrir umræður um hana.

Spurt er út í misræmi milli ársreikninga og fjárhagsáætlunar í kostnaði við ráðgjafarþjónustu. Gjaldkeri upplýsir að mikill aukalegur kostnaður hafi fallið til vegna aðsóknar en gert sé ráð fyrir að kostnaður minnki milli ára. Framkvæmdastjóri upplýsir að þarna sé um ráðgjafa í verktöku að ræða á ársreikningi en yfirmaður ráðgjafar sé fastur starfsmaður og kostnaður við hann flokkist undir laun og launatengd gjöld.

Gjaldkeri og framkvæmdastjóri svara spurningu um yfirdrátt á ársreikningi. Upplýst er að búið sé að greiða upp yfirdrátt nú þegar. Fundargestur tekur fram að hún telji yfirdráttarlán hafa verið ákjósanlegri kost en að þurfa að hverfa frá verkefnum sem hann stóð straum af.

Spurt er um fjármögnun Tjarnarinnar. Framkvæmdastjóri upplýsir að Reykjavíkurborg fjármagni nú verkefnið beint í stað þess að það renni um samtökin fyrst en að starfsemin sé óbreytt.

6. Laga- og stefnuskrárbreytingar

Engar tillögur um stefnuskrárbreytingar liggja fyrir fundinum.

Fjórar lagabreytingatillögur liggja fyrir fundinum, sbr. fskj. nr. 4.

Lagabreytingatillaga 1
Lagabreytingatillaga 1 er kynnt. Afgreiðslu hennar er frestað meðan lagabreytingatillaga 2 er afgreidd enda varðar hún sama lagaákvæði en gengur lengra.

Lagabreytingatillaga 2
Lagabreytingatillaga 2 er kynnt. Opnað er fyrir umræður um tillöguna.

Óskar fundarmaður eftir rökstuðningi frá tillöguhöfundi. Bergrún Andradóttir skrifstofustjóri kveðst ekki vera tillöguhöfundur sjálf en útskýrir að tillagan sé til einföldunar, enda séu hópar innan samtakanna margir og upptalning einstakra hópa geti verið útilokandi. Ræða fundargestir um kosti og galla tillögunnar.

Að loknum umræðum er tillagan borin upp til atkvæða. Tillagan er samþykkt án mótatkvæða.

Áréttað er sérstaklega af hálfu fundarins að tillagan sé samþykkt með vísan til fyrirliggjandi rökstuðnings með tillögunni: Til Samtakanna ’78 leitar fólk með mun fjölbreyttari kynhneigðir eða kynvitundar heldur en upptalið er. Eins heita Samtökin ’78 lagalega Samtökin ’78 – Félag hinsegin fólks og ætti því að nægja að segja hinsegin fólk án upptalningar á einstökum breytum innan þess hugtaks. Aukinheldur er mikilvægt að draga ekki fram ákveðna hópa fram yfir aðra þar sem við eigum öll erindi og rödd innan Samtakanna ’78.

Með samþykkt tillögunnar fellur lagabreytingatillaga 1 niður enda hefur tillaga sem gengur lengra verið samþykkt.

Lagabreytingatillaga 3
Lagabreytingatillaga 3 er kynnt. Opnað er fyrir umræður um tillöguna.

Eftir umræður gera tillöguhöfundar tillögu úr sal að sinni og hljómar lagabreytingartillaga 3 svo breytt svona:

5.9 Ungmennaráðið er starfrækt hvert skólaár undir handleiðslu starfsfólks ungmennastarfs Samtakanna ’78 og samstarfsaðila. Fulltrúar eru kosnir á sameiginlegum vettvangi ungmennastarfsins ár hvert. Ungmennaráð skipar áheyrnarfulltrúa í stjórn Samtakanna ’78.

Tillagan svo breytt er borin upp til atkvæða. Tillagan er samþykkt án mótatkvæða.

Lagabreytingatillaga 4
Lagabreytingatillaga 4 er kynnt. Framkvæmdastjóri útskýrir tilgang tillögunnar sem svo að skilgreina þurfi nánar með hvaða hætti skuli boða til fundarins.

Spurt er hvort auglýsing í útvarpi sé nútímaleg leið til fundarboðunar. Því er svarað til að útvarpsauglýsingar nái til ákveðins hóps sem bréfpóstur hafi hingað til náð til en sé kostnaðarsamari og mikið um endursendingar bréfa.

