Skip to main content
AðalfundurFundargerðir

Aðalfundur Samtakanna ´78 9. mars 2013

By 13. mars, 2013mars 6th, 2020No Comments

Aðalfundur Samtakanna ´78 (S78), haldinn að Laugavegi 3, þann 9. mars 2013

Mættir voru 32 félagar í samtökunum.

Guðmundur Helgason (GH), fráfarandi formaður, setti fundinn kl.14:20 og hóf lögbundna dagskrá aðalfundar með kjöri fundarstjóra og fundarritara.

1. Þorvaldur Kristinsson (ÞK) fundarstjóri og Sigurlaug B. Arngrímsdóttir ritari.

2. ÞK tók við fundarstjórn og gekk úr skugga um að fundurinn væri lögmætur.

3. GH kynnti skýrslu stjórnar, nefnda og starfshópa en skýrsla trúnaðarráðs hafði ekki borist en farið var í stuttu máli yfir helstu mál þess.( Sjá fylgiskjal Starfsskýrsla 2012-2013.)
ÞK þakkaði GH fyrir og gaf orðið laust til fyrirspurna um skýrsluna:
• Matthías Matthíasson (MM): sálfræðingar eru að taka við fólki með sömu spurningar og berast til ráðgjafa samtakanna; Hafa ráðgjafar S78 einhverja samvinnu við sálfræðinga eða hafa verið útbúnar einhverskonar „ráðgjafarlínur”? GH svaraði því til að honum væri ekki kunnugt um að til væru neinar leiðbeiningar (guidelines) né að fram hafi farið fræðsla til sálfræðinga.
• MM: Hver er framvindan á ESB-samstarfinu (ESB-tengslanetinu)? Hilmar Magnússon alþjóðafulltrúi S78 (HM) svaraði: Þetta samstarf fær styrki frá ESB sem fara í fundi og samstarf við ILGA. Hópurinn hittist tvisvar á ári en e.t.v. falla styrkirnir niður ef aðild að ESB verður hafnað. S78 hafa átt aðild að ILGA en verið óvirkur aðili. Stefnt er að breytingu þar á í haust þannig að um virka aðild verði að ræða.
• MM: Hver er stefnan varðandi þá félaga sem ekki hafa greitt félagsgjaldið, af hverju er þeim haldið á skrá? Gunnlaugur B. Björnsson (GBB) svaraði: Talsverð umræða hefur verið um þetta mál. Stjórnin prófaði að senda út GIRO-seðla á alla sem eru á skrá og voru heimtur betri en undanfarin ár, þannig að e.t.v. hentar það innheimtuform betur en að senda bara á heimabanka eða greiðsluseðla. Það hefur ekki verið gengið hart fram í að taka fólk af listanum þrátt fyrir að félagsgjöld hafi ekki verið greidd.
• MM: Varðandi orðið „kynvitund” (í upptalningu á mismununarbreytum í jafnræðisreglu nýrrar stjórnarskrár), hversu mikið hefur upptalning á þessum orðum/skilgreiningum gagnast okkur? Mikilvægt að S78 sé meðvitað um það áður en farið er að herja á þingið með að taka inn frekari skilgreiningar. GH svarar: Nefndin sem vann frumvarpið setti þá kröfu að hugtökin séu skilgreind í frumvarpinu og hefur stjórnin stutt það. (sjá nánar í ársskýrlunni).
• Natan Kolbeinsson (NK): Biður um nánari útskýringu á Brjótum ísinn. GH svarar: Hópur kvenna sem vill skapa vettvang fyrir þær konur sem hafa átt erfitt með að taka þátt í félagsstarfi hinsegin fólks af einhverjum ástæðum og hafa þurft hvatningu og stuðning.
• NK: Hefur verið um samstarf að ræða milli jafningjafræðslu S78 og jafningjafræðslu Reykjavíkurborgar? GH: Ekki formlegt samstarf. Árni Grétar Jóhannsson (ÁGJ): Einu sinni á ári hafa S78 veitt „fræðslu til fræðara”.
• Ásta Ósk Hlöðversdóttir (ÁÓH): Athugasemd við töflu yfir viðmælendur hjá ráðgjöfum S78 „konur/transkonur” og „karlar/transkarlar”, þykir það skjóta skökku við. GH: vísar á Sigríði Birnu Valsdóttur (sem var ekki á fundinum) sem vann þann hluta skýrslunnar til að fá útskýringu. Telur þó að þetta sé gert svona til að taka af allan vafa.
• ÁÓH: Starfshópar og aðildarfélög; kemur ekki fram í skýrslunni hvað sé hvað en það skiptir máli hvort um gild hagsmunafélög er að ræða eður ei. GH: tók ábendingunni og staðfesti að Q-félag hinsegin stúdenta, Trans Ísland, íþróttafélagið Styrmir, Hinsegin kórinn og Félag hinsegin foreldra væru hagsmunafélög. Restin af upptalningunni í skýrslunni eru formlegir starfshópar eða nefndir.
• ÁÓH: Starfshópur hinsegin femínista er ekki í upptalningunni. GH: Biðst velvirðingar á að hafa gleymt að nefna þann hóp.
• HM: Vill bæta við svar til MM; Umræða hefur verið um að hatursglæpir eru ekki skráðir sérstaklega hjá lögreglunni. Í næstu Brussel-ferð Evrópuhópsins verður fundarefnið annarsvegar „Flóttamenn” og hins vegar „Þolendur hatursglæpa”. Starfshópurinn er að setja sig betur inní hvernig tekið er á þessum glæpum.
• ÞK ber skýrsluna upp til samþykktar og er hún samþykkt með miklum meirihluta.

