Skip to main content
Uncategorized

Breyttir tímar

By 15. apríl, 2008No Comments

Í 30 ár hafa Samtökin ’78 unnið að bættum réttindum homma og lesbía á Íslandi með eftirtektarverðum árangri. Viðhorf hafa breyst og lagalegri mismunun nánast verið eytt. Breyttar aðstæður í þjóðfélaginu kalla á breyttar áherslur í starfi Samtakanna ‘78.

Þessar áherslur koma meðal annars fram í fræðslustarfi félagsins. Jafningjafræðsla í grunn- og framhaldsskólum hefur lengi vel verið veigamesti þátturinn í fræðslustarfi félagsins en óskir fagfólks m.a. í skólum og starfsfólki heilbrigðisstétta hafa aukist til muna. Við þessu hefur verið brugðist eftir bestu getu en nú er svo komið að óskir um fræðslufundi eru mun fleiri en félagið hefur getað annað. Áhugi sveitarfélaga á þjónustu sem Samtakökin ’78 og þeirri þekkingu sem félagið býr yfir ber e.t.v. vitni um breytta tíma. Það er því fagnaðarefni að þegar hafa nokkur sveitarfélög gert þjónustustamning við Samtökin ‘78 þar sem markmiðið er m.a. að efla fræðslu til fagfólks í sveitarfélögunum.

Nýjar áherslur

Við þurfum að bregðast við þeirri stöðu að vaxandi fjöldi samkynhneigðra einstaklinga af erlendum uppruna býr á Íslandi. Margt af því fólki sem hingað kemur er frá löndum þar sem lagaleg og félagsleg staða hinsegin fólks er afar óljós og ótrygg. Það er skylda okkar að ná til þessa fólks og upplýsa það um stöðu sína á Íslandi og við hverju það má búast í íslensku samfélagi. Réttarstaða og félagsleg staða transgender fólks á Íslandi er sömuleiðis afar veik og óljós og við því þarf að bregðast. Á Íslandi eru til dæmis engin lög í gildi um málefni transgender fólks líkt og í mörgum nágrannalanda okkar og margar hindranir sem standa í vegi fyrir lagalegri viðurkenningu og læknisfræðilegri meðferð.

Lagaleg staða nánast sú sama

Staða homma og lesbía í íslensku samfélagi er allt önnur nú en þegar Samtökin ’78 voru stofnuð fyrir 30 árum. Með mikilli vinnu og samfelldri fræðslu hefur samfélagslegum hindrunum verið rutt úr vegi, viðhorf til samkynhneigðra hafa breyst og það hefur skilað sér í réttarbótum til handa samkynhneigðum. Lög um staðfesta samvist sem sett voru árið 1996 voru til að mynda stórt skref í þá átt að bæta réttarstöðu samkynhneigðra og lögin sem tóku gildi árið 2006 eyddu að mestu lagalegri mismunun gagnvart samkynhneigðum. Á Alþingi hefur nú verið sett fram frumvarp um breytingu á lögum um staðfesta samvist. Með lagabreytingunni fá samkynhneigð pör val um stofnun staðfestrar samvistar hjá trúfélögum eða borgaralegum vígslumönnum. Við fögnum að sjálfsögðu því að þetta frumvarp skuli vera lagt fram í þverpólitískri sátt. En þó hér sé auðvitað ætlunin að staga í það lagalega gat sem lögin frá 2006 skildu eftir þá er það umhugsunarefni að frumvarpið sem hér um ræðir gerir beinlínis ráð fyrir því að prestar og forstöðumenn skráðra trúfélaga geti neitað samkynhneigðum pörum sem til þeirra leita um þjónustu. Það brýtur í bága við þá megin hugsun að allir skuli jafnir fyrir lögum og á það hafa lögfræðingar réttilega bent á og tekið undir með Samtökunum ‘78 að réttast væri að sameina núverandi hjúskaparlöggjöf í eina í stað þeirra tveggja sem nú eru í gildi, annarsvegar lög um hjúskap karls og konu annarsvegar og hinsvegar lög um staðfesta samvist.

Viðhorf breytast

Viðhorf breytast. Það sem er jákvætt í dag getur orðið neikvætt á morgun. Sú samfellda fræðsla sem Samtökin ’78 hafa staðið fyrir á undanförnum áratugum hefur lagt grunninn að þeirri viðhorfabreytingu sem hefur átt sér stað í garð samkynhneigðra og fjölskyldna þeirra. Við þurfum að halda áfram að segja sögu okkar, segja frá því hver við erum, eyða fordómum og uppræta staðalmyndir. Jákvæð viðhorf til samkynhneigðra staðfesta að við höfum náð árangri og það hefur átt sinn þátt í því að breyta til hins betra því lagalega umhverfi sem við búum við. Því miður hafa fæst lönd í heiminum þá sögu að segja. Og þó löggjöfin skipti vissulega miklu máli er hún ekki nægjanleg ein og sér og tryggir ekki endilega félagslegt jafnræði. Þar höfum við verk að vinna og þar verður fræðslustarfið seint ofmetið. Við verðum að standa vörð um það sem hefur áunnist og sjá til þess að komandi kynslóðir verði ekki þögninni að bráð – þögninni sem nokkrir hugrakkir einstaklingar rufu fyrir rúmum 30 árum síðan.

Frosti Jónsson, formaður Samtakanna ´78
Greinin birtist í Fréttabréfi Samtakanna '78 í  apríl 2008

Leave a Reply