Skip to main content
search

Aðalfundur Samtakanna ’78 var haldinn í Norræna húsinu fyrr í dag. Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands og verndari Samtakanna, setti fundinn við hátíðlega athöfn. Á fundinum voru hefðbundin störf rædd t.d. fjármál félagsins, ársskýrsla stjórnar, lagabreytingar og fleira en um helgina hafa Samtökin staðið fyrir þremur málþingum og fjölda skemmtiviðburða í tilefni fundarins.

Þorbjörg Þorvaldsdóttir var endurkjörin formaður með öllum greiddum atkvæðum. Í stjórn voru kjörin þau Andrean Sigurgeirsson, Bjarndís Helga Tómasdóttir, Edda Sigurðardóttir og Unnsteinn Jóhannsson, fyrir í stjórn voru þær Marion Lerner og Rósanna Andrésdóttir. Mun stjórn skipta með sér verkum síðar.

Í trúnaðarráð voru kjörin þau Agnes Jónasdóttir, Anna Eir Guðfinnudóttir, Ástrós Erla Benediktsdóttir, Elísabet Rakel Sigurðardóttir, Eyþór Óli Borgþórsson, Jódís Skúladóttir, Kristín Ástríður Ásgeirsdóttir, Ragnar Pálsson, Sigtýr Ægir Kárason og Steinar Svan Birgisson. Skoðunarmenn reikninga voru endurkjörnir þeir Sigurjón Guðmundsson og Vilhjálmur Ingi Vilhjálmsson.

Einnig var samþykkt að gera Hinsegin Austurland og Bangsafélagið að hagsmunafélögum Samtakanna ’78.

Formaður Samtakanna ’78 sagði m.a. við lok fundarins:

Í dag er alþjóðlegur baráttudagur kvenna. Mér finnst fallegt að við skulum halda aðalfund Samtakanna 78 á þessum degi, þótt það hafi nú vissulega verið tilviljun, enda er það gömul saga og ný að réttindi kvenna og réttindi hinsegin fólks haldast í hendur. Báðar fylkingar gagnrýna og samfélagsleg viðmið kynjakerfisins, þessi ósýnilegu bönd sem halda okkur öllum niðri. Hinsegin fólk ögrar kynjakerfinu með því einu að vera til. Þegar stjórnvöld í sumum löndum snúast gegn feministum og kynjafræði og kjósa að hampa „hefðbundnum gildum“, þá snúast þau einnig gegn hinsegin fólki. En þrátt fyrir þessa staðreynd – þá hefur hluti feministahreyfinga í öðrum löndum – og jafnvel hluti hinsegin hreyfingarinnar – snúið baki við trans systkinum sínum.

Við munum aldrei leyfa því að gerast hér. Í Samtökunum ‘78 stöndum við öll saman, þvert á kynhneigð, kynvitund, kyneinkenni, kyntjáningu og kynslóðir. Samtökin 78 standa líka með öðrum félögum sem vinna að mannréttindum fólks. Mannréttindi eins mega aldrei koma á kostnað annars. Það er mín einlæga sannfæring að Samtökin 78 eigi alltaf að vera samtök sem skilja engan eftir.

Á fundinum voru mörg málefni rædd og bar hæst ályktun sem fundurinn samþykkti en hún hljóðar svo:

Í ár telja Samtökin ‘78 sérstaka ástæðu til þess að vekja athygli á stöðu hinsegin barna og ungmenna í íslensku samfélagi.

Intersex börn hafa enn ekki hlotið vernd gegn þeim mannréttindabrotum sem ónauðsynleg og óafturkræf inngrip í líkama þeirra eru. Nefnd á vegum forsætisráðuneytisins, sem stofnuð var á grundvelli bráðabirgðaákvæðis laga um kynrænt sjálfræði, á innan skamms að skila drögum að nýrri löggjöf sem veitir þessum hópi loksins lagalega vernd. Við treystum því að nefndin vinni hratt og vel, því núverandi ástand er óboðlegt. 

Hinsegin börn á flótta eru einn allra viðkvæmasti hópur sem fyrirfinnst og alveg ljóst að íslensk stjórnvöld verða að vinna þeirra mál sérstaklega vel. Nýlega kom inn á borð til Samtakanna ‘78 afar þungt mál sem varðar hinsegin barn á flótta. Málið hafði ekki verið fullrannsakað með hagi barnsins í fyrirrúmi og varpar ljósi á brotalöm innan kerfisins. Við skorum á stjórnvöld að vanda til verka og setja mannúð og mannvirðingu í fyrsta sæti í öllum hælismálum, sama hvern þau varða.

Nú í byrjun janúar var trans teymi BUGL lagt niður vegna fjárskorts og er það með öllu óásættanlegt. Staða trans barna er sérstaklega viðkvæm. Það að trans börn njóti viðurkenningar og fái sérfræðiþjónustu eru lykilþættir til að vinna gegn vanlíðan þeirra, draga úr sjálfskaða og sjálfsvígshættu. Stjórnvöld þurfa að sýna að þeim er alvara með þeim lögum sem þau setja og bregðast tafarlaust við þessu ástandi.

Stjórn og starfsfólk Samtakanna ’78 vill þakka öllum félögum og öðrum gestum innilega fyrir komuna.

Leave a Reply