4. ÞK gefur GBB orðið til að kynna ársreikninginn og svara fyrirspurnum.
• HM: Biður um skýringu á hvar virði fasteignarinnar sjáist og að skoða þurfi áhrif breytinga á lánum á greiðslubirði. GBB: Sjá bls.4 Fastafjármunir.
• Anna Pála Sverrisdóttir (APS): Spyr um verðmat fasteignasala á eigninni. ÁGJ: Eignin metin á u.þ.b. 55 milljónir.
• ÁÓH: spyr um sjötta lið, Kostnað félagsmiðstöðvar, „annar kostnaður” hvað felist í þeirri tölu. GBB: Skýrist af kaupum á vöru sem ekki fer í endursölu, svo sem skipti á cylinder á skáp, kaup á smáverkfærum og framkvæmdir/viðgerðir.
• NK: Spyr um fimmta lið „Gjafir og styrkir”. GBB: Nefnir sem dæmi styrki til HIV-samtakanna, Drag keppninnar o.fl.
• Vilhjálmur I. Vilhjálmsson (VIV): Óskar nánari skýringar á liðnum „Dansleikir og skemmtanir”. GBB: Einungis var haldið eitt ball en þrjú árið 2011 (sem skýrir lækkun milli ára).
• ÞK ber ársreikninginn upp til samþykktar: Samþykktur einróma.

5. ÞK gefur GBB aftur orðið til að kynna fjárhagsáætlunina og síðan taka við fyrir spurnum.
• MM: Gerir athugasemd við „Fjárlaganefnd alþingis” sem GBB segist hafa áttað sig á eftir að áætlunin var sett fram en þar eigi að standa „Velferðarráðuneytið”.
• HM: Hvernig er áætlað að ráðstafa tekjum umfram gjöld, rúmlega 800þús.?
GBB: Horfir til þess að gott sé fyrir samtökin að hafa handbært fé á reikningi til að geta brugðist við „áföllum”.
ÞK: Þar sem ekki þarf að bera áætlunina upp til samþykktar og ekki komu fleir fyrirspurnir er þessum lið lokið. 

Gert stutt fundarhlé.

