Skip to main content
search
Uncategorized

Bleiki markaðurinn

By 15. september, 2007No Comments

Hagfræðin lætur sig margt varða.  Fræðigrein sem fjallar um skort efnislegra gæða og það val sem hlýst í kjölfarið getur t.d. varpað ljósi á ýmsa hagræna þætti kynhegðunar.  Kynhegðun er auðvitað ekki annað en ein af mörgum breytum sem hefur áhrif á einstaklinga og þátttöku þeirra í efnahags- og atvinnulífi.  Slík breyta og áhrif hennar eru spennandi rannsóknarefni.  Spurningar eins og hvaða áhrif kynhneigð hafi á menntun, laun, fjölskyldumynstur o.s.frv. koma óhjákvæmilega í hugann. 

Niðurstöður margs konar rannsókna liggja fyrir í því efni, t.d. sýna nokkrar rannsóknir í Bandaríkjunum að samkynhneigðir karlmenn hafa 15-30% lægri laun en aðrir kynbræður þeirra og að lesbíur hafi hærri laun en þeirra kynsystur.    Flestar þessara rannsókna ber á endanum óhjákvæmilega að sama brunni og það er spurningin um fjöldann sem slíkan. Hversu margir hafa stigið skrefið til fulls og komið út.  Þá skiptir líka máli hvort aðilar með ákveðið upplag séu kannski líklegri en aðrir að koma út úr skápnum.

Að vera inni eða úti

Þröskuldur þess að koma út snertir auðvitað vanda í rannsóknum á hópnum.  Úrtak sem ekki endurspeglar hópinn getur leitt til rangra ályktana.  Ályktunarvandinn sem getur orðið til við skekkt úrtak er vel þekktur úr tölfræði.  Fræg er sagan frá fyrri hluta síðustu aldar þegar Readers Digest gerði könnun fyrir forsetakosningar í Bandaríkjunum með því að hringja í fólk.  Tímaritið lýsti í kjölfarið frambjóðanda repúblikana sem sigurvegara.  Forsvarsmönnum könnunarinnar hafði hins vegar láðst að huga að því að efnaminni einstaklingar voru síður líklegir til að hafa síma.  Það voru einmitt þeir efnaminni sem höfðu tilhneigingu til að kjósa frambjóðanda demókrata og þess vegna var verulegt ósamræmi milli niðurstöðu könnunarinnar og kosninganna.  Demókratinn vann.  Með þessu er ekki verið að varpa rýrð á rannsóknir sem gefa þetta eða hitt til kynna um samkynhneigða það er einungis verið að segja að úrtaksvandinn er viðbótarvandi sem snertir ekki mörg önnur rannsóknarviðfangsefni í jafn ríkum mæli.  Þetta kemur hins vegar ekki í veg fyrir að við skoðum hagræn einkenni markaðsins og hvernig hann bregst við því sem sumir myndu kalla óvenjubundna kynhegðun. 

Hagfræði mismununar

Mismunun er viðfangsefni sem hagfræðin hefur fjallað um.  Nóbelsverðlaunahafinn Gary Becker hefur m.a. látið til sín taka á þessu sviði.  Mismunun á sér stað þegar markaðir bjóða svipuðum einstaklingum ólík kjör og kjörin eru ólík vegna einhverra persónueinkenna einstaklings, t.d. kynhneigðar hans.  Hagfræðingar halda því fram að markaðir hafi innbyggða hvata sem virka sem mótstaða gegn mismunun.  Þetta má skýra með dæmi.  Hugsum okkur að á vinnumarkaði séu konur með tvenns konar hárlit, dökkhærðar og ljóshærðar.  Ef þeir sem ráða fólk velja fremur ljóshærðar konur fram yfir dökkhærðar má gera ráð fyrir því að spurn eftir þeim verði meiri og laun þeirra hærri.  Um leið verður þá til hvati fyrir aðra að nota tækifærið og ráða til sín dökkhærðar konur á lægri launum.  Þessi hvati verður til staðar þar til launamun hefur verið eytt.  Hámörkun hagnaðar vinnur gegn þessum launamun. Það eru hins vegar hömlur á þessu afli til leiðréttingar á markaði.  Þar koma til tveir þættir, annars vegar smekkur fólks og hins vegar stefna stjórnvalda.  Ef fólk kýs frekar að njóta þjónustu ljóshærðra kvenna eða ef stjórnvöld jafnvel kveða á um mismunun er líklegt að mismunun geti orðið viðvarandi.  Þetta gefur til kynna að hugarfarið ráði miklu hvað mismunun snertir og þar liggur átakalínan.  Ríkisvaldið hefur þar að auki ekki beinlínis verið samkynhneigðum leiðitamt lengst af svo ekki sé meira sagt. 

