Skip to main content
AðalfundurFundargerðir

Aðalfundargerð 2022

By 6. mars, 2022mars 13th, 2023No Comments

Þorbjörg Þorvaldsdóttir formaður setur fund kl. 13:20. Gengið er til áður auglýstrar dagskrár.

1. Skipan fundarstjóra og fundarritara

Fólk er boðið velkomið. Lagt er til að Hanna Katrín Friðriksson þingkona verði skipuð fundarstjóri fundarins og Gísli Garðarsson dómritari verði skipaður fundarritari. Tillagan er samþykkt með lófataki.

2. Lögmæti aðalfundar staðfest

Tilkynnt var um aðalfund í tölvupósti til allra félaga, ásamt auglýsingu á vefsíðu og Facebook-síðu, 8. janúar 2022. Til fundarins var boðað skriflega til allra félaga með skráð tölvupóstfang þann 14. febrúar kl. 15:51. Allir félagar sem ekki voru með skráð tölvupóstfang fengu bréfpóst. Hann var póstlagður frá pósthúsinu á Hóteli Sögu miðvikudaginn 9. febrúar kl. 16:20.

Á aukafélagsfundi 26 .nóvember 2021 var þriggja manna kjörnefnd kjörin af félagsfólki. Þau settu sér verklagsreglur og hafa haldið utan um allt sem viðkemur kosningum. Lýst var eftir framboðum 8. janúar 2022.

Öll fyrirliggjandi framboð birtust á vef Samtakanna ’78 kl. 20:24 sunnudaginn 20. febrúar sl. Einnig birtust þar allar lagabreytingatillögur.

Kjörgengi fundarmanna var athugað við upphaf fundar. Utankjörfundaratkvæði hafa borist kjörnefnd, þ.m.t. rafræn utankjörfundaratkvæði. Fundarstjóri óskar eftir því að aðalfundur staðfesti lögmæti rafrænna utankjörfundaratkvæða sérstaklega og að skorað sé á næstu stjórn að vinna að lagabreytingum til að taka af allan vafa um lögmæti rafrænna utankjörfundaratkvæða. Óskin er samþykkt með sýnilegum meirihluta atkvæða.

Ásgeir Ásgeirsson spyr af hverju framboðsfrestur til stjórnar hafi verið framlengdur af kjörnefnd. Alexandra Briem fulltrúi kjörnefndar svarar að ekki hafi nógu mörg framboð borist í félagaráð að mati kjörstjórnar og að heimild til að framlengja framboðsfrest sé að finna í lögum. Daníel E. Arnarson framkvæmdastjóri upplýsir að heimasíða hafi legið niðri í nokkrar klukkustundir og hafi það spilað inn í ákvarðanatökuna.

3. Ársskýrsla fyrra starfsárs

Formaður kynnir Ársskýrslu Samtakanna ’78 2021-2022. Skýrslan liggur frammi með öðrum fundargögnum, þ.m.t. opinberlega rafrænt.
Formaður tilkynnir að hún hyggist ekki gefa kost á sér til áframhaldandi stjórnarstarfa. Opnar hún að svo búnu á spurningar úr sal. Engar spurningar berast.

4. Áritaðir reikningar fyrra árs kynntir

Edda Sigurðardóttir gjaldkeri kynnir ársreikning félagsins 2021. Ársreikningurinn liggur frammi með öðrum fundargögnum, þ.m.t. opinberlega rafrænt.
Því er svarað af framkvæmdastjóra eftir spurningar úr sal að til hafi komið sérstök fjárframlög frá forsætisráðuneytinu á starfsárinu en sambærilegri beiðni hafi verið hafnað af Reykjavíkurborg.

Ársreikningurinn er borinn upp til samþykktar. Ársreikningurinn er samþykktur með sýnilegum meirihluta atkvæða.

