Skip to main content
Uncategorized

Yfirlýsing frá áhugahópi samkynhneigðra um trúarlíf

By 13. janúar, 2006No Comments

Áhugahópur samkynhneigðra um trúarlíf, ÁST, harmar orð biskups Íslands, herra Karls Sigurbjörnssonar, í sjónvarpsviðtali á NFS 2. janúar síðastliðinn, þar sem hann ræddi um hjónabandið í tengslum við fram komna tillögu á Alþingi en hún lýtur að frjálsri heimild til forstöðumanna trúfélaga til að sinna þeim löggerningi að staðfesta samvist samkynhneigðra í kirkju.

Í áðurgreindu viðtali, sem og í áramótapredikun sinni, hvatti hann til þess að löggjafarvaldið hugsaði sinn gang. Orðrétt sagði biskup í ofangreindu viðtali á NFS: „Hjónabandið á það inni hjá þjóðinni að því sé ekki kastað á sorphaugana.“ Ekki er hægt að túlka þessi ummæli á annan hátt en þann að biskup líti á hjónabandið sem sorphaug ef hommar og lesbíur geti farið með heit sín og staðfest samvist sína í guðshúsum þjóðkirkjunnar. Getur verið að biskup Íslands líti svo á að sambúð homma og lesbía sé einber ruslahaugasambúð og ekki þess verð að hljóta náð í húsum þess trúfélags sem hann stýrir?

Biskup Íslands hefur ítrekað hvatt til samræðu um málefni samkynhneigðra og kirkjunnar. Orð hans í viðtalinu 2. janúar eru sannarlega ekki til þess fallin að gera þá samræðu opnari né von betri. Hætt er við að orð hans geti spillt því margháttaða og góða starfi sem nú þegar á sér stað innan þjóðkirkjunnar í því skyni að auka skilning og byggja brýr og auka þar með vonir okkar, skírðra homma og lesbía um að fá brátt sjálfsagða viðurkenningu á heitum okkar og ást í guðshúsum þjóðkirkjunnar.

Hér skal einnig minnt á að þjóðkirkjan er ein af mörgum trúfélögum landsins og ef Alþingi heimilar að forstöðumenn trúfélaga geti framkvæmt þann löggerning sem felst í staðfestri samvist, varðar það fleiri en þjóðkirkjuna. Slík heimild, sem forstöðumenn annarra trúfélaga hafa óskað eftir, yrði ómetanlegur stuðningur við trúfrelsi á Íslandi og til að efla virðingu fyrir ólíkum siðum og trúarskoðunum. Þessi heimild er ekki einkamál þjóðkirkjunnar og forystumanna hennar, heldur varðar hún ýmsa fleiri.

Áhugahópur samkynhneigðra um trúarlíf skorar á Alþingi að samþykkja þær breytingatillögur á lögum um staðfesta samvist og lögum um stofnun og slit hjúskapar, sem Guðrún Ögmundsdóttir hefur boðað í tengslum við frumvarp um lagabreytingar er varða réttarstöðu samkynhneigðra, en réttaráhrif tillagna hennar miða að því að prestar og forstöðumenn trúfélaga gætu staðfest samvist homma og lesbía í guðshúsum sínum með löggerningi ef þeir æskja þess. Annar kostur er sá að prestar og trúfélög láti alfarið af þeim vígslusið sem felur í sér löggerning þannig að þáttur trúfélaga og fulltrúa þeirra felist eingöngu í blessun til handa þeim pörum sem hana vilja þiggja. Hér skal jafnrétti ríkja án tillits til kynhneigðar.

f.h. Áhugahóps samkynhneigðra um trúarlíf (ÁST)

Grétar Einarsson

Leave a Reply