Skip to main content
search
Uncategorized

Af gjörðum kirkjuþings

By 15. janúar, 2007No Comments

Á kirkjuþingi síðastliðið haust voru lagðar fram tvær ályktanir varðandi fjölskyldustefnu kirkjunnar. ÁST (Áhugahópur samkynhneigðra um trúarlíf) og FAS (Félag foreldra og aðstandenda samkynhneigðra) lögðu fram umsögn við þessar tvær ályktanir. Í fyrsta lagi sneri umsögnin að ályktun um hlutverk fjölskyldunnar þar sem notað var orðalagið „að geta af sér nýja kynslóð“, en með því töldu ÁST og FAS að fósturfjölskyldur væru ekki fullgild fjölskyldueining.

Var lagt til að orðalaginu yrði breytt og notað orðalagið „að ala upp“. Í öðru lagi gerðu FAS og ÁST athugasemdir við einn þátt sem heyrir undir leiðir til að fylgja fjölskyldustefnunni eftir, varðandi samtöl við brúðhjón um hjónaband og fjölskyldulíf og námskeið fyrir fólk í hjónabandi og sambúð. Bent var á að ekki er gerður greinarmunur í lögum á hjónabandi og staðfestri samvist auk þess sem prestar þjóðkirkjunnar hafa blessað staðfesta samvist. Því væri óeðlilegt að bjóða ekki samkynhneigðum til þessa. Í umsögnunum var lagt til að þessu yrði breytt og pörum í staðfestri samvist og í sambúð yrði gert jafnt undir höfði og gagnkynhneigðum.

Jákvæð umræða var um þessar umsagnir og breytingartillögur á þinginu og voru þær samþykktar án athugasemda. Fulltrúar ÁST og FAS kynntu málið fyrir allsherjarnefnd kirkjuþings og voru umræður þar jákvæðar og góðar. Samkynhneigðum pörum er því ekkert að vanbúnaði að njóta þessarar þjónustu kirkjunnar. Á prestastefnu sl. vor voru einnig kynnt drög að áliti kenningarnefndar þjóðkirkjunnar um samkynhneigð og kirkju.
Einnig voru lagðar fram þrjár tillögur að blessunarformum fyrir staðfesta samvist en þær byggja svipuðum blessunarformum frá sænsku kirkjunni og nokkrum kirkjum í Þýskalandi. Einnig kom fram á prestastefnu tillaga fjölda presta um að nota núverandi hjónavígsluritúal fyrir bæði samkynhneigða og gagnkynhneigða. Bent var á að óþarft væri að nota margs konar helgisiðatexta þar sem einungis þyrfti smávægilegar breytingar á núverandi texta til að hægt væri að nota hann hvað sem kynhneigð fólks líður. Bæði ályktun kenningarnefndar svo og blessunarformin munu fara til umræðu innan kirkjunnar um allt land á næstunni. Ráðgert er einnig að efna til umræðufunda í prófastdæmum landsins um samkynhneigð og kirkju. Það er því nokkur hreyfing á þessum málum innan kirkjunnar og verða blessunarformin m.a. tekin til afgreiðslu á kirkjuþingi 2007.

Lesa má um ályktanir kirkjuþings á vef Þjóðkirkjunnar, www.kirkjan.is

Pistill þessi birtist fyrst í Fréttabréfi Samtakanna '78 í janúar 2007

Leave a Reply