6. Ein tillaga að lagabreytingu lá fyrir fundinum og tengdist Mannréttindaviðurkenningu Samtakanna 78 og hljóðaði svo „3.5. Aðalfundur kýs þriggja manna nefnd sem skal sjá um undirbúning og framkvæmd Mannréttindaviðurkenningar Samtakanna ´78 ár hvert. Nefndin starfar eftir reglum félagsins um veitingu viðurkenningarinnar og heyrir undir stjórn félagsins. Heimilt er að bjóða fram til setu í nefndinni fram að kosningu til hennar.” ÞK gaf Sigurði Júlíusi Guðmundssyni (SJG) orðið til að kynna tillöguna. SGJ kynnti niðurstöðu nefndar sem mótaði vinnureglur stjórnar varðandi veitingu viðurkenningarinnar (sjá í Ársskýrslunni) og að sú tillaga sem lægi fyrir kallaði á lagabreytingu. Stjórnin hefur samþykkt að vinna eftir reglunum en taka þarf ákvörðun um hvort skuli skipa eða kjósa í viðurkenningarnefndina. Þess vegna er lagab
reytingartillagan lögð fram.
ÞK gaf orðið laust til fyrirspurna: NK: Þarf ekki að gera bráðabirgðaákvæði um næstu viðurkenningu? SJG: Það þarf ekki. ÁÓH: Ánægð með að stjórnin hafi látið vinna þessar reglur. Mikilvægt að nefndin geti fengið tíma til að vinna undirbúningsvinnu sína vel út frá markmiðum S78. Henni virðist tímaramminn naumur. SJG: svarar því til að um lágmarks tíma sem nefndinni er ætlað að vinna eftir sé að ræða en hægt sé að rýmka það. Íris Ellenberger (ÍE): Mikilvægt að þessi vinna hafi farið fram en hvergi kemur fram hvaða skilyrði þarf að uppfylla til að hljóta viðurkenninguna. Mannréttindi eru stórt mál og spurning hvernig S78 hafa hugsað sér að standa að valinu. Er nóg að viðkomandi hafi sýnt S78 stuðning en hafi um leið brotið á öðrum? SJG: Miðað er við markmið S78 en ekki skilgreint hver lágmarks skilyrði séu og e.t.v. þarf að skoða það frekar. HM: Veltir fyrir sér setningunni „..leggi mat á tilnefningar..” hvað felist í henni, hvort nefndin sorteri og geti hafnað tilnefningum. SJG: Svo er ekki því stjórn og trúnaðarráð hafa úrslitavaldið með kosningu. Hins vegar fer nefndin yfir hvort tilnefning standist markmið S78. APS: Er efins um að nógu skýrt sé kveðið á um hvert hlutverk nefndarinnar sé. Nefndin ætti að ræða tilnefningar mjög vel þegar farið er yfir þær. ÁÓH: tekur undir það sem SJG vísaði til, þ.e. að standist tilnefning ekki markmið S78 beri að vísa henni frá. MM: Fagnar umfjöllun um viðurkenninguna í ljósi þeirrar umræðu sem varð eftir síðustu afhendingu. S78 þurfa að hafa á hreinu hver afstaða þeirra er, þ.e. eru þau almenn mannréttindasamtök eða eiga þau fyrst og fremst að standa vörð um réttindi hinsegin fólks? SJG: Telur reglurnar skýrar og vísa í réttindi hinsegin fólks. NK: Getur stjórnin ekki sjálf breytt þessum vinnureglum? Væri ráð að breyta nafni viðurkenningarinnar í „heiðursverðlaun”. SJG: Já, stjórnin getur lagað reglurnar til sjálf. Hvað varðar nafnið þá eru S78 mannréttindasamtök og því ætti núverandi heiti að teljast eðlilegt. ÍE: Vísar í orð MM um að ef maður virðir mannréttindi þá virðir maður réttindi allra, ekki bara sumra. VIV: E.t.v. þörf á frekari umræðu um þetta málefni. Verkefni næstu stjórnar/trúnaðarráðs ef þörf er á skýrari skilgreiningu eða nafnabreytingu. MM: Vekur athygli á að umræða um mannréttindi hafi ekki alltaf verið skýr og nefnir sem dæmi að áður hafi Amnesty International ekki litið á S78 sem félag sem það ætti samleið með.
Þegar hér er komið kallar ÞK til varafundarstjóra, Svavar G. Jónsson (SGJ), til að geta tekið sjálfur til máls: ÞK hefur efasemdir um lagaákvæðið sem er lagt til. Hann telur betra að stjórn skipi í nefndina. Félagslög hafa það verkefni að tryggja á lýðræðislegan hátt, aðgang/aðkomu almennra félaga að málefnum. Telur þær lagabreytingar sem gerðar voru í fyrra hafi á ýmsan hátt skert lýðræðisleg réttindi og þessi tillaga væri ekki til bóta. Hann styður því ekki tillöguna.
ÞK tekur hér aftur við fundarstjórn.
ÁÓH: Jákvætt að gefa félögum sjálfum vald til að velja í nefndina.
ÞK: lýkur umræðunni þar sem fleiri hafa ekki óskað eftir að tjá sig og gengið er til kosningar um tillöguna: Kjörnefnd sá um kosningu með handauppréttingum og var tillagan felld þar sem hún náði ekki 2/3 hluta atkvæða (16 með en þurfti 18, 11 á móti). Þar með féllu liðir 2 og 3 í tillögunni út.
ÞK: Opnar aftur fyrir umræður að kosningu lokinni: APS: Þótt hún hafi greitt athvæði á móti tillögunni er hún sátt við undirbúningsvinnuna og leggur til að verklaginu verði fylgt og að nefnd verði skipuð. SJG: Leggur til að ný stjórn taki málið upp aftur. ÞK: Þakkar fyrir undirbúningsvinnuna og óskar næstu stjórn velfarnaðar með áframhaldandi vinnu um málefnið.