Framkvæmdastjóri áréttar aðspurður að ákvæðið þýði að gera skuli allt sem tilgreint er í ákvæðinu en ekki velja eitt af tilgreindu.

Tillagan er borin upp til atkvæða. Tillagan er samþykkt með þorra greiddra atkvæða gegn einu mótatkvæði.

Að lokinni afgreiðslu lagabreytingartillagna felur fundarstjóri stjórn fundarins til fulltrúa kjörnefndar, Hilmars Hildar Magnúsar og Alexöndru Briem, sem kynna í kjölfarið framkvæmd kosninga og berast ekki andmæli við því.

7. Kjör til stjórnar

Fjögur framboð bárust til stjórnar félagsins: Hrönn Svansdóttir,  Sveinn Kjartansson og Vera Illugadóttir til tveggja ára og Hannes Sasi Pálsson til eins árs. Eru þeim veittar tvær mínútur hverju til að kynna sig. Gera þau svo utan Hannesar, sem staddur er erlendis. Að svo búnu eru þau sjálfkjörin með lófataki.

8. Kjör til formanns

Eitt framboð barst til embættis formanns: Bjarndís Helga Tómasdóttir. Eru henni veittar tvær mínútur til kynningar. Að svo búnu er hún sjálfkjörin formaður félagsins með lófataki.

9. Kosning í félagaráð

Fjögur framboð bárust til fimm fulltrúa félagaráðs: Guðrún Úlfarsdóttir, Móberg Ordal Orra, Ragnar Pálsson og Saga Emelía Sigurðardóttir og teljast þau sjálfkjörin í félagaráð.

Fulltrúar kjörnefndar leita afbrigða til þess að veita fundarmönnum kost á að bjóða sig til fram til fimmta embættisins og að valið verði milli framboða með því að varpa hlutkesti. Sætir það ekki andmælum. Hrafn Hafdísar Páls og Sigríður Ösp Elínardóttir Arnardóttir bjóða sig fram.

Varpað er hlutkesti og telst Sigríður Ösp Elínardóttir Arnardóttir réttkjörin í félagaráð ásamt framangreindum fjórum fulltrúum.

10. Kjör skoðunarmanna reikninga

Tvö framboð bárust til tveggja skoðunarmanna reikninga: Bjarni Þóroddsson og Svanhildur Holm Valsdóttir. Teljast þau sjálfkjörin skoðunarmenn reikninga.

11. Afgreiðsla umsókna um hagsmunaaðild

Eitt félag hefur sótt um hagsmunaaðild að Samtökunum ’78: Hinseginfélag Þingeyinga. Er umsókn þeirra borin upp til atkvæða. Er umsóknin samþykkt með öllum greiddum atkvæðum.
Að loknum kosningum fela fulltrúar kjörnefndar fundarstjóra stjórn fundarins að nýju.

12. Önnur mál

Fundarstjóri opnar mælendaskrá.

Þóknun fyrir formannsstörf
Fráfarandi formaður félagsins leggur til að mánaðarleg hámarksþóknun fyrir störf formanns verði 100.000 krónur.

Rætt er um tillöguna. Lagt er til úr sal að upphæð þóknunar verði 150.000 krónur. Breytingartillagan er borin upp til atkvæða. Breytingartillagan er samþykkt með meginþorra atkvæða gegn tveimur mótatkvæðum.

Tillaga um þóknun fyrir formannsstörf er borin upp til atkvæða svo breytt. Er tillagan svo breytt samþykkt án mótatkvæða.

Óskað er eftir því úr sal að bókað verði í fundargerð að tekið verði til skoðunar hvort rétt sé að tengja þóknun hlutfallslega við sambærilegar þóknanir frekar en að krónufjárhæð sé ákveðin sérstaklega á aðalfundi.

Kveðjur
Fráfarandi formaður og nýkjörinn formaður þakka fráfarandi stjórnarmönnum og starfsmönnum fyrir vel unnin störf. Eru viðstöddum veittir blómvendir sem þakklætisvottar. Nýir starfsmenn samtakanna eru kynntir fyrir fundarmönnum.

Aðalfundi er slitið kl. 18:48 með ræðu nýkjörins formanns.

Fundargerð ritar Gísli Garðarsson.