Skip to main content

Bjarndís Helga Tómasdóttir

Framboð til formanns

Segðu okkur frá þér, hver ertu?

Ég heiti Bjarndís og er 42 ára tvíkynhneigð kona, búsett í Hafnarfirði. Ég á eina sambýliskonu, tvö börn og einn mjög sætan hund. Fyrir þau sem það vilja vita er ég hrútur með rísandi bogmann. Ég er DeWalt-kona, geitur eru sennilega uppáhalds dýrið mitt og ég elska Samtökin ´78 meira en ég elska fyrsta kaffibollann á morgnana.

Fyrri störf og reynsla hjá Samtökunum ’78 og hvaða reynslu munt þú koma með inn í Samtökin ’78

Ég hef verið formaður Samtakanna ’78 síðastliðið ár en þar á undan hef ég setið í stjórn frá árinu 2019, fyrst sem ritari og síðar varaformaður. Áður hafði ég einnig setið í trúnaðarráði, sem nú kallast félagaráð.

Auk hefðbundinna stjórnarstarfa hef ég tekið þátt í ýmsum verkefnum innan Samtakanna. Ég hef komið að skipulagningu félagsfunda, málþinga, landsþings og fjölþjóðlegrar ráðstefnu hinsegin fólks hér á landi, svo eitthvað sé nefnt. Auk þess sem ég hef staðið að ýmsum smærri viðburðum. Ég leiddi einnig verkefnið Ein saga- eitt skref, verkefni sem fólst í söguöflun í formi viðtala við hinsegin fólk um samskipti sín og upplifun af kirkjunni. Verkefnið var mikilvægur áfangi í varðveislu sögu hinsegin samfélagsins. Ég hef einnig tekið þátt í fræðslustarfi Samtakanna og flutt fræðsluerindi um hinseginleikann um land allt.

Það skiptir mig máli að leggja mitt af mörkum til hinsegin samfélagsins. Ég trúi því staðfastlega að framlag hvers einstaklings sé gríðarlega mikilvægt fyrir samfélagið okkar og hagsmunabaráttu okkar. Ekkert okkar getur gert allt en öll getum við gert eitthvað.

Það er fátt sem ég hef jafn mikla ástríðu fyrir og málefni hinsegin fólks, hvort sem er í hagsmunabaráttu, sögulegu samhengi eða í alþjóðasamstarfi.

Hvert er mat þitt á stöðu Samtakanna ’78 í dag?

Samtökin ’78 eru stöndug samtök, með sterka stjórn, faglegt starfsfólk og sjálfboðaliða sem leggja mikið af mörkum til starfsins og samfélagsins. Við höfum eflt þjónustu okkar, styrkt fagmennsku og þekkingu svo eftir er tekið. Ársskýrslur síðustu ára bera það með sér að gróskan er mikil. Síðustu ár hafa Samtökin vaxið gríðarlega og það var svo sannarlega þörf á því. Það þýðir að við erum nú vel í stakk búin til að takast á við þær áskoranir sem blasa við okkur í nýjum veruleika. Hverjar þær áskoranir verða á enn eftir að koma í ljós en við munum mæta þeim með sama styrk og þrautseigju og hefur einkennt Samtökin frá upphafi.

Stuðningur stjórnvalda hefur verið afskaplega mikilvægur félaginu og samfélaginu okkar öllu. Við höfum skapað okkur gott orðspor og mikið traust innan stjórnkerfisins og höfum fundið vel hversu mikilvægt það er fyrir okkur sem sinnum hagsmunagæslu fyrir allt hinsegin fólk. En stuðningur einstaklinga skiptir síst minna máli, einstaklingsframlög Regnbogavina vega þungt til þess að við getum veitt þá þjónustu sem við gerum í dag. Fjárframlögin eru mikilvæg en stuðningurinn sem við finnum frá samfélaginu er ekki í síður mikilvægur og blæs stjórn og starfsfólki þrek í brjóst þegar starfið er þungt.

Samtökin hafa komist á þennan stað vegna samhents átaks fjölmargra einstaklinga í gegnum árin. Sjálf er ég ákaflega stolt af Samtökunum og þakklát fyrir að hafa fengið tækifæri til að taka þátt í þeirri vinnu sem hefur skilað okkur á þann stað sem við erum í dag. Ég vil áfram nýta krafta mína í þá vinnu sem bíður okkar.

Hvað leggur þú höfuðáherslu á þegar kemur að starfi Samtakanna ’78?

Markmið Samtakanna er fyrst og fremst að hinsegin fólk verði sýnilegt og viðurkennt og njóti fyllstu réttinda í íslensku samfélagi. Þessum sýnileika og réttindum þarf að viðhalda og veita bakslaginu viðnám öllu hinsegin fólki til heilla. Þessum markmiðum höfum við alltaf sinnt af festu og heilindum. Samtökin eru líka samfélag og Það er mikilvægt að við ræktum það, bjóðum upp á ýmis konar viðburði, fræðsluerindi um málefni sem snerta hinsegin fólk, stuðningshópa, bókaklúbba og hittinga af ýmsu tagi, svo eitthvað sé nefnt.

En Samtökin ’78 eru ekki bara mikilvæg hér á Íslandi. Árið 2024 komst Ísland í 2. sæti Regnbogakorts ILGA trónir á topp korts TGEU yfir lagaleg réttindi trans fólks í Evrópu og Mið-Asíu. Á meðan það er mikilvægt að við höldum áfram að vinna að hagsmunum hinsegin fólks á Íslandi er einnig mikilvægt að við notum þá sterku rödd sem við höfum í alþjóðlegu samhengi. Það líður ekki sú vika að ekki hafi eitthvert LGBTI félag samband og óski eftir þátttöku okkar í alþjóðlegu samstarfi. Því miður þurfum við of oft að hafna slíku boði þar sem við þurfum að forgangsraða verkefnum mjög vandlega. Nú þurfum við að efla okkur á því sviði og stíga af alvöru inn í alþjóðasamstarf. Ísland hefur lengi verið leiðandi þegar kemur að kvenréttindum en það er ekki síður litið til okkar þegar kemur að réttindum hinsegin fólks. Við erum fremst í flokki og því fylgir líka ábyrgð, sérstaklega nú þegar ítök öfga hægri afla aukast stöðugt.