Skip to main content

Franz Halldór Eydal

Framboð í stjórn

Segðu okkur frá þér, hver ertu?

Góðan daginn. Ég heiti Franz Halldór Eydal, og er að bjóða mig fram þar sem ég tel mig hafa áhugann og reynsluna sem starfið krefst. Um þessar mundir er ég búsettur á Akureyri sem sjálfstætt starfandi hljóðtæknir og einkakokkur. Ég er einnig í námi í landvörslu við framhaldsskólann í Austur-Skaftafellssýslu. Ég hef haft marga hatta á höfði og starfað mikið í félagsstörfum í gegnum tíðina, en í augnablikinu gegni ég formannsembætti í Hin – Hinsegin Norðurlandi. Ég hef gífurlega ástríðu fyrir bókmenntum og tónlist, en áhugamál mín eru einnig m.a. mannkynssaga, bifvélavirkjun, matvælafræði, mannréttindi, sálfræði, æskulýðsstarf, hreyfing og útivera.

Fyrri störf og reynsla hjá Samtökunum ’78 og hvaða reynslu munt þú koma með inn í Samtökin ’78

Ég hef ekki starfað fyrir Samtökin ’78 áður, en er formaður Hin – Hinsegin Norðurland, og kem því með þá færni og reynslu í starfið. Undir minni stjórn hingað til hefur þáttaka á viðburðum aukist, fjölbreytni viðburða aukist, stuðningur við félagið margfaldast og félagið komið sér á sterkan og stöðugan farveg. Ég hef einnig starfað mikið í öðrum félagsstörfum en ég gegndi m.a. stöðu formanns og seinna gjaldkera í nemendafélagi VMA, Þórdunu. Til viðbótar hef ég tekið þátt í ýmsum félögum og gegnt mörgum stöðum. Ég hef talsverða þekkingu á baráttumálefnum hinsegin fólks og tel mig koma sterkan þar inn í Samtökin ’78.

Hvert er mat þitt á stöðu Samtakanna ’78 í dag?

Tilvist Samtakanna ’78 er þarfari en hún hefur verið í langan tíma í pólitíska ástandi heimsins eins og hann er í dag. Fáfræði, grimmd og hatur virðast stundum ríkja í heiminum í dag, en mikilvægt er fyrir samtök á borð við Samtökin ’78 til að vera skjöldur hinsegin fólks jafnt og fræðendur og upplýsendur, því rót haturs verður yfirleitt fáfræði, sem Samtökin ’78 hafa átt langa og stolta sögu af því að bæta úr. Ég er sjálfur sáttur og ánægður með starfið, mín eina athugasemd er að mikilvægt væri fyrir íslensk hinsegin samtök að hafa sterk tengsli út á Landsbyggðina en þar veit ég að ég kæmi sterkt inn. Ég get fullyrt að það að starfa fyrir Samtökin væri stolt og heiður.

Hvað leggur þú höfuðáherslu á þegar kemur að starfi Samtakanna ’78?

Að vekja athygli á tilveru hinsegin fólks og minnka fáfræði um málefni okkar, svo að hægt sé að skapa betra og skilningsríkara samfélag fyrir alla. Einnig er mikilvægt að skapa örugg rými og athæfi fyrir hinsegin aðila til að hitta aðra hinsegin aðila, því sem minnihlutahópur er mikilvægt fyrir hinsegin aðila að geta hist og deilt reynslum og sögum uns við mætum þeim draumi að það sé ekkert „hinsegið“ að vera hinseginn.