7. Kjör formanns, varaformanns, ritara og gjaldkera. ÞK kynnir þau sem höfðu boðið sig fram og var eitt framboð í hvert embætti þannig að stjórnin var sjálfkjörin:
• Formaður: Anna Pála Sverrisdóttir
• Varaformaður: Sigurður Júlíus Guðmundsson
• Ritari: Svandís Anna Sigurðardóttir
• Gjaldkeri: Vilhjálmur Ingi Vilhjálmsson

8. Kjör þriggja meðstjórnenda: Fjórir í framboði og hlultu eftirtalin kosningu:
• Fríða Agnarsdóttir
• Guðrún Anna Kristjánsdóttir
• Örn Danival Kristjánsson

9. Kjör tíu félaga í trúnaðarráð. Sjálfkjörið þar sem tíu buðu sig fram:
• Andri Snær Sigríksson
• Arna Arinbjarnardóttir
• Auður Halldórsdóttir
• Auður Magndís
• Birna Hrönn Björnsdóttir
• Brynjólfur Magnússon
• Gunnar Helgi Guðjónsson
• Karítas Hrund Harðardóttir
• Karla Dögg Karlsdóttir
• Sverrir Jónsson.

10. Kjör tveggja skoðunarmanna reikninga: Sjálfkjörnir:
• Dagur Eiríksson Mörk
• Svavar Gunnar Jónsson.

11. Önnur mál:

