Skip to main content
Uncategorized

Áfangar í réttindabaráttunni

By 10. apríl, 2015No Comments

1869

 

Fyrstu heildstæðu hegningarlög tóku gildi á Íslandi að fyrirmynd danskra laga. Þar var m.a. lögð refsing við mökum tveggja einstaklinga af sama kyni án tillits til samþykkis þeirra og aldurs. Lagagreinin, §178, tók jafnt til kynmaka tveggja einstaklinga af sama kyni og maka við dýr og hljóðaði svo: „Samræði gegn náttúrulegu eðli varðar betrunarhúsvinnu."

1924

 

Guðmundur Sigurjónsson Hofdal dæmdur af Bæjarþingi Reykjavíkur í 8 mánaða betrunarhúsvinnu fyrir brot á 178. grein hegningarlaganna. Guðmundur, frægur íþróttamaður og glímukappi, sem meðal annars tók þátt í Ólympíuleikunum í London 1908, (þriðji frá vinstri á mynd). Hann játaði fúslega fyrir rétti að hafa átt „holdlegt samræði við aðra karla" síðustu 15–18 ár. Guðmundi var veitt uppreisn æru með konungsbréfi 8. ágúst 1935, fimm árum eftir að hliðstæð ákvæði hegningarlaga voru felld úr gildi í Danmörku.

1940

 

Alþingi samþykkti ný hegningarlög og felldi þar með úr gildi þau ákvæði eldri hegningarlaga þar sem lögð var refsing við mökum tveggja einstaklinga af sama kyni án tillits til aldurs þeirra eða samþykkis. Ísland varð annað Norðurlanda til að afnema refsingar við mökum samkynhneigðra án tillits til aldurs þeirra eða samþykkis.

1940

 
Alþingi samþykkti ný hegningarlög þar sem kveðið var á um samræðisaldur 18 ár fyrir einstaklinga af sama kyni en væri annar eldri var það sakarefni og varðaði allt að þriggja ára fangelsi fyrir þann aðila sem eldri var. Nokkrum sinnum var þessum lögum beitt gegn karlmönnum

1985

 

Þingsályktunartillaga um afnám misréttis gagnvart samkynhneigðu fólki var borin fram á Alþingi dagaði uppi í allsherjarnefnd

1992

 
Þingsályktunartillaga samhljóða þeirri frá 1985 samþykkt nær einróma á Alþingi vorið 1992. Á grundvelli þessarar samþykktar skipaði forsætisráðherra nefnd til að kanna stöðu samkynhneigðra á Íslandisem sendi frá sér ítarlega skýrslu sem síðan myndaði grundvöll þeirrar löggjafarvinnu sem varðaði samkynhneigða á næstu árum.

1992

 

Alþingi samþykkti róttækar breytingar á ákvæðum kaflans um skírlífisbrot í hegningarlögum frá 1940 og nefnist hann nú Kynferðisbrot. Samræðisaldur miðaðist þar með við 14 ár – kynmök einstaklinga, 14 ára og eldri, voru þá með öðrum orðum refsilaus ef þau voru að vilja beggja (aldursmörkin urðu 15 ár árið 2007). Enginn munur var nú lengur gerður á aðilum brots eftir kyni og öll mismunun gagnvart samkynhneigðum varðandi samræðisaldur úr sögunni

1996

 
Alþingi samþykkti lög um staðfesta samvist fólks af sama kyni sem var jafngild hjónabandi gagnkynhneigðra með þeim undantekningum að ættleiðingar voru ekki heimilar né tæknifrjóvganir. Þá var einungis borgaralegum vígslumanni, en ekki kirkjulegum, heimilt að staðfesta samvist fólks af sama kyni. Ísland var fjórða landið í heiminum til að samþykkja slík lög. Íslendingar gengu þó skrefinu lengra í lagasetningu sinni en hin norrænu ríkin þrjú, Noregur, Danmörk og Svíþjóð sem áður höfðu lögleitt staðfesta samvist. Íslensku lögin fólu í sér möguleika á sameiginlegri forsjá barna aðila í staðfestri samvist sem ekki var þá að finna í lögum hinna norrænu ríkjanna.