5. Fjárhagsáætlun ársins lögð fram

Gjaldkeri kynnir fjárhagsáætlun félagsins fyrir árið 2022. Hún liggur frammi með öðrum fundargögnum, þ.m.t. opinberlega rafrænt. Formaður spyr hví 800.000 kr. séu lagðar til fyrir Regnbogasal. Því er svarað af framkvæmdastjóra og gjaldkera að tímabært sé að gera upp rýmið.

6. Laga- og stefnuskrárbreytingar

Tvær lagabreytingatillögur liggja fyrir fundinum með öðrum fundargögnum, þ.m.t. opinberlega rafrænt.

Lagabreytingatillaga 1, sem felur í sér að fella úr gr. 7.4 orðin í nóvember en setja þess í stað að hausti, er kynnt og borin upp til atkvæða. Tillagan er samþykkt með sýnilegum meirihluta atkvæða.

Lagabreytingatillaga 2, sem felur í sér að fella úr gr. 3.2 orðin Í nóvember en setja þess í stað Að hausti, er kynnt og borin upp til atkvæða. Tillagan er samþykkt með sýnilegum meirihluta atkvæða.

Fundarstjóri felur kjörnefnd stjórn fundarins kl. 13:50. Kjörnefnd skipa Hafdís Erla formaður, Alexandra Briem og Hilmar Hildar Magnúsar.

7. Kjör til formanns

Tvö eru í framboði til formanns Samtakanna ’78: Arna Magnea Danks og Álfur Birkir Bjarnason. Hvoru um sig eru veittar fimm mínútur í ræðustól til að kynna framboð sín. Að svo búnu er gengið til formannskosninga. Gert er hlé á aðalfundi meðan á þeim og talningu atkvæða stendur.
Aðalfundur er settur aftur og niðurstöður formannskosninga kynntar.

Greidd voru í heildina 126 atkvæði. Atkvæði skiptust svo:
Arna Magnea Danks: 19 atkvæði
Álfur Birkir Bjarnason: 106 atkvæði
Auðir og ógildir seðlar: 1 atkvæði

Álfur Birkir Bjarnason er nú lýstur réttkjörinn formaður Samtakanna ’78.

8. Kjör til stjórnar

Fimm eru í framboði til stjórnar Samtakanna ’78: Anna Íris Pétursdóttir, Ásgeir Ásgeirsson, Bjarndís Helga Tómasdóttir, Mars M. Proppé og Vera Illugadóttir. Hverju um sig er veittur skammur tími í ræðustól til að kynna framboð sitt. Að svo búnu er gengið til kosninga um þrjú sæti í stjórn félagsins. Gert er hlé á aðalafundi meðan á þeim og talningu atkvæða stendur.
Aðalfundur er settur aftur og niðurstöður stjórnarkosninga kynntar.

Greidd voru í heildina 125 atkvæði. Atkvæði skiptust svo:
Anna Íris Pétursdóttir: 41 atkvæði
Ásgeir Ásgeirsson: 17 atkvæði
Bjarndís Helga Tómasdóttir: 103 atkvæði
Mars M. Proppé: 91 atkvæði
Vera Illugadóttir: 101 atkvæði

Bjarndís Helga Tómasdóttir, Mars M. Proppé og Vera Illugadóttir eru nú lýst réttkjörin í stjórn Samtakanna ’78.

9. Kjör í félagaráð

Átta eru í framboði til félagaráðs Samtakanna ’78: Derek Terell Allen, Hrefna Ósk Maríudóttir, Jessica Leigh Andrésdóttir, Móberg Ordal, Ragnar Pálsson, Sigríður Ösp Elínborgar Arnarsdóttir, Tinna Haraldsdóttir og Þórhildur Sara. Hverju um sig er gefinn skammur tími í ræðustól til að kynna framboð sitt. Að svo búnu er gengið til kosninga um sjö sæti í félagaráði.
Gert er hlé á aðalafundi meðan á þeim og talningu atkvæða stendur.
Aðalfundur er settur aftur og niðurstöður félagaráðskosninga kynntar.