• MM: Hefur unnið talsvert með S78 í gegnum tíðina og er nú sjálfboðaliði á bókasafninu og í fræðslunefndinni. Hann óskar nýkjörinni stjórn til hamingju og hvetur hana til að nýta þá sem eru fúsir til sjálfboðavinnu. Vísar í orð fráfarandi formanns um hvort S78 hafi nú náð öllum markmiðum sínum eða hvort enn sé þörf fyrir baráttu samtakanna fyrir einhverjum málefnum/réttindum. Það er ekki þannig að við náum fram réttindum og getum svo slakað á. MM veltir fyrir sér hvert sé hlutverk S78 og hvernig þjónar það hlutverki sínu best? Mikil ládeyða t.d. á bókasafninu um þessar mundir. Upplifir ákveðna óvissu um „hver við séum” og hvernig við ætlum að starfa. Leggur til við stjórnina að þetta verði rætt.
• ÁÓH: Hvernig nýtum við húsnæðið? Frábært að sjá hve það hefur færst í aukana að fólk vilji nýta aðstöðuna. Vill að litlu hóparnir verði hvattir til að nota húsnæðið, það sé ekki endilega hlutverk stjórnar að standa fyrir viðburðum heldur geti hóparnir gert það sjálfir hafi þeir aðstöðuna. Hún leggur fram ályktunartillögu: „Ályktun um notkun á húsnæði S78. Húsnæði Samtakanna ´78 skal nýta fyrir félagsstarf hinsegin fólk og því er lagt til að starfshópar Samtakanna ´78 og hagsmunafélög sem hafa aðild að S78 geti nýtt húsnæði S78 endurgjaldslaust” ÞK: opnar fyrir umræður. Andri: Er í Q-félagi hinsegin stúdenta og segir félaga hittast reglulega í Regnbogasalnum og að Q-kvöldin séu öllum opin. APS: Spyr hvort almennt sé verið að greiða fyrir afnot af húsnæðinu? GBB: Þróunin verið sú að hópar leigi salinn eða selji varning af barnum og þá sé notkun húsnæðis endurgjaldslaus. ÁGJ: Þetta á við þá hópa sem eru með reglulega viðburði. Þeim meiri umferð, þeim meiri kostnaður (t.d. þrif o
g viðvera). MM: Gert er ráð fyrir útleigu á sal í fjárhagsáætluninni, mundi þessi tillaga ekki skerða þá tölu? Frosti Jónsson (FJ): Þakkar fráfarandi stjórn og óskar nýkjörinni velfarnaðar. Saknar að ekki er minnst á Bears on Ice í skýrslunni. Óskar leiðréttingar á atriði í skýrslunni er varðar mælingar á notkun á vefsíðu Samtakanna ´78, segir ekki rétt sem þar standi, því mælingar hafi þegar hafist árið 2009 (rétt skuli vera rétt). IE: Er stefnan sú að rukka hagsmunafélögin fyrir notkun á Regnbogasalnum? ÁGJ: Síðasta stjórn setti þá viðmiðunarreglu að leigja skuli salinn um helgar og þá sé gjaldið kr.10 þús.fyrir félagsmenn en kr.25 þús fyrir aðra.. VIV: Leggur til að ályktunin fari til næstu stjórnar þar sem þetta hafi áhrif á fjárhagsstöðu næsta árs. ÁÓH: Eftir þeim upplýsingum sem hún hefur fengið þá er uppistaðan í leigutekjum vegna leigu á herbergi til Pink Iceland, u.þ.b. kr.100þús séu þar fyrir utan sem segi henni að þetta sé ekki það stór liður í fjárhagsáætlun. GBB: Rétt að stærsti liðurinn er Pink Iceland. Stefnan hafi verið að reyna að leigja salinn meira út. Sammála ÁÓH um að aukin traffik sé jákvæð fyrir S’78. Styður að málinu sé vísað til stjórnar. MM: Fagnar umræðunni. Spyr ÁÓH hvort hún viti af einhverjum sem ekki geti nýtt sér húsnæðið v/leigu? Styður að stjórnin taki málið til skoðunar og vinni þannig úr að húsnæðið nýtist öllum frekar en að njörfa niður reglur sem útiloki þá sem hafi ekki ráð að leigu. ÁGJ: Jákvætt að traffíkin sé að aukast en vill hafa skýran ramma um notkun salarins/húsnæðisins. Ef húsnæðið verður opnað frítt án sölu á varningi er það slæmt fyrir fjárhaginn. Auður Emilsdóttir (AE): Ekki endilega aðalfundar að taka þessa ákvörðun. Hún er ekki sátt við að alltaf skuli koma inn í umræðuna, þegar rætt er um notkun á salnum, að ef ekki sé greitt fyrir notkun sé miðað við sölu af barnum. Það sé ekki alltaf þannig