Skip to main content
Uncategorized

Alþjóðlegur dagur gegn hómó- og transfóbíu

By 17. maí, 2012No Comments

Í dag, 17. maí, er alþjóðlegur dagur gegn hómó- og transfóbíu. Þá má spyrja: þarf virkilega sérstakan dag til þess að tala gegn hómófóbíu og/eða transfóbíú? Og hvað þýða eiginlega þessi orð?

Nú þegar vorar í lofti og birtan eykst með degi hverjum er viðeigandi að líta yfir veturinn og viðfangsefni stjórnar Samtakanna ’78 síðustu mánuði.  Eitt af megin viðfangsefnum okkar er að berjast gegn fordómum í garð hinsegin fólks og við höfum þó nokkrum sinnum þurft að taka okkur penna í hönd og svara fordómum í okkar garð. Í vetur hefur mikið verið talað um tjáningarfrelsi og rétt fólks til þess að tjá skoðanir sínar – sérstaklega rétt öfgatrúarmanna til þess að láta ítrekað í ljósi neikvæðar og hatursfullar skoðanir á hinsegin fólki. Ég lít svo á að allir hafi rétt til skoðana sinna og að fá að tjá þær. Þegar aðili notar hins vegar hvert tækifæri sem gefst til þess að ausa neikvæðni og hatri yfir ákveðinn þjóðfélagshóp erum við komin út fyrir það sem getur kallast tjáningarfrelsi. Þá er viðkomandi farinn að stunda hreinan hatursáróður, hómófóbíu eða transfóbíu.

Í orðabók eru þessi hugtök skilgreind sem öfgakennd og órökrétt óbeit eða andstyggð á samkynhneigð/um og transgender fólki. Þessir sjálfskipuðu talsmenn sannleikans hafa verið duglegir að segja okkur að samkynhneigð sé ekki meðfædd heldur spurning um val á lífstíl og vísa í Biblíuna því til stuðnings. Ég spyr: við hvaða rannsóknir studdust höfundar Biblíunnar þegar þeir skrifuðu að kynlíf með manneskju af sama kyni væri ekki náttúrulegt heldur „viðurstyggð“?  Eru þetta kannski einhver fyrstu dæmin um hómófóbíu?  Og hvernig í ósköpunum stendur á því að fjölmargar aðrar greinar úr „hreinleikalögunum“ svokölluðu hafa í aldanna rás verið felld úr gildi en þeir öfgakristnu ríghalda í fordóma gagnvart samkynhneigð eins og heimurinn farist ef hinsegin fólk fær að lifa með sömu reisn og réttindi og aðrir þegnar?

Nei, þá treysti ég betur nútímavísindum og minni á að Samtök bandarískra geðlækna tóku samkynhneigð af sjúkdómalista sínum að hluta til árið 1973 og að fullu árið 1986. Það er í rauninni ótrúlegt að það skuli ekki hafa verið gert fyrr.  Samkvæmt íslenskum lögum er samkynhneigð hvorki synd né lögbrot. Að ráðast gegn fólki sökum kynhneigðar er hinsvegar brot á 233. grein almennra hegningarlaga (233. gr. a. Hver sem með háði, rógi, smánun, ógnun eða á annan hátt ræðst opinberlega á mann eða hóp manna vegna þjóðernis þeirra, litarháttar, kynþáttar, trúarbragða eða kynhneigðar sæti sektum eða fangelsi allt að 2 árum.) Því eru fjölmargir á mjög gráu svæði í sínum skrifum þegar þeir berjast gegn okkar hópi allt með tilvísun í Biblíuna, sem við vitum að var skrifuð af mönnum sem túlka þar Guðs orð. Nota bene – guðfræðingar og fræðimenn eru auk þess alls ekki sammála hvernig túlka skuli þessa texta líkt og fjölmargar prentanir og útgáfur af Biblíunni bera vitni um. Hér notar hver það sem hentar máli sínu til stuðnings og ekki má heldur gleyma að það eru alls ekki allir sömu trúar. Ætti trú eins að hafa áhrif á mannréttindi einstaklings sem hefur aðra trú eða er jafnvel trúlaus með öllu?