Atkvæði skiptust svo:
Derek Terell Allen: 64 atkvæði
Hrefna Ósk Maríudóttir: 70 atkvæði
Jessica Leigh Andrésdóttir: 64 atkvæði
Móberg Ordal: 37 atkvæði
Ragnar Pálsson: 70 atkvæði
Sigríður Ösp Elínborgar Arnarsdóttir: 69 atkvæði
Tinna Haraldsdóttir: 72 atkvæði
Þórhildur Sara: 62 atkvæði
Derek Terell Allen, Hrefna Ósk Maríudóttir, Jessica Leigh Andrésdóttir, Ragnar Pálsson, Sigríður Ösp Elínborgar Arnarsdóttir, Tinna Haraldsdóttir og Þórhildur Sara eru nú lýst réttkjörin í félagaráð Samtakanna ’78.

10. Kjör skoðunarmanna reikninga

Rósanna Andrésdóttir og Vilhjálmur Vilhjálmsson eru ein í framboði til stöðu tveggja skoðunarmanna reikninga. Eru þau því sjálfkjörin með lófataki.

Fundarstjóri tekur aftur við stjórn fundarins kl. 16:38. 

11. Afgreiðsla umsókna um hagsmunaaðild

Ekkert félag hefur sótt um að gerast hagsmunaaðili.

12. Önnur mál

Félagsfólki er nú boðið að taka til máls um önnur mál.
Sigurgeir Ingi Auðar-Þorkelsson óskar eftir því að stjórn taki til umræðu fyrirkomulag rafrænnar atkvæðagreiðslu við stjórnarkosningar.

Hilmar Hildar Magnúsar tekur undir það og þakkar jafnframt fyrir áhugann á að taka þátt í starfi félagsins.

Óskað hefur verið eftir því að taka fyrir mál frá félagaráði. Móberg Ordal fráfarandi formaður félagaráðs flytur nú erindi fyrir hönd félagaráðs um erfiða stöðu transfólks þegar kemur að viðburðum sem sniðnir eru að tilgreindum kynjum. Óskar fráfarandi félagaráð að þessi ábending verði höfð til hliðsjónar í áframhaldandi starfsemi félagsins.

Orri Páll Jóhannsson tekur undir athugasemdir Hilmars um þátttöku í félagsstarfinu. Gerir hann að umtalsefni að framundan sé umfjöllun á Alþingi um aðgerðaáætlun í málefnum hinsegin fólks og áréttar mikilvægi þess að félagsfólk sendi inn umsagnir við áætlunina.

Alexandra Briem tekur í fyrsta lagi undir áhyggjur annarra af fyrirkomulagi rafrænna kosninga og hvetur félagið til að skoða betur rafrænt kosningakerfi félagsins. Í öðru lagi tekur hún undir erindi félagaráðs um kynjamiðun.

Framkvæmdastjóri óskar bókað að hann þakki starfsfólki Samtakanna ’78 sérstaklega fyrir vinnuframlag þeirra vegna aðalfundar og landsþings samtakanna. Áréttar hann að alltaf sé hægt að senda skrifstofu félagsins erindi um hvaðeina.

Þórhildur Elínardóttir Magnúsdóttir alþjóðafulltrúi óskar nýkjörnum formanni til hamingju með kjörið og þakkar fráfarandi formanni kærlega fyrir unnin störf í þágu félagsins. Óskar hún jafnframt nýkjörnu stjórnarfólki til hamingju á sama tími og hún þakkar fráfarandi stjórnarfólkinu Eddu Sigurðardóttur og Andrean Sigurgeirssyni fyrir unnin störf. Afhendir hún öllum þremur blómvendi auk Silju Ýr S. Leifsdóttur eiginkonu fráfarandi formanns.

Nýkjörinn formaður slítur fund með ræðu kl. 17:06. Aðalfundargerð þessa ritaði Gísli Garðarsson.