Skip to main content
Uncategorized

„Búum bara til bókasafn og höfum það fyrir almenning!“

By 23. september, 2014No Comments

Ávarp í Þjóðarbókhlöðu á Alþjóðadegi tvíkynhneigðra, þann 23. september 2014, þegar Samtökin ´78 færðu námi í kynjafræði við Háskóla Íslands 1200 fræðibækur að gjöf úr safni sínu til varðveislu á Landsbókasafni – Háskólabókasafni.

Þorgerður Einarsdóttir, prófessor í kynjafræði, landsbókavörður og starfsmenn Landsbókasafns – Háskólabókasafns – góðir gestir.

Árið 1987 fluttu Samtökin ´78 í litla félagsmiðstöð sem síðan átti eftir að duga félaginu í tólf ár. Á ofurlitlu timburhúsi á Lindargötu 49, sem nú er horfið fyrir voldugum íbúðaturnum, byggðum við upp nýjan veruleika í sögu lesbía, homma og annars hinsegin fólks og seildumst lengra í baráttu okkar fyrir mannvirðingunni. Á efri hæð hússins var um það bil tólf fermetra herbergi sem við vissum ekki hvernig við ættum að nýta þegar við fluttum inn. Þá segir einhver upp úr kaffibollanum: „Búum bara til bókasafn og höfum það fyrir almenning!“ Það var upphafið að safni Samtakanna ´78. Málið þokaðist svo á áþreifanlegra stig þegar við Böðvar Björnsson og Rúnar Lund seildumst upp í okkar eigin hillur og bárum nokkrar bækur niður á Lindargötu 49. Þessar gjafir fylltu þá rétt tæplega tvær bókahillur og þar sem við Böðvar stóðum fyrir framan þær, horfðumst við í augu og ég sagði: „Bókasafn Samtakanna ´78 er stofnað.“ „Gott, þá segjum við það!“ sagði Böðvar. Formlegri og lýðræðislegri var stofndagurinn ekki. Þetta var 1. maí 1987.

En safnið óx hratt ár frá ári, við keyptum inn í það á ferðum okkar til útlanda því að sá veruleiki sem hér um ræðir er afskaplega alþjóðlegur, miklu alþjóðlegri en flestir átta sig á, og hann tengir sig á lítt sýnilegan hátt í allar áttir. Við höfðum uppgötvað að til voru frábærar bókabúðir víða um heim og þá var eftirleikurinn auðveldur. Það eina sem okkur skorti voru peningar því að sjóðurinn til bókakaupa var aldrei digur, vægast sagt. Bókabúðirnar hétu eftirminnilegum nöfnum, ég man til dæmis Giovanni’s Room, Oscar Wilde Memorial Bookstore og Calamus Bookstore í Bandaríkjunum, Öll þessi verslunarnöfn eru vísanir í bókmenntasögu homma. Í Stokkhólmi var það Rosa Rummet sem er stríðnisleg vísun í sjálfan Strindberg. Í London var sennilega sú búð sem mér þótti best og merkilegust, Gay Is The Word. Í Amsterdam voru það Intermale og Vrolijk, sem stendur ein 50 skref frá sjálfri konungshöllinni (það fannst okkur dreifbýlishommunum táknrænt fyrir hollenskt lýðræði), og í Vestur-Berlín var það Prinz Eisenherz, en svo heitir Prins Valiant á þýsku, átrúnaðargoð margra ungra homma á þessum árum, áður en þeir fundu fyllilega til kynhvatarinnar. Sumar þessar verslanir lifa enn og berjast fyrir lífi sínu, aðrar hafa gefist upp frammi fyrir netmarkaði okkar daga. Sumar þeirra sinntu báðum kynjum, flestar þó hommum. Að afla bóka fyrir stúlkurnar var nefnilega töluvert flóknara en þegar strákarnir áttu í hlut því að lesbískar bókmenntir þeirra tíma var helst að finna í sérstökum kvennabókabúðum og þangað fengu karlar yfir fermingu ekki að koma inn á þeim árum. Svolítið vandræðalegt, satt að segja, því að það voru einkum piltarnir í félaginu sem sinntu vexti og viðgangi safnsins fyrstu árin. Bækur og rit um tvíkynhneigt fólk, sem svo hét á þeim árum, þær voru sárafáar, og transfólk var eiginlega ósýnilegt í viti borinni bókaútgáfu þeirra tíma. Svo var allt fram á nýja öld.

Við á Íslandi horfðum öfundaraugum á allt þetta. Við höfðum auðvitað enga burði til að stofna okkar eigin bókaverslun en við gátum stofnað bókasafn. Og eftir á að hyggja var safn Samtakanna ´78 eitt merkasta og óvenjulegasta einkaframtak í menningarmálum Íslendinga á ofanverðri síðustu öld. Með nokkur þúsundir titla í hillum sínum menntaði þetta safn kynslóðir hinsegin fólks á Íslandi á þann hátt sem annars hefði ekki orðið – og það er trúlega dýrmætasti ávinningur þessarar iðju. Því efni af því tagi sem hér um ræðir var ekki til í öðrum íslenskum söfnum fyrr en undir aldamót og hefur svo sem aldrei dafnað þar að neinu marki.

Það var stór áfangi í sögu þessa safns þegar það fluttist í nýja félagsmiðstöð á Laugavegi 3 og eignaðist þar verðugt rými árið 1999. Tveimur árum síðar varð það svo sýnilegt á Gegni, upplýsingaveitunni sem Landskerfi bókasafna stendur að. Þar stöndum við í stórri þakkarskuld við Jón Sævar Baldvinsson bókasafnsfræðing sem vann mikið afrek í átt til sýnileika safnsins með því að skrá það allt á Gegni og annast nýskráningu árum saman.

Þegar bókasafn Samtakanna ´78 finnur nýjan stað í nýjum hillum er það einlæg ósk gefanda að það fólk sem annast það og varðveitir beri gæfu til að auka það með innkaupum í framtíðinni. Bækur eiga það sameiginlegt þeim sem lesa þær að þær vilja trosna og losna úr kjölnum, eldast og úreldast, og því er okkur félagsfólki Samtakanna ´78 það sérstakt metnaðarmál að þessi safnkostur megi vaxa og dafna í Þjóðarbókhlöðu fyrir sameiginlegt átak okkar allra.

Ég óska okkur öllum til hamingju með þennan góða áfanga í menntunar- og safnasögu þjóðarinnar.

Þorvaldur Kristinsson 

Leave a Reply