Skip to main content
Uncategorized

Af kassablætissamfélagi

By 23. september, 2015No Comments
Æji, þessar bicurious stelpur. Alltaf að slumma vinkonur sínar á djamminu fyrir framan strákana. Þær eru ekkert alvöru lessur. Bara athyglissjúkar. Og tvíkynhneigðir strákar. Sko … eru þeir til? Ég hef aldrei hitt neinn. Þeir eru bara ekki búnir að þora að koma út úr skápnum sem hommar. Þetta er bara svona millibilsástand. Tvíkynhneigðir eru ekki alvöru hinsegin.
 
Þessar neikvæðu staðalmyndir og fleiri fóru vissulega á fleygiferð í höfðinu á mér þegar ég gerði mér grein fyrir því að ég laðaðist að fleiri en einu kyni. Eftir að hafa gert mikið mál úr því að koma út úr skápnum sem lesbía nokkrum árum áður þá fannst mér ég vera að svíkja málstaðinn. Þó ég hafi vissulega átt kærasta á unglingsárum fyrir skápaútkomuna miklu þá var alltaf hægt að afskrifa það með að það hafi ekki verið alvöru, ég hafi sko í rauninni alltaf verið lesbía, ég bara vissi það ekki því mér hafði verið sagt að ég væri gagnkynhneigð frá því ég var ómálga smábarn. Þannig var hægt að halda í einhvern kjarna sem var óbreyttur, hina sönnu mig sem ég þurfti bara að uppgötva. Born this way og allt það. Ætlaði ég núna að hafna því? Breyta aftur? En ég var búin að spila út kassaflakksspjaldinu mínu!
 
Margir halda að tví- og pankynhneigt fólk hafi það ekki jafn slæmt og samkynhneigðir. Þau eru jú vissulega oft í samböndum við fólk af öðru kyni og þ.a.l. er þeirra kynhneigð ekki sjáanleg. Þau ættu því að halda sig til hlés innan hinsegin samfélaga og ekki vera með neitt vesen. Þetta stenst þó ekki alveg raunveruleikatékkið. Rannsóknir sýna að fólk sem laðast að fleiri en einu kyni, sama hvort það kallar sig tvíkynhneigt, pankynhneigt, fjölkynhneigt eða skilgreinir ekki kynhneigð sína sérstaklega, er á margan hátt í sérstökum áhættuflokki þegar það kemur að ýmsum mælanlegum þáttum, svo sem átröskun, þunglyndi, kvíða, sjálfskaða og sjálfsmorðum, með verra heilsufar en bæði gagnkynhneigt og samkynhneigt fólk. Það er vegna þess að samfélagið okkar er svo rosalega duglegt að setja fólk í kassa. Margt hefur breyst í orðræðu undanfarinna ára en enn er mikil pressa að finna sér eitt box og vera þar. Fólk sem hangir á kassabörmum, eins og tví- og pankynhneigt fólk, á miserfitt með að fóta sig innan þessa kassablætissamfélags. Margir upplifa það sí og æ að það sé verið að ýta þeim til hliðar. Tvíkynhneigðar stelpur eða konur eru taldar í alvöru gagnkynhneigðar, þeirra dúllerí með öðrum stelpum eða konum er skilgreint sem fyrir karla (oft kallað “má ég horfa?” eða “hey koddí þrísom”), og tvíkynhneigðir strákar og karlar eru oft séðir sem samkynhneigðir með annan fótinn í skápnum. Yfirheyrslur eiga sér stað: “en hvernig veistu ef þú hefur ekki prófað…? Þú getur ekkert kallað þig tvíkynhneigða/n/t nema þú hafir átt bæði kærustu og kærasta! Ég heyrði að Jón hafi kysst Einar, ég vissi að hann væri hommi.” Tví- eða pankynhneigt kynsegin fólk? Nei hættu nú alveg.
 
Fleira fylgir, eins og staðalmyndir um drusluhegðun. Þessu getur fylgt ýmiskonar áreiti, bæði úr hinu svokallaða meirihlutasamfélagi og líka úr hinsegin samfélaginu. Það er að segja þegar tvíkynhneigð er yfirhöfuð nefnd. Tvíkynhneigð er oft falin og þögguð niður. Það er B í LGBTI en oft er orðræða og fókus hinsegin samfélagsins á samkynhneigða og málefni tví- og pankynhneigðra falla til hliðar. Málið er að tví- og pankynhneigð truflar þessa tvíhyggju sem gegnsýrir kynjakerfissamfélagið sem við búum í og þess vegna reyna sumir eins og þeir geta að láta eins og við séum ekki til eða troða okkur í meðfærilegra box. En þar liggja einmitt tækifæri.
 
Þó einstaklingar beri ekki ábyrgð á því að breyta kynjakerfinu með sínu ástarlífi, þá er ákveðið byltingarafl fólgið í tví- og pankynhneigð, eins og öðrum kynhneigðum og kynvitundum sem hafna tvíhyggju kynjakerfisins. Þá getur verið lærdómsríkt að skoða hvaðan allar þessar neikvæðu staðalmyndir um tví- og pankynhneigð koma og hvaða tilgangi þær þjóna. Þær þjóna allavega ekki tví- og pankynhneigðu fólki. Hugmyndir um að kynhneigð sé eitthvað eitt, hún sé óbreytileg í gegnum lífið, eigi að vera svona en ekki hinsegin, hamla okkur. Hamla okkur frá því að fá að tjá okkar kynverund og stofna til sambanda með því fólki sem hjartað tekur kipp nálægt, hamla okkur frá því að vera við sjálf og fá að lifa laus við áreiti og fordóma.
 
Svo ef að þú hefur tekið þátt í þessu kassatroði þá er núna frábært tækifæri til að hætta því. Hætta að tala um hjónabönd samkynhneigðra heldur frekar hjónabönd fólks af sama kyni. Virða sjálfsskilgreiningar annarra og ekki biðja um útskýringar eða sannanir. Hætta að láta eins og við séum ekki til. Manneskja hættir ekki að vera tvíkynhneigð ef hún er í sambandi með manneskju af öðru kyni, rétt eins og
gagnkynhneigð manneskja hættir ekki að vera gagnkynhneigð þegar hún er einhleyp. Hætta að draga ályktanir um okkur út frá okkar kynhneigð. Hætta að segja okkur að velja. Sum okkar hafa nú þegar valið: við höfum valið að hlusta ekki á svona rugl, heldur finna hamingjuna sama hvar hún leynist.

Greinin er skrifuð í tilefni Alþjóðadags tví- og pankynhneigðs fólks þann 23. september 2015.

Leave a Reply