Framboð til stjórnar
Segðu okkur frá þér, hver ertu?
Ég heiti Hannes Sasi Pálsson, 46 ára samkynhneigður cis-karlmaður. Ég er einn eigenda hinsegin ferðaþjónustufyrirtækisins Pink Iceland þar sem ég hef unnið sl. 12 ár. Ég ólst uppá Seltjarnarnesi en flutti til Reykjavíkur og hef búið þar síðan ég lauk háskólanámi í London árið 2005. Ég hef verið viðloðandi hinsegin skemmtanalíf og félagsstarf á einn eða annan hátt síðan ég kom út úr skápnum árið 1997. Ég var einn stofnenda Spotlight árið 1998, og meðstofnandi Íþróttafélagsins Styrmis árið 2006. Auk þess hef ég unnið lógó markaðsefni fyrir t.d. skemmtistaðina Barböru, Trúnó og Kiki Queer Bar. Ég tók þátt í að skipuleggja stórt hinsegin alþjóðlegt sundmót hér á landi árið 2012 – auk þáttöku í skipulagningu annarra íþróttaviðburða hér á landi í gegnum Styrmi. Ég var hluti af hóp sem undirbjó og flutti kynningu á Reykjavík sem vænlegum áfangastað fyrir OutGames 2018 þar sem ég lærði mikið. Ég hef tekið þátt í skipulagi og utanumhaldi um hinsegin vetrarhátíðina Rainbow Reykjavík sem haldin var níu sinnum frá 2012-2020 en hefur legið í dvala síðan í Covid. Ég hef mikinn áhuga á hinsegin málefnum almennt og er boðinn og búinn að þjóna því samfélagi sem tók mér opnum örmum þegar ég braust út úr skápnum fyrir rúmum 26 árum.
Fyrri störf og reynsla hjá Samtökunum ’78 og hvaða reynslu munt þú koma með inn í Samtökin ’78
Ég hef unnið ýmis sjálfboðaliðastörf fyrir Samtökin ´78, m.a. komið að skipulagningu viðburða auk þess sem ég hef hjálpað til við grafíska hönnun og annað tilfallandi í gegnum tíðina. Því til viðbótar hef ég orðið nokkra reynslu af fræðslu og fyrirlestrum um hinsegin málefni í ferðaþjónustu og fyrirtækjarekstri vegna þeirra reynslu sem ég hef fengið í starfi mínu hjá Pink Iceland. Almenn reynsla af félagsstörfum, viðburðahaldi, fyrirtækjarekstri, starfsmannahaldi, hönnun og skrifum geta vonandi nýst Samtökunum hljóti ég kjör.
Hvert er mat þitt á stöðu Samtakanna ’78 í dag?
Ég er stoltur af Samtökunum og þeirra gríðarlega öfluga og faglega starfi, sérstaklega á sviði fræðslu og ráðgjafar. Ég hef í raun ekkert út á starf eða stefnu S78 að setja og finnst að þau séu á réttri braut. Fái ég kosningu vonast ég til að verða hluti af stjórn sem heldur áfram á sömu braut og styrkir þær grunnstoðir og þau gildi sem eru nú þegar til staðar.
Hvað leggur þú höfuðáherslu á þegar kemur að starfi Samtakanna ’78?
Ég myndi vilja leggja áherslu á að viðhalda og styrkja enn frekar öflugt fræðslu- og ráðgjafastarf sem að mínu mati eru mikilvægustu hlutverk S78. Auk þess vonast ég til að sjá enn meiri inngildingu og stuðning til handa hópum undir hinsegin regnhlífinni sem enn upplifa sig á jaðrinum. Mér þætti vænt um að sjá meiri blöndun milli þeirra sem hópa og ekki síður kynslóða sem Samtökin þjóna, öllum til hagsbóta.