Á jarðhæð Egilsgade 22 í Kaupmannahöfn ræður lesbían, hugsjónakonan og ljósmóðirin Nina Stork ríkjum. Starfsemi Stork Klinik lætur ekki mikið yfir sér en engu að síður hafa hundruð barna verið hamingjusamlega getin þar undanfarin sex ár. Árið 1997 gengu í gildi lög í Danmörku sem banna læknum að sæða lesbíur og einhleypar konur eða eins og segir í lagabókstafnum, ógiftar eða ekki í sambúð með karli. Hvergi er minnst á ljósmæður í lögunum og einmitt það skapar grundvöll fyrir starfsemi Stork Klinik, sem á engan sinn líka í veröldinni.
Tæknisæðing er það þegar sæði er komið fyrir í legi konu án samfara. Lesbíur, bæði einhleypar og í sambandi, eru um 60% þeirra kvenna sem nýta sér þjónustu Stork Klinik og afgangurinn er gagnkynhneigðar konur. Flestar eru konurnar danskar, þá sænskar, norskar, þýskar og loks íslenskar, en um tuttugu íslensk lesbíupör hafa nýtt sér þjónustu Stork Klinik.
Ólög
En er þetta glufa í lögunum eða ekki? Spurningunni kastar Nina sjálf fram í samtali við greinarhöfund og segir löggjafann hafa vitað af svigrúminu sem lögin gáfu þegar þau voru sett. „Deilt var um orðalag og rætt um að enginn mætti stunda tæknisæðingu, í stað þess að í lögunum stæði að læknar mættu ekki stunda tæknisæðingu. Þetta eru ólög, þú getur ekki bannað konu að setja sæði í leggöngin á sér, komi kynfæri karls þar hvergi nærri. En sæðið má gjarnan fara þangað ef typpi kemur við sögu,“ segir Nina. Og mismununin sem nú var bundin í lög leiddi til þess að Nina ákvað að taka málin í sínar hendur. Það gaf henni aukinn kraft að hún og eiginkona hennar, Inger, sem starfar sem iðjuþjálfi, áttu von á barni.
Nina hafði samband við heilbrigðisyfirvöld til að athuga hvort sér sem ljósmóður væri stætt á að stofna stofuna. Svör þeirra voru aðeins á einn veg og viðbúin, tæknifrjóvgunarlögin í núverandi mynd geta ekki haft áhrif á starfsemina. „Það sem ég gerði var ekki gegn lögum en það var gegn stefnu og tilgangi laganna sem eiga að hindra lesbíur í að geta eignast börn.“
Óvissa
Stofan var opnuð hinn 1. október 1999, tveimur árum eftir lagasetninguna umdeildu. Þá hafði Ninu og Inger líka nýlega fæðst sonurinn Oskar. „Við höfum farið þá leið að vera mjög opnar um okkar aðstæður en ég held að það sé mikilvægt að baráttan fyrir þessum rétti sé persónugerð og hægt sé að tengja hana við andlit.“
Í fyrstu vann Nina ein en fljótlega óx starfseminni fiskur um hrygg og starfsmönnum fjölgaði. Nú starfa þar átta konur. Tvisvar hefur verið reynt að bregða fæti fyrir Ninu, árin 2000 og 2002, með breytingafrumvarpi við lög sem hefði gert það að verkum að stofunni hefði verið lokað. Andstæðingar Stork Klinik á danska þinginu hafa ekki enn haft erindi sem erfiði. Nina segist þó ekki geta verið örugg um starfsemina í dag og vill engu spá um hvað framtíðin beri í skauti sér. „Stofunni getur alltaf verið lokað ef lagabreytingarnar ná í gegn. Við verðum bara að lifa við það óöryggi“. Óvissan um hvort stofan haldi starfsleyfi er ekki góð því núverandi húsnæði er farið að þrengja að starfseminni og þörf á stærra. Í fyrra voru gerðar 1200 tæknisæðingar á Stork Klinik og hafa þær aldrei verið fleiri.
