Skip to main content
Uncategorized

Breytingar á hjúskaparlögum nauðsynlegar

By 27. janúar, 2006No Comments

Undanfarið hafa staðið yfir miklar umræður um hjónabandið og áhugaverðar í sjálfu sér. Þær virðast tilkomnar vegna frumvarps um miklar og flóknar breytingar á lögum um „réttarstöðu samkynhneigðra“, eins og það er kallað. Virðist sá misskilningur uppi að þar séu á ferð róttækar breytingar af einhverju tagi en svo er ekki heldur er verið að stoppa upp í göt á lagabálki um „Staðfesta samvist“ sem tók gildi árið 1996 og þótti á sínum tíma mikil réttarbót.

Það er einkenni stjórnkerfis að vera hægfara og hið sama gildir um lögin. Þegar maður les þessi ósköp yfir hvarflar að manni hversu miklu einfaldara væri að breyta hjúskaparlögum og lögum um óvígða sambúð og fella þau að þeim veruleika að hjónabandið hefur breyst, það snýst núna um ákvörðun frjálsra manna um að eyða ævinni saman (sem gengur nú upp og ofan) og síður um æxlun. Það er ekki lengur skoðun manna að barnlaust hjónaband þurfi að vera misheppnað. Engum dettur heldur í hug að amast við því að konur sem komnar eru úr barneign gangi í hjónaband. Takmörkunum á hjónabönd, skilnaði og einkalíf manna yfirleitt hefur hríðfækkað seinustu aldir og óhætt að líta á þær sem eftir eru sem leifar úr fortíðinni.

Þetta er nýr veruleiki sem hjúskaparlög þurfa vitaskuld að endurspegla. Í því ljósi ætti Alþingi að nota tækifærið og breyta 1. lagagrein í hjúskaparlögum (no. 31, frá 14. apríl 1993). Þar stendur: „Lög þessi gilda um hjúskap karls og konu“ og er réttast að fella niður orðin „karls og konu“. Eins þyrfti að breyta 7. grein laganna sem núna takmarkar hjúskap við karl og konu. Þar ætti í staðinn að tala um tvo lögráða einstaklinga. Eins þarf Alþingi að afnema hina svokölluðu „staðfestu samvist“ og þeir sem hafa skráð sig þannig munu þá annað hvort ganga í hjónaband eða búa í óvígðri sambúð, eftir smekk. Mér finnst þetta mun einfaldari og hreinlegri aðgerð en að vera með þrjú hjúskaparform og þar af eitt (staðfesta samvistin) sem frelsissinnaðir menn geta aldrei sætt sig við til langframa.

Mín skoðun er sú að löggjafarvaldið eigi aftur á móti ekki að skipta sér af því hvaða kreddur um hjónabönd séu uppi hjá hinni evangelísk-lútersku kirkju eða öðrum trúarhreyfingum. Þeir sem aðhyllast viðkomandi trúarbrögð verða einfaldlega að leysa úr þeim málum sjálfir. Trúfrelsi manna er mikilvægt og um það verður að standa vörð, þó að einhvers staðar verði auðvitað að draga mörkin þegar trúarleiðtogar valda öðrum angri og ónæði með því að boða að þeir séu réttdræpir eða á leið til Helvítis eða þvíumlíkt. Um slíkt verða almenn hegningarlög að gilda.

Á hinn bóginn er tími til kominn að afnema 17. grein hjúskaparlaga þar sem prestar og aðrir trúarleiðtogar veita einstaklingum hjúskaparleyfi. Mun eðlilegra er að það sé einvörðungu í höndum hins veraldlega valds. Framkvæmdin yrði þá þannig að allir fengju leyfi til giftingar hjá sýslumanninum (sbr. núverandi 18. grein). Hins vegar réðu trúarsöfnuðir sjálfir sínum trúarathöfnum í tengslum við hjúskap.

Þar með yrði skilgreiningin á hjónabandi á vegum hins opinbera en ekki trúarsafnaða. Um leið yrði komið í veg fyrir alla mismunum og allir þeir sem eru orðnir 18 ára gætu gifst á jafnréttisgrundvelli. Um leið þyrftu þeir sem skráðir eru í tiltekinn trúarsöfnuð ekki að hafa áhyggjur af gjörðum Alþingis heldur gæti viðkomandi söfnuður ákveðið á eigin hraða hvort og hvenær trúarathafnirnar yrðu lagaðar að landslögum. Er raunar engum blöðum um það að fletta að margir trúarsöfnuðir munu laga sig fljótlega að breyttum aðstæðum, eins og trúarbrögð hafa alltaf gert til þess að lifa af.

Sjálfur er ég ekki í trúarsöfnuði og hneigist til að líta á trúarsannfæringu manna sem einkamál hvers og eins. Sjálfsagt þykir mér að sýna trúarsannfæringu annarra fullt tillit. Á hinn bóginn er mér eins og mörgum öðrum ömun að því að umræða um mannréttindamál eins og hjúskap skuli einkum rædd á guðfræðilegum grunni, með tilheyrandi vísunum í Biblíuna og kirkjuþing. Þetta er fullkominn óþarfi og Alþingi getur frelsað okkur frá þessari hvimleiðu umræðu með því að breyta þessum þremur grundvallargreinum hjúskaparlaga og einfalda síðan lagaflækjurnar sem núverandi mismunum í þessum lögum skapar.

Er óskandi að minn flokkur sýni hér frumkvæði og taki höndum saman við aðra víðsýna stjórnmálaflokka og komi hinu nýja kerfi á innan næstu fimm ára.

Grein þessi birtist á Múrnum 27. janúar 2006

Leave a Reply