Markaður og stjórnmál

Margt hefur þó breyst að undanförnu í þessum efnum og í Evrópu er mikil hreyfing á þessum málum, ekki síst hér á landi.  Í Bandaríkjunum má hins vegar sjá þess merki að markaðurinn sé liprari að bregðast við þörfum og kröfum samkynhneigðra en stjórnvöld.  Stjórnvöld reynast þar fremur Þrándur í Götu í réttindabaráttunni en hitt.  Vettvangur stjórnmála og markaðurinn standa líka frammi fyrir gjörólíkum aðstæðum og hvötum.  Aðilar á markaði eru háðir hagnaði og tapi.  Máli skiptir að halda í gott starfsfólk og laða til sín viðskiptavini.  Lýðræðið byggir hins vegar á því að meirihlutinn ræður.  Einstaklingshyggjan ræður á markaði en heildarhyggjan á vettvangi stjórnmála og þar þarf að taka tillit til margra.  Meirihlutinn þvingar oft og tíðum hugmyndum og gildismati á minnihlutann í ljósi eigin viðhorfs og afstöðu. 

Á markaði þar sem fordómar ráða ferðinni er siglt gegn vindi.  Hagnaðarvon á markaði leiðir til stöðugrar leitar að markaðseyðum (e. Niche) og nýjum markhópum.  Þeir hagnast því meira sem láta ekki fordóma ráða för.  Eftir því sem viðhorf breytast eru fyrirtækin opinskárri og opnari fyrir því að staðsetja sig þar sem áður þekktist ekki.  Þegar rætt er um markaðseyður má t.d. sjá nýtt hugtak og það er hinn svokallaði bleiki markaður (e. Pink Market)
.  Fyrirtæki sem gera út á að veita vörur og þjónustu fyrir samkynhneigða.  Þess sjást merki í auglýsingum erlendis og hérlendis líka.  Fyrsta auglýsing þar sem samkynhneigt par lék í auglýsingu var hjá IKEA í Bandaríkjunum 1994 og hún var bara sýnd einu sinni.  Mörg fyrirtæki hafa vefsvæði sem sérstaklega er beint að samkynhneigðum t.d. American Airlines.  Á vefnum má finna lista yfir þau Fortune 500 fyrirtæki sem teljast vinsamleg samkynhneigðum. 

Góð grein um þennan ört vaxandi markað er að finna í Time í apríl 2006.  Margar auglýsingar grundvallast á því að samkynhneigðir séu barnfærri, hafi meiri tíma en aðrir jafnaldrar þeirra, hafi jafnvel úr meiru að spila og laðist að ákveðnum vörutegundum o.s.frv.  Allt eru þetta áhugaverð viðfangsefni og sýna kannski að núningsfletir hagfræði og samkynhneigðar eru margir.  Mun fleiri en komst í greinarbút sem þennan.  Umræðan um kynhneigð og réttarstöðu samkynhneigðra er ofarlega á baugi hér á landi um þessar mundir og margt skoðunarvert í þeim efnum.  Það sem er kannski gleðilegast í þessari umræðu er hvernig bætt staða samkynhneigðra hefur leitt til þess að víða um lönd bera einstaklingarnir höfuðið hærra en áður og viðfangsefni kynhegðunar eru fremur á sviði markaðsrannsókna en lögreglurannsókna. 

Höfundur er hagfræðingur og starfar við Háskólann í Reykjavík.
Greinin birtist í Fréttabréfi Samtakanna '78 í september 2007

Leave a Reply