Haldlítil rök
Nina segir sérstakt við tæknifrjóvgunarlögin að allir hafi á þeim skoðun og tilfinningahitinn sé mikill. Hún segist þreytt á röksemdafærslu þeirra sem eru á móti stofunni og starfsemi hennar. „Þau rök sem ég heyri oftast eru að barn þurfi að eiga föður og móður. Og þegar ég spyr af hverju, þá er svarið oftar en ekki, af því bara.“ Eins vísa þeir sem finna starfseminni allt til foráttu oft til þess félagslega álags sem börn samkynhneigðra geta orðið fyrir á fyrri hluta unglingsára. „Ef ég væri gagnkynhneigð kona og segði við samkynhneigðan einstakling að hann mætti ekki eignast barn því að barnið mitt myndi stríða barninu hans; það finnst mér einkennilegt. Ef þú meinar samkynhneigðu pari að eignast barn á þessum forsendum, geturðu eins tekið þann rétt af rauðhærðu eða svörtu pari. Svona hugsar maður ekki. Börnum er strítt og við sem foreldrar barna af öllum gerðum eigum að koma í veg fyrir að rauðhærðum börnum, börnum með gleraugu eða börnum sem eiga tvær mömmur, sé strítt.“
Engin tengsl við gjafann
Það sæði sem Stork Klinik notar kemur frá stórum sæðisbanka í Danmörku. Sæðisgjafarnir njóta nafnleyndar en koma flestir úr hópi danskra háskólastúdenta. Kaldhæðnislegt er til þess að hugsa, með tilliti til þess að lesbíur eru í meirihluta þeirra sem fá sæðið, að bankinn leyfir ekki hommum að gefa sæði. Tengsl Stork Klinik við gjafana eru engin. „Ef maður er sæðisgjafi, þá er maður ekki faðir. Börnin koma aldrei til með að sjá sæðisgjafann, það er í raun útilokað.“
Vegna þess hve þétt samfélag lesbía er í Danmörku, er sæði úr hverjum gjafa aðeins notað í fá skipti. Sæði hvers gjafa er svo notað enn sjaldnar ef íslenskt lesbíupar á í hlut, þar sem samfélag samkynhneigðra á Íslandi er enn minna en í Danmörku. „Maður skyldi þó hafa í huga þegar maður fer á tæknisæðingarstofu, að það er ekki þannig að hver fái sinn eigin gjafa. Þ&
uacute; getur ekki komið hingað og verið viss um að enginn annar noti gjafann þinn. Við förum einfaldlega að lögum sem segja til um hversu oft megi nota sæði gjafa til að þunga konu.“ Nina segir að taka verði tillit til fólksfjölda í hverju samfélagi þegar ákvarða á hversu oft megi nota sæði úr einum og sama gjafanum. Líkurnar á að tvö börn sæðisgjafa sem ekki vita það verði ástfangin og langi til að eignast börn eru hins vegar hverfandi og taldar ásættanlegar.
Rétt er að geta þess að sá valmöguleiki er fyrir hendi að skipta við bandarískan sæðisbanka og þá getur barnið fengið upplýsingar um gjafann þegar það hefur náð 18 ára aldri.
Þvegið sæði á kút
Þegar stóri dagurinn rennur upp og konan er á réttum stað í tíðahringnum, að undangengnum ítarlegum læknisskoðunum, heimsókn til kvensjúkdómafræðings og viðtölum, er sæðið "þvegið", ef svo má að orði komast. Latt og dautt sæði er skilið frá til að líkja eftir því sem myndi gerast við samfarir karls og konu, þegar aðeins heilbrigðasta sæðið kemst á leiðarenda. Sæðingin sjálf tekur aðeins fáeinar mínútur og er framkvæmd af ljósmóður. Verð fyrir hverja tæknisæðingu er rúmar 40.000 ISK og hefur aldur konunnar mikið um það að segja hversu fljótt frjóvgun heppnast.
Sæðið er geymt á kútum í fljótandi köfnunarefni, flokkað eftir útlitseinkennum og hæð gjafanna. Nina segir misjafnt hversu ákveðna hugmynd konurnar hafi um útlit gjafans. „Við reynum að segja við konur sem hingað koma að leggja lítið upp úr hæð, augn- og háralit því ekki sé hægt að panta hvernig barnið komi til með að líta út. En að sjálfsögðu tökum við tillit til óska þeirra.“
Eitt eiga öll börn sem hafa verið getin á stofunni sameiginlegt, þau eru óskabörn, ef svo má segja. Og þegar Nina er spurð hvort barn tveggja lesbía sé öðruvísi en barn gagnkynhneigðs pars, segir hún svo vera, því að ákvörðunin um að eignast barn sé alltaf ígrunduð enda verði hún að vera tekin að vel athuguðu máli.
