Skip to main content
Uncategorized

Don‘t ASK… Don‘t TELL

By 13. nóvember, 2009No Comments

Í mánuðinum sem leið vakti það töluverða athygli vestan hafs að Barack Obama Bandaríkjaforseti ítrekaði gefin kosningaloforð sín um að afnema kindarlega lagasetningu Bills Clintons forvera síns frá 1993 sem mismunar samkynhneigðu fólki að þjóna í Bandaríkjaher, flota, flugher og landhelgisgæslu. Orðin „ég mun afnema Don‘t ask, don‘t tell, því lofa ég ykkur“ lét Obama forseti falla í formlegu boði hjá einu af réttindabaráttufélögum samkynhneigðra þar vestra, hinu sk. Human Rights Campaign kvöldið fyrir mikla kröfugöngu trans, sam- og tvíkynhneigðs fólks í höfuðborginni Washington, D.C. þann 11. október síðastliðinn.

Þrátt fyrir að loforð af þessu tagi hafi heyrst áður og að Obama hafi ekki nefnt neina tímasetningu í þessu sambandi þykja nú meiri vonir standa til en áður að málið hljóti loks brautargengi. Fyrir okkur Íslendingum kemur þetta hark um vopnaskak ef til vill örlítið spánskt fyrir sjónir, en meðal stærri þjóða og ekki síst í stórveldinu U.S. of A. er herþjónusta meðal höfuðdyggða í þjóðarsálinni, kannski eins og að hafa unnið ærlega vinnu í fiski hérna heima. Þess utan býður herinn (ef maður lifir af þeas) upp á allnokkur tækifæri og réttindi sem oft reynast fólki af t.d. efnaminni ættum fyrsta og mikilvægasta skrefið uppávið í þjóðfélagsstiganum; uppgjafahermenn eru leystir út með sérstökum atvinnutryggingum/bótum, dágóðum námsstyrkjum og njóta forgangs þegar kemur að margskonar stöðuveitingum og úthlutunum, jafnt hjá hinu opinbera sem og einkaaðilum sem njóta þess að baða sig í hlýju þjóðernisstoltsins. Síðast en ekki síst býður þjálfunin sjálf upp á menntunartækifæri sem annars væru lokaðir heimar fyrir mörgum. Það er því ekki af einskærum patríótista-fasisma sem hommar og lesbíur í Amríku vilja njóta sannmælis á við kynvísa meirihlutann í hernum, um er að ræða jafnmikið kjaramál og baráttan fyrir að gera mismunum á vinnustað eða í skóla ólöglega.

Stefnan sjálf, Ekki-spyrja, Ekki-segja (ESES) er vandræðaleg málamiðlun demókrata og repúblikana á þingi frá árinu 1993, í tilraun þeirra fyrrnefndu til að efna kosningaloforð Bills Clintons þá nýkjörins forseta um að afnema blátt bann við samkynhneigð í hernum. Bill gamli vildi fara alla leið og lyfta banninu alveg, en eins og síðar í sjúkratryggingabaslinu lenti hann í sjálfheldu með þingmeirihluta fyrir áformum sínum og því fór sem fór. Niðurstaðan varð sú að samkynhneigðu fólki leyfist að þjóna í hernum, en þó því aðeins að þeir haldi kenndum sínum 100% leyndó og uss-uss fyrir félögum sínum. Yfirmönnum er aftur á móti bannað að spyrja eða rannsaka að fyrra bragði kynhneigð fólks á þeirra forræði, en ef upp kemst hommaskapur er þeim skylt að reka viðkomandi með skömm (e. dishonorable discharge), sem eru sömu viðurlög og ef viðkomandi hefði hlaupist undan merkjum ellegar orðið uppvís að glæpum. Í þessu samhengi er vert að geta þess að sá sem er rekinn með skít og skömm með slíkum hætti missir öll réttindi þau sem áður var minnst á.
Gallarnir eru þó ívið fleiri en þessir. Mikill tilkostnaður hlýst af því að sparka fólki sem er búið að fullþjálfa úr hernum og senda það heim, þjálfa upp staðgengla o.sv.frv. Fyrir utan glataðan mannauð hersins, sem einnig á við manneklu að etja þessa dagana, er beinn kostnaður skattgreiðendanna talinn hlaupa á 400-500 milljónum dollara(= ca. 50milljarðar ISK) árlega sakir þessara trakteringa. Mannauðinn sjálfan er erfiðara að meta, en á það hefur verið bent að mikið af túlkum og fólki með sérfræðiþekkingu hafi tapast í gay-brottrekstri. M.ö.o. ómissandi starfskraftar í grátóna stríðum Kanans við hryðjuverkaöfl sem reka sína baráttu dulin í fjöldanum og menningu sinna framandi landa. Ennfremur er það morgunljóst að ESES, í skjóli þess að þagnargildið er æðra manngildinu, skapar gróðrarstíu fyrir einelti, fjárkúgun og jafnvel líkamsárásir og morð á meintum samkynhneigðum hermönnum eins og dæmi hafa sannað.