1996

 

Alþingi breytti greinum í almennum hegningarlögum, sem fjalla um mismunun vegna þjóðernis, litarháttar, kynþáttar, trúarbragða eða kynferðis, og var þá aukið við orðunum „vegna kynhneigðar". Þar með var refsivert að neita fólki um vöru eða þjónustu vegna kynhneigðar þess eða ráðast opinberlega með háði, rógi, smánun eða ógnun á mann eða hóp manna vegna kynhneigðar hans.

2000

 

Alþingi samþykkti breytingar á lögum um staðfesta samvist. Ættleiðing stjúpbarna (stjúpættleiðing) var heimiluð en eftir stóð það ákvæði sem meinaði pari í staðfestri samvist að ættleiða barn sem er báðum óskylt (frumættleiðing). Eftir stóðu þau ákvæði laganna frá 1996 sem meinuðu konum í staðfestri samvist rétt til tæknifrjóvgunar. Réttur útlendinga sem eru búsettir á Íslandi var rýmkaður. Sem fyrr gat einungis borgaralegur vígslumaður, en ekki kirkjulegur, staðfest samvist fólks af sama kyni.

2003–2004

 
2003 var samþykkt einróma á Alþingi þingsályktunartillaga um skipun nefndar sem ætlað var að kanna réttarstöðu samkynhneigðs fólks og gera tillögur um úrbætur. Nefndin starfaði í tæpt ár og sendi frá sér ítarlega skýrslu 2004 sem myndaði grundvöll að frumvarpi árið 2005.

2006

 

Lögum breytt svo fjölskylduréttur yrði jafn að öllu leyti án tillits til kynhneigðar. Frumvarpið veitti samkynhneigðum sama rétt og öðrum þegnum til að skrá óvígða sambúð á Hagstofu, allan sama rétt til ættleiðinga, og lesbíum í staðfestri samvist eða óvígðri sambúð sama rétt og öðrum konum til tæknifrjóvgunar á opinberum sjúkrastofnunum.

2008

 
Alþingi samþykkti breytingar á lögum um staðfesta samvist sem heimilaði prestum eða forstöðumönnum trúfélaga að staðfesta samvist tveggja af sama kyni. Sem fyrr var hægt að staðfesta samvist hjá borgaralegum vígslumanni.

2010

 

Almennum hjúskaparlögum breytt þannig að aðilar hjúskapar eru ekki tilgreindir eftir kyni heldur er talað um tvo einstaklinga í stað karls og konu. Þar með voru lög um staðfesta samvist frá 1996 úr sögunni.

2012

 
Frumvarp til laga um réttarstöðu einstaklinga með kynáttunarvanda varð það að lögum á Alþingi 12. júní 2012. Lögin eru þau fyrstu hér á landi sem varða réttarstöðu transfólks og kveða einkum á um úrbætur sem lúta að stjórnsýslu og málsmeðferð, tilhögun kynleiðréttinga og nafnabreytingar í þjóðskrá.

2014

 

Þingsályktun um skipun nefndar um málefni hinsegin fólks var samþykkt á Alþingi 15. janúar 2014. Nefndin var skipuð 14. apríl 2014 með þátttöku hagsmunaaðila, sérfræðinga og stjórnmálaflokka. Hlutverk nefndarinnar er að gera tillögur að samþættri aðgerðaáætlun um bætta stöðu hinsegin fólks í samfélaginu.

2014

 

Breytingar á hegningarlögum – 29. Janúar 2014 voru samþykktar breytingar á hegningarlögum, en það hafði meðal annars í för með sér að „kynvitund“ var bætt inn í upptalningu sem þýðir að í fyrsta skipti á Íslandi nýtur transfólk einhverskonar refsiverndar á Íslandi.

Samantekt úr grein Þorvaldar Kristinssonar: Misrétti og réttarbætur og viðbót Páll Guðjónsson

Leave a Reply