Skip to main content
search
Uncategorized

Hátíðarræða félagsmálaráðherra á Hinsegin dögum 2005

By 18. ágúst, 2005No Comments

Ágætu áheyrendur. Það er mér sönn ánægja að fá tækifæri til að ávarpa ykkur á Hinsegin dögum, þegar borgin okkar iðar af mannlífi, litum og gleði. Þetta er fagnaðarhátið okkar allra sem búum í þessu samfélagi, og í raun stórkostlegt að með þessum hætti skulum við geta sýnt samstöðu okkar með samkynhneigðu fólki, hvort sem við tilheyrum þeim hópi eður ei.

Við erum reiðubúin að fjölmenna út á götur borgarinnar á degi homma og lesbía, en erum við tilbúin að viðurkenna fullan rétt þeirra á við aðra borgara þessa lands, til dæmis hvað varðar rétt til fjölskyldulífs? Við vitum að mikilvægt skref var stigið í réttindabaráttu homma og lesbía þegar lög um staðfesta samvist voru sett árið 1996, en ætlum við að láta þar staðar numið?

  • Í dag eiga hommar og lesbíur ekki sömu möguleika og gagnkynhneigð pör að skrá óvígða sambúð hjá Hagstofunni.
  • Samkynhneigð pör í staðfestri samvist eiga ekki rétt á að ættleiða íslensk eða erlend börn til jafns á við gagnkynhneigð hjón eða einstaklinga.
  • Lesbíur eiga ekki sama rétt og gagnkynhneigðar konur til tæknifrjóvgunar í opinberum sjúkrastofnunum.
  • Að því ógleymdu að samkynhneigt fólk getur ekki óskað eftir því að prestar eða forstöðumenn safnaða gerist vígslumenn þeirra sem hyggjast ganga í staðfesta samvist.

Baráttumál homma og lesbía er að öðlast fullan rétt á við gagnkynhneigða til fjölskylduþátttöku. Ég styð það sjónarmið heilshugar og mun halda áfram að beita mér fyrir því, í fullri samvinnu við ykkur.

Þær rannsóknir sem hafa verið gerðar um foreldrahlutverk samkynhneigðra, sýna að færni þeirra er ekki lakari en gagnkynhneigðra foreldra. Lesbíur eru ekki öðruvísi en aðrar mæður hvað varðar uppeldishætti og færni sem uppalendur. Jafnframt sýna rannsóknir að hommum og gagnkynhneigðum körlum svipar mjög saman sem feðrum við helstu þætti þess mikilvæga hlutverks.

Ég er þeirrar skoðunar að almennt sé afar brýnt að efla rannsóknir á högum ættleiddra barna af erlendum uppruna, en meðan rannsóknir sýna, að samkynhneigðir foreldrar eru hreint ágætlega færir um að annast börn jafnt á við gagnkynhneigð pör, ætti það að hvetja til þess að við tökum til alvarlegrar skoðunar, hvort það geti raunverulega verið réttlætanlegt að meina samkynhneigðum að ættleiða börn. Rétt eins og gert hefur verið í Svíþjóð þar sem samkynhneigðum hefur verið veittur réttur til frumættleiðinga á börnum, erlendum sem innlendum, með lögum sem tóku gildi 2002.

Meginforsenda þess að par geti ættleitt barn er að hagir og aðstæður væntanlegra kjörforeldra séu þannig að barnið búi við sem vænlegustu þroskaskilyrði og að foreldrarnir séu færir um að veita barninu umönnun og ástúð. Ég vil meina að samkynhneigðir foreldrar geti uppfyllt þau skilyrði rétt eins vel og gagnkynhneigðir foreldrar.

Ég tek undir það sjónarmið að meginmarkmið ættleiðingar er að útvega barni fjölskyldu en ekki útvega fjölskyldu barn. Nauðsynlegt er að tryggja barni bestu hugsanlegar aðstæður og ég tel þær geta allt eins verið að finna hjá samkynhneigðum sem gagnkynhneigðum foreldrum.

Sama sjónarmið á í raun við um tæknifrjóvganir lesbía á sjúkrastofnunum. Meðan við viðurkennum að löngun til að eignast barn sé forsenda þess að gagnkynhneigð pör geti gengist undir tæknifrjóvgun, þá stríðir það í mínum huga gegn jafnræðissjónarmiðum að meina lesbískum pörum að gangast undir slíka meðferð.

Ég kalla á opnari og hreinskiptari umræðu um rétt samkynhneigðra til fjölskyldulífs. Við þurfum að auka fræðslu til skólabarna um þessi mál sem og almennings, til að sporna við fordómum, því við viljum standa vörð um að mannvirðing sé í heiðri höfð í samfélagi okkar. Við viljum búa í samfélagi þar sem enginn þarf að þola eða óttast misrétti, útskúfun eða jafnvel högg og skítkast frá samborgurum sínum.

Ég trúi því að innan tíðar verði réttur homma og lesbía til að ættleiða börn til jafns á við gagnkynhneigð pör. Að lesbíur í staðfestri samvist njóti sama réttar og aðrar konur til tæknifrjóvgunar á sjúkrastofnunum og að þess verði ekki heldur langt að bíða að prestum og forstöðumönnum safnaða verði heimilaður réttur, óski þeir þess, til að gerast vígslumenn þeirra sem hyggjast ganga í staðfesta samvist.

Ágætu áheyrendur.

Það er mér sönn ánægja að ávarpa ykkur á þessari hátíð Hinsegin daga í Reykjavík og finna gleðina sem hér ríkir. Á hátíð þar sem göturnar fyllast af litum, lífi og fjöri og sjá allan þann hóp fólks sem sýnir samstöðu sína með því fagna þessum degi með vinum, ættingjum og samborgurum sínum.

Aðstandendur þessarar hátíðar eiga heiður skilinn fyrir undirbúning allan og framkvæmdina.

Gleðilega hátíð!

Copyright © Árni Magnússon 2005
Tilvitnun er heimil sé heimildar getið

Leave a Reply