Að framansögðu má sjá að stefnan er handónýt fyrir alla hlutaðeigandi, en það sem hefur einna helst skotið undan henni lappirnar á síðustu árum er sú staðreynd að mörg bandalagsríki stóra landsins hafa núorðið aflagt hommabönn í herjum sínum í þágu samfélagsréttlætis jafnt og heilbrigðrar skynsemi. Það skýtur skökku við á 21. öldinni að sjá Bandaríkin streitast við að halda skáphurðunum lokuðum fyrir sínu fólki á meðan samherjar þeirra í NATO (þ.m.t. flestöll Evrópulönd) þjóna fyrir opnum tjöldum öxl við öxl með þeim í skotgröfum Afganistans og Íraks.

Reynsla þessara þjóða af afnámi ríkisstýrðrar hinseginfælni hefur nefnilega öll verið á þann veg að skrattarnir sem móðursjúkir afturhaldsmenn máluðu á vegginn af siðrofi, nýliðunarvanda og agavandamála hafa reynst staðlausir stafir. Það er því orðið meira en lítið pínlegt fyrir Obama & co að halda áfram að sleikja fýluna úr þinggrýlum repúblikana sem mest eru forpokaðastir í þessum málum eins og venjulega.
Öllum er ljóst að breytingar taka sinn tíma og sérstaklega tekur það oft drykklang
a stund að troða þeim með harmkvælum gegnum íhaldsnálaraugað Bandaríkjaþing, þar sem það þykir mikið sport að vera þrjóskur og gamaldags, svipað og hérna heima stundum. „Good things come to those who wait“ segja þeir vestra og láti guð á gott vita í kjölfar stefnumörkunar Obama forseta. Það er hinsvegar óbætanleg synd og skömm að meira en 13.000 manns hafi þurft að þola niðurlægingu og brottrekstur af hendi einnar af höfuðstofnunnar amerísks samfélags vegna þessara pólítísku látaláta í millitíðinni.

Sem viðeigandi lokaorð í grein þessa um hermennsku samkynhneigðra má rifja upp eftirmæli Filippusar Makedóníukonungs (föður Alexanders mikla) um Ἱερὸς Λόχος τῶν Θηβῶν,* sérstaka hersveit Þebuborgar í Forn-Grikklandi sem barðist og féll óbuguð til síðasta blóðdropa í úrslitaorrustu gegn honum um yfirráð yfir Grikklandsskaganum;

“Deyði hvern þann sem grunar þessa menn um að hafa gert eða liðið einhverja vansæmd í lífi sínu.”

* Sérsveit þessi var öll skipuð pörum samkynhneigðra elskenda. Þeir stóðu einir saman umkringdir eftir að aðrir flúðu og neituðu að gefast upp. Minnismerki áþekkt því um 300 Spartverjana í Laugaskörðum stendur ennþá á staðnum þar sem þeir féllu.

Þ.S.B.

Leave a Reply