Skip to main content
search
Uncategorized

Af „framsóknarhommum…"

By 23. ágúst, 2011No Comments
Ingvi Hrafn Jónsson gerði á mánudag tilraun til þess að gera lítið úr Guðmundi Steingrímssyni alþingismanni vegna frétta af úrsögn þingmannsins úr Framsóknarflokknum.

„Guðmundur Steingrímsson hefur, alveg frá því hann gekk í Framsóknarflokkinn, verið hommi. Framsóknarhommi. Hann er í flokknum, en er ekki framsóknarmaður; hann er krati ef eitthvað er…” sagði Ingvi Hrafn í útvarpsviðtali á Bylgjunni.

Mín fyrstu viðbrögð voru “hvað í ósköpunum á maðurinn eiginlega við?” 

Í mínum huga merkir jú orðið hommi „samkynhneigður maður” og þá hlýtur framsóknarhommi að merkja samkynhneigður framsóknarmaður…?

Eða hvað? Getur verið að Ingvi Hrafn hafi meint eitthvað allt annað með þessum orðum heldur en að lýsa Guðmund Steingrímsson samkynhneigðan?  Er hann að gera lítið úr karlmennsku þingmannsins eins og gagnkynhneigðir bræður okkar vilja oft gera með notkun orðsins?  „Framsóknarhommi. Hann er í flokknum, en er ekki framsóknarmaður…” 

Er hann þá minni maður? Ekki ALVÖRU maður? Þó menn séu ekki pólitískir samherjar þá er ekki þar með sagt að það sé eðlilegt að reyna að níða þá með svona gamaldags orðræðu.

Þeir sem kalla sig homma í dag eru það sem þeir eru, hreinir og beinir með tilfinningar sínar. Þeir hafa lokið þessu ferli að koma útúr skápnum. Er Guðmundur Steingrímsson ekki bara að segja að sem stjórnmálamaður vilji hann fylgja samvisku sinni og vera hreinn og beinn? Þetta á hann þá sameiginlegt með hommum og hreinskilnin gæti aflað honum mikils fylgis enda hefur almenningur kallað eftir meiri heiðarleika í íslensk stjórnmál. 

Orðið hommi þótti upprunalega niðrandi orð sem notað var um samkynhneigða karlmenn, en þeir tóku orðið til sín og nota það kinnroðalaust í dag. Að nota orðið hommi árið 2011 í tilraun til að gera lítið úr öðrum er í besta falli tímaskekkja og sýnir bara á hvílíkum villigötum þessi umræða er. 

Ingvi Hrafn vill kannski útskýra fyrir okkur hvað hann nákvæmlega átti við með þessum orðum? 

Leave a Reply