Framboð til stjórnar
Segðu okkur frá þér, hver ertu?
Ég er 35 ára, cis lesbía ættuð frá Höfn í Hornafirði. Ég bý í Laugardalnum með unnustu minni og hundinum okkar Lúnu. Ég vinn hjá Íþróttabandalagi Reykjavíkur sem gjaldkeri og verkefnastjóri. Ég er steingeit í sól og tungli sem lýsir mér frekar vel þar sem ég er metnaðarfull, skipulögð og jákvæð í öllu sem ég tek mér fyrir hendur. Ég bjó í Danmörku í 4 ár þar sem ég nældi mér í háskólagráðu í alþjóðlegri sölu – og markaðstjórnun. Fyrir það tók ég þátt í hinsegin skemmtunum og starfaði á Barbara/Kiki sem plötusnúður. Ég flutti aftur til Íslands sumarið 2020 og hef mætt á viðburði Samtakanna ’78 og var í stjórn Veru 2021-2022.
Fyrri störf og reynsla hjá Samtökunum ’78 og hvaða reynslu munt þú koma með inn í Samtökin ’78
Ég hef ekki starfað beint með Samtökunum, en ég stýrði einu sinni jólabingói Samtakanna í Vinabæ og hef mætt reglulega á viðburði Samtakanna síðan árið 2007. Líkt og ég tók fram í fyrri spurningu þá var ég hluti af stjórn Veru, félagi hinsegin kvenna og kvára, en við náðum því miður aðeins að halda 2 viðburði í persónu vegna COVID á því ári sem ég sat í stjórn. Einn af þeim var í húsnæði Samtakanna ’78 á Suðurgötu. Ég var einnig skráð í sjálfboðaliðastarf hjá Samtökunum en ég sóttist eftir því að sjá um tölvustúss og gangaúrvinnslu. Ég starfa núna sem gjaldkeri hjá ÍBR og sækist eftir þeirri stöðu innan stjórnarinnar en ég er með góða reynslu af excel, dk og bókhaldi almennt.
Hvað leggur þú höfuðáherslu á þegar kemur að starfi Samtakanna ’78?
Ég legg höfuðáherslu að öll innan Samtakanna upplifi sig örugg og sem part af hinsegin samfélaginu. Ég man þegar ég var nýkomin út hvað mér leið vel að hitta fólk sem deildi minni reynslu og tilfinningum, en það var á böllum og viðburðum Samtakanna sem mér leið best á þeim tíma. Ég legg líka áherslu á jákvæðni í starfi og að vinna áfram að því að bæta réttindi hinsegin fólks.
Hvert er mat þitt á stöðu Samtakanna ’78 í dag?
Eins og staðan er í dag þá tel ég stöðuna vera betri en hún var t.d. fyrir 6 mánuðum. Mig grunar að eftir lögleiðingu á giftingu hinsegin fólks árið 2010 höfum við mögulega sofnað smá í baráttunni því við vorum komin með fleiri réttindi en við vorum vön að hafa. En núna eftir nýlegt bakslag þá höfum við vaknað aftur og munum koma sterkari saman inn í réttindabaráttuna en áður. Ég held að það sé ótrúlega mikið að gera hjá starfsfólki Samtakanna enda er hlutverk Samtakanna búið að breytast og þróast með samfélaginu.