Aðalfundur Samtakanna ’78 fór fram í húsakynnum Samtakanna að Suðurgötu 3 í gær. Á fundinum lágu fyrir hefðbundin aðalfundarstörf og meðal annars kjör formanns, stjórnar og trúnaðarráðs.
María Helga Guðmundsdóttir var endurkjörin formaður Samtakanna ’78 með öllum greiddum atkvæðum. Kosið var í stjórn Samtakanna til tveggja ára og voru þau Rúnar Þórir Ingólfsson, Unnsteinn Jóhannsson og Þorbjörg Þorvaldsdóttir kjörin. Einnig var kosið til stjórnar til eins árs og hlutu Marion Lerner, Sigurður Júlíus Guðmundsson og Þórhildur Elínardóttir Magnúsdóttir kjör.
Í trúnaðarráð voru tíu einstaklingar kosnir. Jóhann G. Thorarensen, Ragnhildur Sverrisdóttir, Guðný Guðnadóttir, Guðrún Mobus Bernharðs, Einar Þór Jónsson, Ásdís Óladóttir, Bjarndís Helga Tómasdóttir, Brynjar H. Benediktsson, Embla Orradóttir Dofradóttir og Ása Elín Helgadóttir hlutu kjör í trúnaðarráð.
Ásamt kosningu voru ársreikningar samtakanna lagðir fram sem og starfsskýrsla stjórnar, trúnaðarráðs og tengdra félaga. Starfsskýrsluna má nálgast hér, en hún er ítarleg og fer vel yfir starf samtakanna á liðnu starfsári 2017-2018.
María Helga, formaður, flutti ræðu á fundinum:
Þann 9. maí næstkomandi verða 40 ár liðin frá stofnun Samtakanna ’78. Á þessum árum hefur náðst ótrúlegur árangur í baráttu hinsegin fólks fyrir mannréttindum. Í þá daga voru viðhorfin í þjóðfélaginu slík að margir neyddust hreinlega til að flýja land undan ofsóknum. Langt fram á níunda áratug 20. aldarinnar máttu orðin hommi og lesbía ekki heyrast í útsendingum Ríkisútvarpsins. Þá hefði verið erfitt að ímynda sér að fólk myndi leita hingað um alþjóðlega vernd vegna kynhneigðar eða kynvitundar eða að íslensk ríkisstjórn hefði það yfirlýsta markmið að koma Íslandi í fremstu röð í réttindamálum hinsegin fólks, eins og nú er raunin.
Þessar breytingar hefðu aldrei orðið nema vegna þess að kynslóð eftir kynslóð af baráttufólki hefur risið upp, beitt sér gegn fordómum og fáfræði og krafist virðingar, viðurkenningar og réttarbóta. Á liðnu ári horfðum við til upphafsins þegar Guðni Baldursson, fyrsti formaður félagsins og mikill frumkvöðull í réttindabaráttunni, lést 7. júlí. Fráfall Guðna er mikilvæg áminning um nauðsyn þess að rækta tengslin við eldri kynslóðir og að skrásetja og rannsaka söguna. Því er gleðilegt að í ár hafi komið út fyrsta íslenska rannsóknaritið á sviði hinsegin sagnfræði, Svo veistu að þú varst ekki hér.
En um leið og við gleðjumst yfir árangri í baráttunni er margt sem minnir okkur á að halda baráttunni áfram. Líkamsárás á homma í miðborg Reykjavíkur og hatursfull ummæli á samfélagsmiðlum sem leggja hinsegin fræðslu og barnaníð að jöfnu minna okkur á að fordómar og hatur þrífast allt of víða í samfélaginu. Og þótt meðvitund og viðurkenning á trans og intersex fólki fari vaxandi í íslensku samfélagi eru nauðsynlegar réttarbætur fyrir þessa hópa enn ekki í höfn. Sterk hagsmunasamtök leika lykilhlutverk í því að takast á við þessi vandamál.
Fjörutíu árum eftir stofnun þeirra skipta Samtökin ’78 enn gríðarmiklu máli, fyrir félagsfólk, hinsegin fólk og samfélagið allt. Átakasamt árið 2016 líður okkur seint úr minni og við megum aldrei gleyma að huga að samstöðu og samkennd hinsegin fólks. Um leið hefur liðið ár sýnt að félagið okkar nýtur virðingar og trausts í samfélaginu og að við höfum bolmagn til að móta umræðuna, vekja athygli á misrétti og breyta viðhorfum – hvort sem það er með táknrænum gjörningum eða formlegum ráðstefnum.
Á árinu hefur mikil vinna verið lögð í að styrkja innviði félagsins og auka stöðugleika í starfseminni. Hún hvílir nú í traustum höndum framkvæmdastjóra og fræðslustýru auk metnaðarfullra sjálfboðaliða. Mikilvægir þjónustusamningar voru undirritaðir og skipta þeir sköpum við að lágmarka óvissu í rekstri. Sérstakt fagnaðarefni er að í samningnum við Reykjavíkurborg er fjármögnun félagsmiðstöðvar ungliða tryggð til þriggja ára. Þar með er margra ára óvissutímabil í ungliðastarfinu loks á enda.
Mikill fjöldi fólks lagði sitt af mörkum í starfsemi félagsins á þessu ári og við gerð þessarar skýrslu. Þeim vil ég tjá innilegar þakkir. Að lokum vil ég bjóða ykkur öllum í afmæliskaffi á 40 ára afmælisdag Samtakanna ’78, 9. maí 2018, og til afmælishátíðar í Iðnó laugardaginn 23. júní. Ég hlakka til að fagna þessum áfanga með ykkur og horfi bjartsýn fram á veginn. Til hamingju með afmælið!