Uppreisn lesbíanna
Nina segir mikla umfjöllun fjölmiðla hafa aukið almenna umræðu og vakið athygli á réttindum samkynhneigðra og þeirri staðreynd að sumir þeirra vilji líka eignast börn. „Auðvitað hefur þetta verið krefjandi og erfitt inn á milli en fyrir mér er þetta mikilvægt, bæði persónulega og frá pólitísku sjónarhorni. Í hvert skipti sem ég tala við fjölmiðla hugsa ég til þess að því fleiri sem lesi þetta, þvi fleiri verði þeir sem taki vel á móti börnum getnum hér á Stork Klinik.“ Hvað með andrúmsloftið í samfélaginu, hefur það breyst frá því stofan var opnuð? „Ég vona að öll þessi háværa umræða hafi haft áhrif á fólk og gert það meðvitaðra. Umfjöllun norrænna fjölmiðla hefur alltaf verið jákvæð og þeim hefur þótt þetta skemmtileg saga, sagan af lesbíunum sem settu sig upp á móti samfélaginu.“
Baráttumál
Með þessum orðum kveður Nina mig og ég geng hugsi út, líklegast dálítið snortinn af eldmóði þessarar konu. Hún hefur barist en það er enn margt að berjast fyrir, þegar kemur að réttindum samkynhneigðra. Ef við lítum okkur nær segir það sína sögu að fræðsla um samkynhneigð hefur ekki enn verið sett í aðalnámsskrá íslenskra grunn- og framhaldsskóla. Á Íslandi, líkt og í Svíþjóð og Noregi, geta aðeins giftar konur og konur í sambúð með karli gengist undir tæknifrjóvgun. Svíþjóð, eitt landa heims, veitir samkynhneigðum fullan rétt til frumættleiðinga á börnum, innlendum sem erlendum og þá eru stjúpættleiðingar heimilar samkynhneigðum í Hollandi, Belgíu og á Norðurlöndunum, að undanskildu Finnlandi.
Breytingar í vændum?
Nú kann að vera að hilli undir breytingar því að vorið 2003 skipaði forsætisráðherra nefnd sem kanna átti réttarstöðu samkynhneigðra á Íslandi og gera tillögur um úrbætur til að jafna stöðu samkynhneigðra og gagnkynhneigðra. Nefndin skilaði skýrslu sinni haustið 2004, en athygli vekur að hún klofnaði í afstöðu sinni til tveggja veigamikilla þátta sem varða mannréttindi homma og lesbía. Um ættleiðingar erlendra barna og tæknifrjóvganir, skilaði nefndin tveimur tillögum.
Þrír nefndarmanna töldu ekki rétt að svo stöddu að heimila ættleiðingar samkynhneigðra á erlendum börnum til að stefna ekki í hættu samvinnu við ríki sem banna slíkt. Þá töldu þremenningarnir að lög um tæknifrjóvgun nr. 55/1996 sem krefjast þess að konan sé í sambúð eða hjúskap með karli, hvíldu enn á málefnalegum grunni og byggðust á hagsmunum barnsins.
Hinir þrír nefndarmennirnir sögðu það stríða gegn jafnræðissjónarmiðum að meina samkynhneigðum pörum í staðfestri samvist að ættleiða erlend börn og sögðu reglur annarra ríkja um ættleiðingar ekki ættu að hafa nein úrslitaáhrif. Ennfremur lögðu þeir til að lesbískum pörum skyldi heimil aðstoð við tæknifrjóvgun á opinberum sjúkrastofnunum.
Skýrsla nefndarinnar hefur verið afhent ríkisstjórn og búast má við að frumvörp verði lögð fram á haustþingi 2005.
Stuðst var við upplýsingar á www.lbl.dk, www.storkklinik.dk og www.samtokin78.is
Grein þessi birtist upphaflega í Stúdentablaðinu, 3. tbl. 81.
árg. apríl 2005.