Ég læt ekki nokkurn mann segja mér að ég hafi valið mér „þennan lífsstíl.“ Ég vissi það strax á unga árum að ég hneigðist til karlmanna en vegna þess hvernig þjóðfélagið talar um þessi mál – boðskapur öfgatrúarmanna er þar með talinn – þá tók það mig þó nokkur ár að koma út úr skápnum. Ég er betur gefinn en svo að ég láti þetta fólk segja mér að ég sé ekki fæddur svona og að ég geti „snúið af villu míns vegar“.  Hversvegna í ósköpunum skyldi ég vilja breyta mér? Þið sem trúið því að samkynhneigð sé val, hvenær ákváðuð þið að vera gagnkynhneigð?

Með orðum sínum gefa hatursmenn í skyn að hinsegin fólk sé annars flokks borgarar sem verðskuldi ekki full mannréttindi á við aðra – að okkar mannréttindi komi til með að skerða réttindi hinna eða á einhvern hátt minnka gildi þeirra réttinda. Hver man ekki eftir umræðunni um staðfesta samvist og seinna giftingar samkynhneigðra – dómsdagsspár um að heilagleiki hjónabandsins væri í hættu fengju samkynhneigðir að gifta sig. Nú er komin nokkur reynsla á þetta og viti menn, það hefur bara ekkert gerst af því sem spáð var. Sólin kemur enn upp á morgnana. Fólk, jafnt gagn-, tví- og samkynhneigt, giftir sig – og skilur – og ég er sannfærður um að meirihluta gagnkynhneigðra para finnst engan veginn á sig hallað þótt samkynhneigðir njóti sömu réttinda.

Nú liggur fyrir Alþingi frumvarp til laga sem mun bæta réttarstöðu transfólks til muna en til þessa hefur ekki verið minnst á þennan hóp fólks í íslenskum lögum. Verði frumvarpið að lögum batnar staða Íslands á lista ILGA Europe um réttarstöðu hinsegin fólks til muna en eins og staðan er núna náum við aðeins 12 stigum af 30 mögulegum á þessum lista. Þar munar mestu um lagalega stöðu transfólks en einnig telst það okkur til tekna ef tillaga stj&o
acute;rnlagaráðs að nýrri stjórnarskrá verður samþykkt því þar er lagt til að bæta við orðinu kynhneigð í upptalningu á mismununarbreytum jafnræðisreglunnar. Stjórn Samtakanna ‘78 hefur lagt fram breytingartillögu við þessa grein þess efnis að orðinu kynvitund verði einnig bætt við upptalninguna en með því fengist einnig stjórnarskrárbundin vernd til handa transfólki. 

Ég hef sjálfur verið sakaður um að vera með upphrópanir um ímyndaðar afleiðingar hatursáróðurs þessara öfgatrúarmanna.  Þó sýnir nýleg rannsókn Þórodds Bjarnasonar og Ársæls Más Arnarsonar, prófessora við Háskólann á Akureyri, svart á hvítu að samkynhneigðir unglingar eru nærri tólf sinnum líklegri til að hugsa ítrekað um sjálfsvíg og allt að 25 sinnum líklegri en aðrir íslenskir unglingar til að hafa reynt að fremja sjálfsvíg margsinnis. Þessar rannsóknir staðfesta það sem forsvarsmenn Samtakanna ’78 hafa haldið fram í mörg ár. Við þekkjum okkar fólk og líðan þess – hvernig það er að alast upp í fordómafullu umhverfi sem er duglegt að minna okkur á að okkar tilfinningar séu á einhvern hátt óæðri tilfinningum þeirra gagnkynhneigðu og ekki Guði þóknanlegar.  Að berjast gegn slíkum viðhorfum og hatursáróðri er og verður meginviðfangsefni Samtakanna ’78. Hómófóbía og transfóbía eiga ekki rétt á sér frekar en annað hatur. Við skulum frekar vitna í annað gamalt rit, stjórnarskrá Bandaríkjanna, þar sem segir „All men are created equal“ – Við erum öll eins, manneskjur og sérstök hvert á okkar hátt en öll höfum við jafnan rétt til lífs, frelsis og hamingju.

Guðmundur Helgason
formaður Samtakanna ’78 

Leave a Reply