að sala á áfengi tengist því sem fram fer. ÁÓH: Svarar spurningu MM. Hefur ekki orðið vör við að reglum hafi verið framfylgt hjá hópum (að þeir hafi verið rukkaðir). Óttast þær hugmyndir að krafan um gjaldtöku fæli fólk frá. Fríða Agnarsdóttir (FA) : Kannast ekki við að hópar séu að greiða fyrir fundaraðstöðu. Annað mál sé útleiga á laugardagskvöldum fyrir samkomur /partý. ÁÓH: Hætti sem formaður Hinsegin kórsins fyrir skömmu. Í hennar stjórnartíð hafi S´78 viljað semja við kórinn um að koma fram á samkomum tengdum S´78 fyrir að fá að nota salinn til kóræfinga. Það kosti kórinn u.þ.b. 60-70 þúsund per uppákomu og það teljist talsverð útgjöld fyrir kórinn.
• VIV: Leggur fram tillögu „Tillaga um notkun / leigu á sal fari fyrir nýkjörna stjórn og þaðan til umræðu til félagsmanna”. ÞK ber tillöguna upp og hún samþykkt.
• HM: Þakkar góðan fund og óskar fráfarandi stjórn til hamingju með gott starf og óskar nýrri velfarnaðar. Hann væntir þess að ný stjórn taki stefnumótunarmál samtakanna til hressilegrar endurskoðunar. Ætti að vera starfandi stefnumótunarhópur og leggur hann áherslu á miklivægi þess að félagsmenn séu virkir í þeirri umræðu. Við þurfum að vera sýnileg því baráttunni sé ekki lokið. Finnur vel í alþjóðlegu samstarfi að Ísland er vel statt hvað varðar réttindi hinsegin fólks en á hinn bóginn séu t.d. lýðheilsumál málefni sem séu langt frá því að vera ásættanleg. Þurfum að efla okkar rödd í almennri umræðu og vera duglegri við að senda frá okkur ályktanir og tilkynningar. Ná út í samfélagið, setja „dagskrána” varðandi okkar mál og halda umræðunni gangandi. Við eigum almennt ágætis aðgang að fjölmiðlum og getum vel látið rödd okkar heyrast ef við viljum. Hef t.a.m. tekið eftir því að fjölmiðlar gera fréttatilkynningum okkar ágæt skil. Þetta sást í fyrra í umfjöllun um ársyfirlit ILGA Europe um stöðu hinsegin fólks. Einnig þegar við sendum út tilkynningu í janúar varðandi tímamótadóm Mannréttindadómstóls Evrópu. Hann gæti haft áhrif á stöðu þjóðkirkjunnar og mismunun hennar gagnvart LGBT fólki hér heima. Fréttatilkynning okkar um dóminn vakti mikla athygli og töluvert umtal um þessa stöðu.
• ÁÓH: Ræðir umhverfisstefnu S´78 og leggur eftirfarandi tillögu fram „Lagt er til að Samtökin ´78 setji sér umhverfisstefnu og vinni samkvæmt henni.” HM: Fagnar þessu framtaki ÁÓH og bendir á „Græn skref” í starfsemi Reykjavíkurborgar. Praktískar leiðbeiningar sem auðvelt sé að fara eftir. GH: Fagnar þessari umræðu og tillögu. Andri: Mjög góð hugmynd sem auðvelt er að útfæra. ÞK: Ber tillöguna upp og hún samþykkt.
• ÞK: Sagði frá því að í félagi við Amnesty International á Íslandi hefði hann kannað möguleika á því að bjóða Kasha Jacqueline Nabagesera, leiðtoga hinsegin fólks í Úganda, til Íslands í apríl. Miklar líkur eru á að Kasha sjái sér fært að þekkjast boðið. Ef af verður, þá hvetur hann til þess að Samtökin ´78 og önnur félög hinsegin fólks hér á landi taki höndum saman um að gera þessa heimsókn að veruleika, með fjárframlögum og kynningarstarfi.
• APS: Nýkjörinn formaður. Þakkar fyrir traustið og hlakkar til að starfa fyrir S´78. Sammála MM varðandi spurninguna um hvar við stöndum og lítur á það mál sem sitt aðalverkefni að takast á við. „Mannréttindi” orðið sem allt starf S´78 eigi að byggja á. Það sem sameinar okkur er að við pössum ekki í staðlaðar ímyndir og S´78 eiga að vera sterk regnhlífarsamtök sem eiga einnig að horfa til heimsins alls. Hvetur til róttækrara mannréttindabaráttu á árinu.

Fleira ekki rætt og slítur ÞK fundi klukkar rúmlega fimm (17:00).

Skráð af Sigurlaugu B. Arngrímsdóttur.

Leave a Reply