Framboð til stjórnar
Segðu okkur frá þér, hver ertu?
Ég heiti Vera og er 35 ára hinsegin manneskja fædd og uppalin í Reykjavík. Ég hef starfað við dagskrárgerð og fréttamennsku hjá Ríkisútvarpinu undanfarinn áratug eða svo, og hef síðustu ár haft umsjón með útvarpsþáttunum Í ljósi sögunnar á Rás 1.
Ég bý í miðborg Reykjavíkur með tveimur dekruðum köttum. Ég hef áhuga á sagnfræði, skrítnum dýrum og spurningakeppnum og mér finnst skemmtilegt að hlaupa.
Fyrri störf og reynsla hjá Samtökunum ’78 og hvaða reynslu munt þú koma með inn í Samtökin ’78
Ég hef setið í stjórn Samtakanna ’78 sem ritari frá árinu 2021.
Meðfram hefðbundnum stjórnarstörfum hef ég unnið að margvíslegum verkefnum fyrir Samtökin. Meðal þess sem ég er stoltust af undanfarin tvö ár er að taka þátt í að efla samtal okkar við hinsegin systkini okkar í Grænlandi og Færeyjum. Þar getur íslenskt hinsegin fólk virkilega látið gott af sér leiða með því að miðla okkar reynslu í hagsmunabaráttu.
Á síðustu árum hef ég líka stjórnað ýmsum viðburðum á fundum Samtakanna ‘78, til að mynda samtali kynslóðanna, þar sem ólíkar kynslóðir hinsegin fólks komu saman og ræddu málefni nútíðar, fortíðar og framtíðar. Annars hef ég mikla reynslu af fjölmiðlastörfum, sem fréttamaður og dagskrárgerðarmaður í útvarpi og sjónvarpi, af fyrirlestrarhaldi og fundarstjórnun.
Hvert er mat þitt á stöðu Samtakanna ’78 í dag?
Sem stjórnarmaður hef ég fengið að kynnast því vel á síðustu árum hve gríðarlega öflugt starf Samtakanna ’78 er, starf sem sífellt er verið að styrkja af því góða hugsjónafólki sem finna má innan Samtakanna, stjórnendum og starfsfólki.
Ekki er hægt að líta fram hjá því í dag að sótt er að Samtökunum ’78 og samfélagi hinsegin fólks á Íslandi, úr ýmsum áttum. Samtökin hafa hingað til staðið sig vel í að bregðast við þessu bakslagi, en mjög mikilvægt er að halda þeirri vinnu ótrauð áfram, standa vörð um réttindi okkar og láta ekki deigan síga.
Hvað leggur þú höfuðáherslu á þegar kemur að starfi Samtakanna ’78?
Ég legg áherslu á að stjórn standi vörð um og styrki það mikilvæga starf sem Samtökin ’78 sinna í fræðslu og hagsmunabaráttu, og utanumhaldi um fólkið okkar.
Þá finnst mér mikilvægt að halda áfram vinnu að því að brúa kynslóðabilið sem myndast hefur í samfélagi hinsegin fólks á Íslandi. Yngri kynslóðir hafa gríðarlega margt að læra af eldri kynslóðum, ekki síst nú þegar mótvindar blása. Mikilvægt er sömuleiðis að tryggja stöðu eldri kynslóða. Það er okkur öllum til hags að samtal og samvinna kynslóðanna sé sem mest.
Sem áhugamanneskja um sögu og miðlun hennar, finnst mér afar mikilvægt að halda sögu Samtakanna ’78 og samfélags okkar til haga og tryggja að hún glatist ekki. Svo nálgast fimmtíu ára afmæli Samtakanna óðum og mikilvægt að halda rækilega upp á það! Þann undirbúning þarf að hefja sem allra fyrst, enda býður afmælisárið upp á margvíslega möguleika til að skoða og skrásetja sögu okkar, og hampa henni bæði innan samfélags okkar og út á við.