Skip to main content
search
Uncategorized

Áhrif fræðslu á viðhorf kennara til hinsegin fólks

By 15. september, 2007No Comments

Þó ýmislegt bendi til aukins umburðarlyndis verður hinsegin fólk fyrir aðkasti og fordómum vegna kynhneigðar sinnar hér á landi. Neikvæð viðhorf og fordómar eru í skólum eins og í samfélaginu almennt. Sem dæmi um hvernig þessir fordómar birtast má nefna að orð yfir samkynhneigð eru vinsæl skammaryrði meðal nemenda.

Þó viðhorf kennara hér á landi til hinsegin fólks hafi lítið verið rannsökuð þá gefa nýlegar kannanir því miður vísbendingar um að neikvæð viðhorf séu til  staðar meðal íslenskra grunnskólakennara og endurspegli að miklu leyti ríkjandi viðhorf og fordóma í samfélaginu almennt. Áhrifa gagnkynhneigðarrembu gætir einnig innan grunnskólans en því miður er allt of lítið um að annað en gagnkynhneigð birtist sem eðlilegur hluti af mannlífi fólks í kennslubókum.

Fyrirmyndir unglingum mikilvægar

Hinsegin unglingar líkt og gagnkynhneigðir félagar þeirra þurfa fyrirmyndir. Það er ekki nóg að horfa á vinsæla þætti í sjónvarpi, fyrirmyndir þurfa einnig að koma úr daglegu lífi í skólanum í stað þess að alltaf sé gengið út frá því
að allir séu gagnkynhneigðir. Einangrun vegna skorts á fyrirmyndum getur leitt til þess að samkynhneigðir unglingar hafi neikvæðari viðhorf til skólanna en félagar þeirra og rati því oftar í vandræði. Afleiðingar fordóma geta einnig
verið þær að hinsegin unglingum hætti frekar en gagnkynhneigðum félögum þeirra við félagslegum og heilsufarslegum vandamálum, svo sem þunglyndi, átröskun og áfengis- og fíkniefnamisnotkun. Alvarlegasta hlið þessa máls birtist í því að hinsegin ungmenni eru líklegri en gagnkynhneigðir unglingar til þess að reyna að stytta sér aldur.

Umburðarlyndi, virðing og samábyrgð

Í Aðalnámskrá grunnskóla og siðareglum Kennarasambandsins kemur skýrt fram að starfshættir grunnskólans eigi að mótast af umburðarlyndi, virðingu fyrir einstaklingnum og samábyrgð. Einnig ber kennurum að hafa jafnrétti allra
nemenda að leiðarljósi. Þetta eru göfug markmið sem því miður sumum kennurum reynist erfitt að framfylgja. Ljóst er að kennarar sem styðja hinsegin nemendur sína og koma fram við þá án fordóma hjálpa til við að koma í veg fyrir að vandamál komi upp. Þess vegna er mikilvægt að til sé fræðsluefni sem sýnt hefur verið fram á að ýti undir jákvæðari viðhorf hjá grunnskólakennurum.

Staðalmyndir og fordómar

Rannsóknir hafa sýnt að neikvæð viðhorf og fordómar byggjast m.a. á staðalmyndum, fáfræði og reynsluleysi af því að umgangast hinsegin fólk. Að sama skapi er vitað að fræðsla hefur áhrif á viðhorf fólks. Rannsókn Kristínar
E. Viðarsdóttur sem unnin var undir leiðsögn dr. Sifjar Einarsdóttur og dr. Sigrúnar Sveinbjörnsdóttur á viðhorfum kennara hér á landi sýndi m.a. fram á að aukin þekking á málefnum hinsegin fólks og jákvæð viðhorf fari saman. Einnig leiddi rannsóknin í ljós að viðhorf þeirra kennara sem fá fræðslu um málefni hinsegin fólks urðu jákvæðari á meðan viðhorf kennara sem enga fræðslu fengu voru óbreytt. Niðurstöðurnar eru í takt við erlendar rannsóknir sem benda til að draga megi úr neikvæðum viðhorfum kennaranema með fræðslu. Það hefur hins vegar aldrei verið skoðað sérstaklega varðandi viðhorf kennara fyrr en nú.

Erlendar rannsóknir sýna einnig að viðhorf falla í fyrra horf ef fræðslunni er ekki viðhaldið. Það er því ekki nóg að halda eitt námskeið, það þarf að fylgja hlutunum eftir. Hægt er að lesa nánar um rannsóknina í TUM-Tímariti um menntarannsóknir, 3. árgangi 2006.

Greinin birtist í Fréttabréfi Samtakanna '78 í september 2007

Leave a Reply